30.04.1980
Neðri deild: 67. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2244 í B-deild Alþingistíðinda. (2128)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 3. minni hl. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Það er nú ekki að sjá að hæstv. ráðh. hafi mikinn áhuga á að fylgjast með framgangi þessa máls. Þeir eru sjálfsagt ánægðir yfir þeirri staðreynd, að þeim ætli kannske að takast það á síðustu mínútum þessa sólarhrings að gera þetta frv. að lögum, svo þokkalegt sem það þá yrði að því er varðar komandi dag, sem er hátíðis- og frídagur verkamanna.

Það er engu líkara en hæstv. ráðh. — og raunar stjórnarliðar allir — hafi svarið þess dýran eið, að enginn mannlegur máttur skyldi koma í veg fyrir að þeim takist að koma þessu máli í gegn fyrir 1. maí, og það hafi verið aðaltakmarkið, fyrir þann tíma sem verkalýðshreyfingin í landinu hlýtur að láta til sín heyra um stöðuna í samningamálunum. Ég held að ég hafi orðað það svo í gær við 1. umr. þessa máls hér í d., að nú væri að ljúka nálega fimm vikna þrauta- og sálarstríði hæstv. fjmrh., pólitísku sálarstríði út af þessu máli. En það yrði aðeins stundarfriður. Aðalatriðið mundi að sjálfsögðu skella á þegar öllum almenningi í landinu birtast skattseðlar, væntanlega um mitt sumar, og það er engin spurning í mínum huga, þó að hæstv. fjmrh., sem fyrst og fremst ber ábyrgð á þessu frv., telji sig hafa unnið þessa lotuna með því að koma málinu hér í gegnum Alþ., — þá er enginn vafi á því að hann mun tapa hinu síðara stríði. Ég held ég hafi orðað það svo hér í gær, að mér kæmu í hug í sambandi við þennan stundarsigur í stríði hæstv. fjmrh. hin gullfallegu orð í upphafi sálmsins: „Þegar ég leystur verð þrautunum frá“, en mér kemur enn í hug, þegar ég hugsa til lokastríðsins, hvort þar gæti ekki átt við um pólitískt líf hæstv. núv. ríkisstj. upphaf sálmsins þar sem segir: „Kallið er komið, komin er nú stundin.“ Það skyldi nú ekki verá að ýmsum kæmi það í hug, þegar almenningur í landinu — og þá kannske fyrst og fremst launafólk — fær að sjá í reynd iðjusemi þessara stjórnarherra við að auka álögur á almenning í landinu?

Það hefur orðið æ ljósara, eftir því sem menn hafa fengið betri tíma til að skoða þetta mál, að með þessa frv. eru lagðar geigvænlega miklar viðbótarálögur á almenning. En samfara því, að flestum hefur orðið þetta ljóst, hafa hæstv. ráðh. orðið æ gírugri í að keyra málið í gegnum þingið og ljúka afgreiðslu þess þannig að það yrði að lögum fyrir morgundaginn. Það virðist nokkuð ljóst t. d., að frv., eins og það var afgreitt af stjórnarliðum í Ed., felur í sér í kringum 18% hækkun tekjuskatts miðað við framreikning gamla skattakerfisins. Það er því engin furða þó að menn vilji reyna alveg fram á síðustu stund að spyrna við fótum og gera a. rn. k. tilraun til að koma í veg fyrir að slíkt axarskaft sem hæstv. ríkisstj. er hér að fremja nái fram að ganga. Því að þetta er ekki bara spurning um það að hækka stórkostlega álögur á almenning í landinu með þessu frv. Það er líka spurning um það — sem allt virðist benda til að verði — að hæstv. ríkisstj. spilli með þessum framgangsmáta svo fyrir hugsanlegri lausn samningamála á vinnumarkaðinum að til stórátaka geti komið og það fyrr en síðar — fyrst og fremst vegna aðgerða hæstv. ríkisstj. Og það er ekki síður alvarleg hlið á þessu máli.

Hv. þm. Matthías Á. Mathiesen minntist á það áðan, að enn væri ekki vitað um afstöðu fulltrúa Alþb., þ. e. annars stjórnarflokksins í fjh.- og viðskn., til þessa máls. Það er kannske í raun og veru ekkert vitað enn á þessari stundu hvort þessi hv. fulltrúi Alþb. og fjmrh. í viðkomandi nefnd hér á Alþ. ætlar sér að taka þátt í afgreiðslu málsins. Það getur alveg eins hugsast að hann ætli sér að mótmæla þessum vinnubrögðum og þessum álögum, þessari aðför að launafólki í landinu, með því að taka ekki þátt í afgreiðslu málsins með hæstv. ríkisstj. Og það yrði vissulega eftir því tekið, ef sá fulltrúi einn í þingflokki Alþb., sem enn sýnir merki þess að hann beri hag launafólks fyrir brjósti, tæki þessa afstöðu á lokastigi málsins. Hitt mun öllum ljóst, hver afstaða fulltrúa gáfumannadeildarinnar í Alþb. mun verða. Það skyld í nú ekki vera, að afstaða formanns Verkamannasambandsins, Guðmundar J. Guðmundssonar, kunni að ráða úrslitum um það hvort þetta verður að lögum um eða eftir miðnætti, hvort það verður að lögum nokkrum mínútum áður en frídagur verkamanna rennur upp eða hvort hæstv. ríkisstj. tekst að haga svo málum hér í þinginu að sjálfur baráttu- og frídagur verkamanna verði til þess notaður, að ríkisvaldið reki launafólki þennan löðrung. Allt þetta á eftir að koma í ljós.

Þess hefur orðið vart hér síðari hluta dags, að mikils óróa hefur gætt í sumum hópum stuðningsliðs hæstv. ríkisstj. Þó að um margt megi nú segja, að sérkennileg staða hafi verið hér á Alþ. í raun og veru allt frá því að hæstv. ríkisstj. tók við völdum, þá er það þó sérkennileg staða að ekki skuli vera um að vitað tveimur, þremur klukkustundum áður en gengið er til lokaafgreiðslu á stjfrv., hvort slíkt frv. nýtur meirihluta fylgis hér á Alþingi. Um þetta er ekkert vitað. Frekar bendir það til þess að frv. hafi ekki meirihlutafylgi hér í deildinni.

Það er út af fyrir sig rétt sem hv. frsm. — nú má ekki segja þeirra stjórnarliða hér á Alþ., það er ekki um það vitað enn — en hv. þm. Halldór Ásgrímsson, frsm. 1. minni hl., sagði í upphafi þessarar umr. í kvöld, að svo margt væri búið um þetta mál að tala að raunar væri engu við það að bæta. Það má til sanns vegar færa að svo sé. En þó er að ég hygg æðimikið sem enn mætti upplýsa og gæti orðið til þess að opna augu enn fleiri hv. stuðningsmanna ríkisstj. hér á Alþ., þannig að innra með þeim fari að hrærast eitthvað svipað og hjá hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni. Ef sá árangur næðist, þá væri það albesta gjöfin sem hægt væri að færa íslenskri verkalýðshreyfingu og launþegum á komandi degi. Væri hægt að koma í veg fyrir að þessi hnefi hæstv. ríkisstj. yrði látinn lenda á launafólki að morgni, þá væri það sannarlega góð gjöf, ekki hvað síst láglaunafólkinu í landinu til handa.

Í umr. um þetta mál hefur verið gerð grein fyrir afstöðu Alþfl. til málsins. Á það hefur verið bent og það er staðreynd, að vegna áhrifa Alþfl. í Ed. þingsins hafði hæstv. fjmrh. af hólmi og gerðist ekki eins djarfur í skattheimtu við suma þjóðfélagsþegna og hann ætlaði sér í upphafi með frv. Það var ljóst og hæstv. ráðh. sannfærðist um það eftir ítrekaðar ábendingar Alþfl. við umr. í Ed., að þó að vissulega væri við því að búast af honum að hann seildist sem dýpst í vasa skattgreiðenda, þá væri hann um of gírugur í tillögum sínum um skattlagningu þeirra tekjulágu og einhleyps fólks og einstæðra foreldra. Úr þessu var dregið, sem betur fer, en þrátt fyrir þetta er frv. — eins og það hefur verið afgreitt af stjórnarliðum í Ed. — þess eðlis að af því leiðir stórkostlega íþyngjandi skattheimtu á öllu launafólki í landinu og þá fyrst og fremst því fólki sem ætti hvað mest að hlífa.

Margoft hefur verið á það bent, og nú síðast ítrekað af Verkamannasambandi Íslands, að líklega væri eina raunhæfa leiðin til þess að rétta hlut láglaunafólksins og komast með skaplegum hætti frá þeirri samningsgerð, sem nú stendur yfir, að lækka skatta, fyrst og fremst á lágtekjufólki. Þetta er auðvitað aðalatriðið, ef menn vilja í raun og veru horfast í augu við þær staðreyndir sem við blasa í þjóðfélaginu. Alþfl. telur að þessi skattahækkunarstefna hæstv. ríkisstj. sé bæði röng og skaðleg, og að miklu fremur nú en oftast áður beri nauðsyn til þess að draga úr skattheimtu til að vernda raunkjör í landinu og þá fyrst og fremst kjör lágtekjufólks. Og þetta er að sjálfsögðu hægt ef stjórnvöld vilja fara þessa leið.

Eins og hér hefur komið fram fluttu fulltrúar Alþfl. í Ed., bæði við 2. og 3. umr. málsins þar, brtt. sem miðuðu að því að nálgast það stefnumark að snúa af braut stórkostlegrar skattahækkunar til þess að lækka skatta og um leið að vinna með raunhæfum hætti að lausn kjaradeilna — og að því markmiði hæstv. ríkisstj., sem hún hefur í orði og á blaði, en ekki í verki, að minnka verðbólguna í þessu landi, sem í raun og veru er kannske mesta og besta kjarabótin til handa láglaunafólkinu. Þessu er ekki sinnt og virðist augljóst að hæstv, ríkisstj. ætlar að keyra þessa skattahækkunarstefnu í gegnum þingið. Þá verður hún að taka afleiðingum af þeim gerðum sínum.

Enn verður þess freistað af hálfu Alþfl. við umr. þessa máls hér í Nd. af ná fram breytingu á þessari skattastefnu hæstv. ríkisstj. Um það flyt ég till., brtt. á þskj. 386, sem eru í sjálfu sér einfaldar og þarfnast ekki skýringa, en þó er kannske rétt að víkja að þeim örfáum orðum. Hér er um að ræða brtt. um skattstiga. Samkv. frv., eins og það var afgreitt frá Ed., er gert ráð fyrir að af fyrstu 3 millj. af tekjuskattsstofni eigi að reiknast 25% tekjuskattur og af næstu 4 millj. af tekjuskattsstofni skuli reiknast 35% tekjuskattur. Af tekjuskattsstofni, sem er yfir 7 millj., á að reiknast 50% tekjuskattur samkv. því sem stjórnarliðar samþykktu í Ed. Brtt. á þskj. 386 gerir ráð fyrir að af fyrstu 2.5 millj. greiðist einvörðungu 16% tekjuskattur, af næstu 3.5 millj. reiknist 32% og af yfir 6 millj. reiknist 48% skattur. Hér er um að ræða tilraun til að hlífa fólki í landinu sem verst er sett og með engum hætti getur tekið á sig auknar skattbyrðar, það ætti mönnum að vera ljóst. Síðan er gert ráð fyrir í brtt. á þskj. 386 að persónuafsláttur manna verði 425 þús. kr., en í frv., eins og það var afgreitt frá Ed., er hann 505 þús.

Í fskj. með nál. 3. minni hl. fjh.- og viðskn. á þskj. 385 er gerð grein fyrir því, hvað þetta í raun og veru þýðir til lækkunar á skattheimtu miðað við hin ýmsu tekjubil, annars vegar með skattstigum þeim, sem Alþfl. gerir till. um, og hins vegar þeim skattstigum, sem hæstv. ríkisstj. ætlar að lögleiða. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara yfir þær tölur, þær skýra sig sjálfar og er ekki ástæða til þess að eyða tíma í það. En ég undirstrika að þessar brtt. Alþfl. eru í samræmi við þá stefnu sem launþegasamtökin í landinu hafa lagt til að farin yrði, miðað við þær kringumstæður sem í þjóðfélaginu eru.

Ríkisstj. eins og núv. hæstv. ríkisstj., sem lýst hefur því yfir, ráðh. eftir ráðh. og margoft hver um sig, að eitt af höfuðmarkmiðum hennar sé náið samstarf og samvinna við verkalýðshreyfinguna og launþegasamlökin til að leysa aðsteðjandi vandamál, — ríkisstj., sem hefur þetta á vörunum, en allt annað í framkvæmd, vinnur ekki traust verkalýðshreyfingarinnar eða launþega í landinu. Hún slær á framrétta hönd þessara aðila til að leysa þau vandamál sem uppi eru, og hún gerir kannske meira en það. Hún heldur þannig á málum, að allt bendir til að hún stefni öllu í bál og brand á vinnumarkaðinum ef fram heldur sem horfir. Og það er vissulega þung ábyrgð sem hæstv. ráðh. taka á sig með þeim vinnubrögðum.

Ég skal ekki, herra forseti, eyða öllu lengri tíma í að ræða þetta mál. En það er von mín og það er von Alþfl. og það er von launþegahreytingarinnar í landinu, að það takist — þó ekki væri nema að örlitlu leyti — að snúa hæstv. ríkisstj. af villu síns vegar í þessu máli til að komast megi hjá þeim illvígu deilum sem augsýnilega verða ef hæstv. ríkisstj. ætlar að halda því striki sem hún hefur nú tekið. Fari hins vegar svo, mót von Alþfl. og mót von láglaunafólksins í landinu, að stjórnarliðar á Alþ. haldi fram þeirri skattpíningarstefnu sem þeir hafa markað, þá er það enn eitt dæmið um þá forheimskun sem hæstv. ráðh.., ríkisstj. og stjórnarliðarnir hér á Alþ. — allir sem einn, kannske að einum undanteknum — virðast vera haldnir. (Gripið fram í: Hver er það?) Það er spurningin. Það kemur væntanlega í ljós við lokaafgreiðslu málsins, hvort og þá hver hann er. Ég vænti þess, að hv. skrifari d. taki þá eftir og hugsanlega læri ef vel tekst til við lokaafgreiðslu málsins.

En það verður líka tekið eftir því — og það ættu hv. stjórnarliðar að muna, það verður líka tekið eftir því á morgun á meðal launafólks, hvort þeir nota fyrstu mínútur eða klukkustundir 1. maí til þess að reiða þetta hnefahögg að andliti launafólks í landinu með því að keyra þetta mál í gegnum þingið í algeru trássi við og gegn mótmælum allra launþegasamtaka í landinu og nota til þess baráttu- og frídag verkamanna. Eftir því verður tekið á morgun um allt land, hversu margir og hverjir stjórnarliðar það verða sem reiða það hnefahögg í andlit launafólks 1. maí.