30.04.1980
Efri deild: 72. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2213 í B-deild Alþingistíðinda. (2067)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að þrátta um þessar prósentur, samlagningu eða margföldun, en það vill reyndar svo til, að ef tölurnar eru lagðar saman kemur út 41.1, en ef þær eru margfaldaðar saman kemur út 47.8.

Það, sem ég vil gera að umræðuefni hér, er sá málflutningur sem hæstv. forsrh. hefur tíðkað og ýmsir aðrir ráðh., að tala mjög um geymdan vanda og láta sem svo að ríkisstj. Alþfl. hafi ekki afgreitt mál. Þetta er alrangt, eins og hæstv. forsrh. á að vera ljóst. Það lá engin óafgreidd umsókn frá opinberri stofnun eftir þegar ríkisstj. Alþfl. skilaði af sér. Það sama gilti um ákvarðanir verðlagsráðsins. Þær höfðu verið staðfestar, a. m. k. allar sem voru eldri en 4–5 daga gamlar og voru þess vegna komnar á skrifborðið. Þetta er fráleitur málflutningur, sem mér finnst aumingjalegur hjá ríkisstj., að ætla sér að kenna öðrum um eigin ófarir.

Það hefur oft verið tíðkað hér á Íslandi að ríkisstj. skildu illa við, og gleggsta og besta dæmið er náttúrlega ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar, sem hæstv. núv. forsrh. sat í. Hún skildi við þannig, að atvinnuvegirnir voru komnir að stöðvun og hluti viðskilnaðarins var dulin gengislækkun upp á a. m. k. 15%. En svona var alls ekki viðskilnaðurinn hjá ríkisstj. Alþfl. Þær beiðnir, sem höfðu borist frá opinberum aðilum, höfðu verið afgreiddar. Þær höfðu verið afgreiddar með samræmdum hætti og með tilliti til þess að allir stjórnmálaflokkar höfðu talað um að hafa hemil á verðbólgunni. Flestir töluðu um hafa markið í kringum 30%, það væri markið sem ætti að stefna að. Afgreiðsla ríkisstj. Alþfl. á þeim verðlagsbeiðnum, sem bárust, var í samræmi við þau markmið sem allir stjórnmálaflokkar höfðu skrifað undir. Hún var í þá veru, að verðlagshækkununum var haldið innan við 35% miðað við ársgrundvöll. Þetta var í fyrsta skipti, a. m. k. í langan tíma, sem afgreiðslur gengu greiðlega og voru allar gerðar með samræmdum hætti. Það tókst ágæt samvinna við verðlagsráðið um afgreiðsluna, að setja tiltekinn fastan ramma til að fara eftir til að hafa hemil á verðhækkununum. Og það tókst. Þetta hefði núv. ríkisstj. auðvitað átt að notfæra sér.

Niðurtalningin var í raun og sannleika hafin í ríkisstj. Alþfl. og það lá ekkert eftir óafgreitt. Það var hvorki um leyndan né geymdan vanda að ræða. Þeir, sem halda því fram að þarna hafi verið um leyndan vanda að ræða, ættu að gæta að því að allar þessar ákvarðanir voru opinberar, ekki einungis ákvarðanir ríkisstj. Alþfl., heldur líka óskir allra fyrirtækjanna sem um var að ræða, þannig að það lá algjörlega ljóst fyrir og var engu leynt.

Mér þykir dálítið einkennilegur málflutningur hæstv. forsrh. — eða kannske ég ætti að nota það orðfæri, sem hann var með sjálfur, og segja að sá málflutningur væri ekki sæmilegur að kenna ríkisstj. Alþfl. um eigin ófarir? Og ég get sagt það sama um þann málflutning hæstv. forsrh. að tala um það sem sérstakt stefnumið ríkisstj. sinnar núna, eins og hæstv forsrh. tók til orða, að leyfa ekki jafnmiklar verðhækkanir og farið yrði fram á og eins og venja hefur verið til. Þessu lýsir hæstv. forsrh. yfir núna sem stefnumiði sinnar ríkisstj., að sýna þarna eitthvert aðhald, fara ekki eins hátt og um er beðið og venja hefur verið til. Á sama tíma verður hann ekki skilinn öðruvísi og heldur því meira að segja fram ítrekað að ríkisstj. Alþfl. hafi ekki leyft nógu miklar verðhækkanir. Hún hefur þá ekki verið nógu venjuleg eftir þessari formúlu. Hæstv. forsrh. leyfir sér sem sagt með öðru orðinu að boða stefnu, sem hann framkvæmir ekki, um aðhald og hrósa þeirri stefnu, en að hinu leytinu að ráðast á Alþfl. fyrir að framfylgja þeirri stefnu sem forsrh. er þó að boða í hinu orðinu inn á milli.

Ég tel að það sé mikill ljóður á íslenskum stjórnmálum að menn temji sér málflutning af þessu tagi. Sannleikurinn er auðvitað sá, að ríkisstj. Alþfl. skilaði af sér tiltölulega mjög góðu búi, a. m. k. eftir aðstæðum, og betra en yfirleitt hefur átt sér stað þegar ríkisstj. hafa skilað af sér. Nærtækasta dæmið í þeim efnum er auðvitað ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar, sem hæstv. núv. forsrh. átti sæti í.

Ég held að það væri nær fyrir núv. hæstv. ríkisstj. að gá að því, hvað það er mikið sem hún er búin að bæta ofan á verðbólguhraðann með þeim aðgerðum sem hún hefur gripið til. Hvað skyldi vera mikið sem hún hefur bætt ofan á verðbólguhraðann vegna hækkana á áfengi og tóbaki eða vegna hækkana á vegaskatti eða vegna hækkana á söluskatti? Þetta skyldi þó ekki nema um 2%, bara þetta þrennt. En þar fyrir utan hefur ríkisstj. verið að bögglast við að boða niðurtalningu í svo langan tíma að margir aðilar í þjóðfélaginu hafa hlaupið til og komið hækkunum út í verðlagið áður en niðurtalningin hæfist. Það er þetta sem menn hafa upp úr því að boða eitt, en gera svo annað.

Ég vil ítreka það, að ég tel það rangan og — svo ég noti orð hæstv. forsrh. — ósæmilegan málflutning hjá hæstv. ráðh. að kenna ríkisstj. Alþfl. um eigin ófarir. Ég tel það ósæmilegt alveg eins og hæstv. forsrh. notaði hér áðan þetta orðfæri. Sannleikurinn er sá, að málin voru öll afgreidd og þau voru afgreidd með samræmdum hætti og þannig var skapaður stökkpallur fyrir þá ríkisstj., sem tæki við, til að halda fast á þessum málum, sýna það aðhald sem forsrh. boðar, en ríkisstj. sýnir ekki.