03.05.1980
Sameinað þing: 51. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2294 í B-deild Alþingistíðinda. (2166)

129. mál, nýting ríkisjarða í þágu aldraðra

Flm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 226 hef ég leyft mér ásamt þeim hv. þm. Stefáni Jónssyni og Skúla Alexanderssyni að flytja till. til þál., svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta fram fara könnun á þeim möguleika að nýta ríkisjarðir í nánd við þéttbýlisstaði með góða heilsugæsluaðstöðu sem dvalarheimili fyrir aldraða eða festa kaup á jörðum í þessu skyni.

Dvalarheimilin yrðu byggð upp sem smáar einingar, þar sem búandfólk, sem flytja þarf af bújörðum sínum vegna aldurs eða heilsubrests, gæti haft smábúskap, sameiginlega eða út af fyrir sig undir ákveðinni yfirstjórn og með vissri aðstoð.

Reynt yrði að tengja slík heimili svo sem kostur væri við smáiðnað í sveitum einnig.“

Till. þessi var flutt á 100. löggjafarþingi, en varð þá eigi útrædd.

Upphafið að tilurð þessarar till. var það, að kona ein, sem hefur lengi og mikið haft afskipti af málefnum aldraðra og ýmiss konar aðstoð og afþreyingu þeim til handa, kom að máli við mig og skaut að mér hugmynd um leið sem hana hafði lengi dreymt um að framkvæma fyrir eldra fólk í sveitum. Skömmu síðar kom aldraður maður inn í þessa mynd með greinargóðu bréfi um vanda hinna öldruðu úti í sveitunum og ýmsum hugmyndum til úrbóta. Orðrétt sagði í bréfinu, með leyfi hæstv. forseta:

„Allt of lengi býr fólk á jörðum sínum langt um megn sér af 6tta við það að þurfa að skipta algerlega um umhverfi, verða að flytja á elliheimili í kaupstað eða kaupa sér íbúð, sem gæti hæglega bundið því bagga til framtíðar og skapað því áhyggjur á ævikvöldi, öfugt við það sem sjónvarpsauglýsingin segir frá DAS.“

Og síðar í sama bréfi:

„Hvað með nýtingu ríkisjarðanna í þessu efni? Er þeim öllum svo vel ráðstafað? Dæmi þekki ég um hið gagnstæða, en veit raunar um vel setnar og vel hýstar jarðir með fyrirmyndarbúskap. Mætti ekki alveg hugsa sér að ríkið keypti jarðir til þess, sem ég hef verið að minnast á, og geri betur síðar? Varla væri fjármunum ríkisins betur varið ef vel tækist til um framkvæmdina, sem ég efa ekki að yrði ef rétt yrði að því staðið.“

Og að lokum ein tilvitnun enn úr bréfinu, með leyfi hæstv. forseta:

„Frumskilyrði tel ég það að vel takist til með ráðsmenn á svona búum, sem gætu gert alla ánægða, skapað þeim vinnutækifæri eins og unnt væri og séð um að búið í heild skilaði arði, þó ekki yrði um neinn ágóða að ræða sem máli skipti, enda ekki meiningin. Ég sé að þú ert með till. um iðnað í sveitum. Gæti það ekki komið þarna til viðbótar búskapnum? Ekki hugsa ég mér neina framleiðslu að ráði á þessum jörðum, enda á slíkt nú víst ekki upp á pallborðið hjá mörgum í dag, þó vel megi segja mér að þetta eigi eftir að breytast.“

Bréfið endar þessi greindi maður með hvatningu til mín um að láta a. m. k. kanna málið og hreyfa því á Alþ. Þetta hef ég gert með þessari till. og hef þó raunar ekki enn gert fyllilega upp við mig endanlegt form og fyrirkomulag, ef einhver hreyfing kæmist á málið. Til þess er ályktunin orðuð svo, að könnun skuli framkvæmd á möguleikum þess fyrirkomulags sem hér er fitjað upp á. Eflaust þykir einhverjum að hér sé, eins og hjá konunni er ég minntist á í upphafi, um draumóra að ræða. En við nánari athugun og umhugsun þessa máls hef ég sannfærst um að verði vel að unnið er hér um möguleika að ræða, — möguleika sem ég efa ekki að yrðu vel þegnir af ýmsum og gæfu þeim þá lífsfyllingu sem við leitum að öll meira og minna.

Grg. segir í raun allt annað um þessa till. og því vil ég, með leyfi forseta, lesa hana:

Aðstaða aldraðra í þjóðfélaginu til að njóta ævikvöldsins sem best hefur verið mjög til umræðu á undanförnum árum. Þjóðfélagsþróunin hefur orðið þess valdandi, að í raun blasir við æ meiri einangrun þessa fólks, ef ekkert er að gert. Eitt veigamesta atriðið í velferð aldraðra á elliárum þeirra er öruggt athvarf og aðstæður til að starfa svo lengi sem frekast er kostur.

Athugun á atvinnumálum aldraðra var samþ. í formi þál. fyrir nokkrum árum, en 1. flm. þeirrar till. þá var Svava Jakobsdóttir. Hægt mun þar miða, því miður, og er þó ærin þörf sem eftir kallar. Fólk með skerta starfsorku hefur engu síðri þörf fyrir að veita henni útrás og öðlast þannig aukna lífsfyllingu en þeir sem við fulla starfsorku búa.

Sé grannt skoðað um aðstæður allar er þörfin sennilega enn meiri m. a. í ljósi þess, að þetta fólk vill mörgum öðrum fremur leggja sitt af mörkum, vera hlutgengari þjóðfélagsþegnar með virkni sinni í atvinnulífinu.

Eitt með því alvarlegra, sem blasir við okkur varðandi allt of margt fólk, er sú mikla og snögga lífsvenjubreyting og oft algera röskun sem högum þess verður við það t. d. að flytjast inn á elliheimili. Þessi þáltill. beinist að könnun á því, hvernig e. t. v. sé unnt að taka að hluta á þessu vandamáli hjá því fólki, sem verður að þola hér mest umskipti og röskun á öllum högum sínum, þ. e. aldrað fólk í sveitum. Sem betur fer á mikill hluti þess kost á athvarfi heima hjá sér allt til hins síðasta, en hins vegar munu þó dæmin fleiri, ekki síst vegna þeirrar miklu fólksfækkunar sem í sveitum hefur orðið og síður en svo sér nú fyrir endann á.

Ríkið á margar ágætar jarðir um land allt, sumar vel hýstar og vel setnar, aðrar annað hvort, enn aðrar eyðijarðir eða því sem næst. Okkur flm. þykir fullkomin ástæða til að kanna möguleika á nýtingu einhverra þessara jarða í því skyni að koma upp litlum dvalarheimilum fyrir aldrað fólk, sem kysi að hafa smábúskap áfram eða stunda einhverja aðra iðju, sem væri þá tengd landbúnaði á einhvern hátt, svo sem fullvinnslu á landbúnaðarafurðum. Við teljum einnig mjög koma til álita kaup á jörðum, er losnuðu úr ábúð og ekki yrðu betur til annars nýttar.

Við flm. erum þess fullvissir að þessa könnun eigi að gera sem besta því hér gæti þetta aldraða fólk búið við svipaðar aðstæður og lífsstarf þess hefur við miðast, með að sjálfsögðu þeirri aðstoð sem nauðsynleg kann að reynast, bæði varðandi vissa yfirstjórn (ráðsmann eða forstöðumann), nauðsynlega aðstoð varðandi vélanotkun og ef með þarf einhverja heimilishjálp. Smáar einingar væru hér eðlilegastar, en þó yrði stærð þeirra að fara eftir hagkvæmni varðandi nýtingu jarða og ekki síður fjárhagslegri hagkvæmni.

Hugmyndin að þessari till., eins og ég hef komið þegar að, er m. a. komin frá þeim, sem hér ættu gerst að vita, þ. e. frá sveitafólki, sem orðið hefur að fara á dvalarheimili í þéttbýli þvert gegn innsta vilja sínum, aðeins af því að ekki var um annað að ræða, — sveitafólki, sem ekki gat rekið sjálfstæðan, erfiðan búskap lengur, en hafði alla orku og krafta til þess að hafa smábúskap með höndum, fólki, sem situr nú að mestu auðum höndum, en vildi gjarnan leggja hönd á plóginn að einhverri verðmætasköpun í þjóðfélaginu og þá eðlilega helst þeirri sem tengist lífsstarfi þess um langan aldur. Þessi sjónarmið eru hér sett fram í tillöguformi eins og þau komu frá þeim aðilum sem vöktu fyrst máls á þessu.

Sú stefna, að dvalarheimili eða íbúðir fyrir aldraða eigi að vera smáar einingar, á nú góðu heilli almennu fylgi að fagna, og sú tilhögun, sem hér er lagt til að könnuð verði, er hin besta í samræmi við þá meginstefnu.

Flm. gera sér ljósa ýmsa annmarka hér á og vilja því ítarlega könnun á þessu máli sem fyrsta skref. Þeir vita um þá augljósu einangrunarhættu, sem af slíku fyrirkomulagi stafar, einangrun frá öðrum aldurshópum, sem er mikið vandamál margs aldraðs fólks. En sú einangrun mæðir sannarlega ekki síður á fólki í þéttbýlinu og eflaust mest og verst hér á suðvesturhorninu, á hinum fjölmennu stofnunum, sem þar er að finna. Hins vegar koma möguleikarnir til eðlilegs starfs hér mjög á móti og útilokað er að einangrunin verði svo alger sem hún oft vill verða í mesta þéttbýlinu.

Við leggjum mikla áherslu á að heimili þessi verði í nánd þeirra staða sem hafa góða heilsugæsluaðstöðu, en þeim þéttbýlisstöðum fer nú ört. fjölgandi. Hér er um sjálfsagt öryggisatriði að ræða, sem taka verður mið af í könnuninni.

Að lokum vilja flm. benda á að ekki síður koma öryrkjar hér til greina, þó tillaga um forkönnun málsins feli það aðeins óbeint í sér.

Alþb.-menn fengu samþykkta á s. l. vori till. um eflingu þjónustu- og úrvinnsluiðnaðar í sveitum. Því telja flm. þessarar till. rétt, að í könnun og hugsanlegri framkvæmd þessa máls verði einnig hugað að þessum smáiðnaði og þátttöku aldraðs fólks þar svo sem frekast er kostur.

Könnunin mun að sjálfsögðu leiða í ljós kostnað af tilhögun sem þessari, en flm. telja að hann muni síst verða meiri en almennt er um heimili af þessu tagi, og hugsanlegur aukakostnaður muni skila sér til baka, bæði fjárhagslega beint og ekki síður í aukinni lífshamingju þess fólks sem við eigum samfélagslega skuld að gjalda.

Að lokum: Ég veit erlendis frá um fyrirkomulag líkt þessu, bæði á vegum opinberra aðila, svo sem sveitarfélaga, og eins hjá einstökum aðilum, m. a. félagasamtökum. Því miður hefur sá, er ætlaði að gefa mér þær upplýsingar þaðan sem hann þekkti best, ekki sent mér neina þá nákvæma og útfærða lýsingu er ég gæti stutt mál mitt með hér. En færi svo að von minni, að till. yrði samþ., þá eru þessar upplýsingar fáanlegar án efa innan tíðar. Þessi ungi námsmaður sagði mér hins vegar á liðnu sumri að ekki væri hann í vafa um að eitthvað þessu líkt ætti framtíð fyrir sér hér. Sjálfur er hann úr sveit og þekkir aðstæður allar og nám hans úti er nátengt vandamálum aldraðra og úrlausn þeirra.

Það er von okkar flm. að þeir þrír hvetjandi aðilar, sem eiga bæði hugmynd og kveikju að till. og ýmsar ráðleggingar varðandi hana, muni hafa rétt fyrir sér og hún megi verða að undangenginni góðri könnun að veruleika sem einn liður þeirrar viðleitni að skapa öldruðu fólki hamingju í ellinni með aðstöðu sem hentar því best, umhverfi sem það ann og iðju sem er því meiri lífsnauðsyn en flest annað.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til að að lokinni þessari umr. verði till. vísað til hv. allshn.