05.05.1980
Neðri deild: 69. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2342 í B-deild Alþingistíðinda. (2233)

6. mál, tímabundið vörugjald

Frsm. 1. minni hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur haft til meðferðar frv. til l. um breyt. á lögum um sérstakt tímabundið vörugjald, sem hefur verið tímabundið frá því 30. des. 1978. Hér er um að ræða staðfestingu á brbl., sem sett voru 16. okt. 1979, og gert er ráð fyrir þeirri tekjuöflun, sem felst í frv. þessu, í fjárlögum sem Alþ. hefur þegar samþykkt.

Við í 1. minni hl. fjh.- og viðskn. leggjum til að gerðar verði tvær breytingar sem voru lagðar fram í n. að beiðni ráðuneytisins. Hér er fyrst og fremst um leiðréttingaratriði að ræða, sem eru til hagsbóta fyrir gjaldendur vegna breyttra viðhorfa, og enginn ágreiningur var um þessar tvær brtt. í nefndinni. Það var einnig beðið um aðra brtt., sem ekki var útrædd í n., og taldi hún sér ekki fært að flytja þá brtt.

En ég vil ítreka það, sem 1. minni hl. fjh.- og viðskn., þ. e. hv. þm. Karvel Pálmason, Bogi Sigurbjörnsson og Halldór Ásgrímsson, leggur til, að frv. verði samþykk með þeim tveimur breytingum er fram koma á þskj. 388.