06.05.1980
Sameinað þing: 53. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2418 í B-deild Alþingistíðinda. (2271)

234. mál, fjárfestingar- og lánsfjáráætlun 1980

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það er kannske ekki úr vegi að ég mæli nokkur orð hér við þessa umr. sem væntanlega er senn á enda. Ég skal reyna að hafa þau færri en ég gjarnan vildi vegna þess hvernig háttað er þingstörfum. Mönnum er ætlað að sitja á deildarfundi að loknum fundi hér í Sþ.

Það hafa sumir látið að því liggja, bæði í umr. hér og utan hennar, að mitt ráðuneyti ætti eitthvað í þeim króga sem hér er til umr., fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir 1980, og þykir sumum krógi þessi helst til stór og hlutur iðnaðar og orkumála í honum, en öðrum þykir hann helst til lítill og næstsíðasti ræðumaður kom einmitt að því máli.

Ég á raunar sem iðnrh. nú sem fyrr fremur auðveldan leik að koma hér upp í ræðustól eftir að hv. 4. þm. Vestf. hefur talað, a. m. k. þykir mér gott að hafa hann nærri þegar ýta þarf á um skynsamlegar framkvæmdir á svíði orkumála. Hann hefur oft tekið til máls hér síðan ég kom hingað til þings og lagt orð í belg mjög í þá átt sem ég gjarnan tala ýmist í þingi eða utan. Ég get gert mörg af hans orðum að mínum í sambandi við nauðsyn þeirra framkvæmdaþátta sem hann gerði sérstaklega að umræðuefni.

Það var einn orðhagur og hógvær maður sem vék að því í dag í umr., hv. formaður þingflokks Alþfl., að það færi nú ekki minna fyrir mér en svo, að ég væri heill þrýstihópur. En ekki hefur það nægt til að koma öllum áhugamálum okkar hv. 4. þm. Vestf. fram, og þykir mér ágætt að hafa hann þar við hlið í þrýstihópi, einnig þó hann sé í stjórnarandstöðu. En raunar finnst mér margt í hans máli benda til þess, að hann sé nokkuð milli vita, eins og hv. síðasti ræðumaður vék hér að, miðað við þær kröfur og það traust sem hann að mörgu leyti ber til þeirrar ríkisstj. sem nú situr, og ekki þarf ég að kvarta undan verkum hans í sambandi við fyrirgreiðslu mála sem koma til iðnn. í hv. Ed.

Ég vil þó, áður en ég vík nokkrum orðum að nokkrum megindráttum í sambandi við orku- og iðnaðarmál sem tengjast þessari fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, gera örfáar athugasemdir við mál hv. 4. þm. Vestf., þar sem hann var með samanburð á till. orkuráðs og þeim niðurstöðum eða þeim till. sem liggja fyrir í þessari fjárfestingar- og lánsfjáráætlun.

Hann lét að því liggja, að af 5.4 milljörðum, sem orkuráð hefði gert till. um til tiltekinna fjögurra liða á þessari áætlun, styrkingar rafdreifikerfa í sveitum, til jarðhitaleitar, til hitaveitna og sveitarafvæðingar, væru aðeins 2.7 milljarðar hér inni eða sem svaraði helmingi af þessari upphæð, raunar tæplega það ef tekið væri tillit til að ekki ætti að greiða allt út á þessu ári.

Hér er um nokkuð villandi upplýsingar að ræða, því hv. þm. tekur hér inn 2 milljarða í hitaveitulánum sem orkuráð óskaði eftir að rynnu í gegnum Orkusjóð. Það var spurningin að velja á milli þess, að fjármagn til hitaveitulána umfram það, sem er á lánsfjáráætlun sem erlent lánsfjármagn, rynni í gegnum Orkusjóð eða í gegnum Lánasjóð sveitarfélaga. Ég hef verið svipaðrar skoðunar og hv. 4. þm. Vestf., að að mörgu leyti væri skynsamlegt að sameina þessar fjárveitingar úr innlendum sjóðum og hef ég einmitt haft Orkusjóð þar í huga. Þetta hefur ekki enn orðið að ráði, en þarf að athuga. En Lánasjóður sveitarfélaga hefur, eftir því sem ég best veit, nær 2.5 milljarða kr. til að ráðstafa til hitaveitulána. Þar af eru 2 milljarðar eyrnamerktir, ef svo má orða, í þessari fjárfestingar- og lánsfjáráætlun. Þetta vil ég benda á, en margt fleira mætti segja um það sem hv. þm. vék að. Ég vil aðeins nefna það sem hann talaði um sveitarafvæðingu, að í því frv., sem lagt var hér fram á jólaföstunni til fjárlaga, var sú upphæð aðeins 200 millj. kr. eða þar um bil, en var síðan lyft eða tvöfölduð frá því marki, en er þó engan veginn í því horfi sem ég hefði kosið.

Vil ég þá víkja í framhaldi af þessu nokkrum orðum að þætti orku- og iðnaðarmála í þessari áætlun. Ég held að þegar á hana er litið sem heild komi talsvert annað út úr dæminu og blasi önnur mynd við en sú sem hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson var að draga hér upp, og hafa raunar ýmsir undan því kvartað að hækkanir til þessara málaflokka væru meiri en æskilegt væri og erlend lántökuþörf af þeim sökum meiri. Ég vil í þessu sambandi benda á að hlutur orkuframkvæmda mun vera um 56% af því lánsfjármagni, sem gert er ráð fyrri að afla, og til iðnaðarframkvæmda er varið umtalsverðum hlut, þannig að samanlagt er hlutur þessara tveggja þátta trúlega nálægt 70% eða þar um bil af lánsfjármagni og hef ég þó ekki reiknað það nákvæmlega út.

Varðandi raforkuframkvæmdir liggur það fyrir, að hér er gerð till. um aukningu á framkvæmdum að magni til milli ára um 46% til raforkuframkvæmda. Þetta eru ofur eðlileg viðbrögð við þeim atburðum sem urðu á síðasta ári í orkumálum með hinni gífurlegu verðhækkun á innfluttri orku og endurspeglast einnig í fjárveitingum til hitaveituframkvæmda, þar sem magnaukningin er metin vera 17%.

Ég ætla ekki að fara út í einstaka þætti af því, sem á bak við þessar tölur býr, eða heildarupphæðir til þessara málaflokka, þó að margt mætti um það segja. Þarna vegur vissulega hlutur Landsvirkjunar og þeirra þýðingarmiklu framkvæmda, sem hún stendur fyrir, þyngst í raforkuframkvæmdunum, en einnig er gert meira átak á sviði almennra framkvæmda á vegum Rafmagnsveitna ríkisins, Orkubús Vestfjarða og ríkissjóðs, þar sem eru byggðalínur, heldur en áður hefur verið. Sama gildir raunar um dreifikerfi í sveitum, þó að engan veginn sé þar jafnmikið að gert og ástæða væri til að mínu mati.

Ég vil upplýsa það hér, að ráðuneyti mitt gerði till. sem voru umfram þetta, eftir að hafa metið gagnrýnt þær óskir sem fyrir lágu, og þarna munaði í þeim till., sem til meðferðar voru á síðustu stigum þessa máls, um 5 milljörðum eða svo vegna raforkuframkvæmda, sem til álita komu, og 2.5 milljörðum vegna hitaveituframkvæmda. En ég er engan veginn þar með að kvarta undan því hér, að ekki hafi verið á víðunandi hátt leyst úr þessum málum miðað við það mismunandi mat sem menn hafa innan ríkisstj. á því, hvað sé réttmætt og æskilegt að ráðast í mikið og færast mikið í fang, alveg á sama hátt og skoðanir munu vera skiptar um það í herbúðum stjórnarandstöðu, eins og glögglega hefur komið fram hér í umr.

Ég geri ekki lítið úr því, að hér eru álitamál á ferðinni. En þó held ég að það sé sameinaður hugur þm., langflestra a. m. k., að orkuframkvæmdir séu forgangsmálaflokkur við þær aðstæður sem við búum nú við og því sé ekki ágreiningur um að þar hafi borið að herða mjög á frá því sem áður var.

Við undirbúning þessa máls lét ég gera sérstaka athugun á því, hvort reikna mætti með að nú væri einhver sérstakur toppur, einhver sérstakur öldufaldur í sambandi við þessar framkvæmdir, miðað við horfur á allra næstu árum. Sú athugun leiddi í ljós að svo er ekki. Ýmsir lögðu eðlilega fram slíkar spurningar: Er það ekki svo, að það dragi verulega úr fjárfestingarþörf á sviði orkumála og iðnaðarmála á næstu 1–2 árum, m. a. vegna þess að fjárveitingar til Hrauneyjafossvirkjunar hafa þrefaldast að krónutali milli ára 1979–1980? Umrædd athugun leiddi í ljós að þörfin, sýnileg þörf til fjárfestingar á þessum sviðum, er síst minni á næsta ári, raunar heldur meiri en minni, og ámóta á árinu 1982. Þetta tel ég mikilvægt að hafa með í myndinni. Það var því ekki um það að ræða að hægt væri að ýta þarna miklu út af í von um að það væri mun meira rými til að bregðast við þessari framkvæmdaþörf á næsta ári, nema síður væri, og í samræmi við það reyndi ég og aðrir stuðningsmenn þessara mála að fá lyktir að því er það varðaði við undirbúning þessa máls.

Svo aðeins varðandi iðnaðarmálin. Þar tel ég að á mörgu hafi verið bót ráðin, margt hafi áunnist, þó að sjaldan sé fullnóg að mati þeirra sem áhuga hafa á víðkomandi málaflokki, að nokkuð hafi áunnist í fjárveitingum til iðnaðarmála, bæði í sambandi við fjárlagagerð og fjárlögin og eins í sambandi við þessa fjárfestingar- og lánsfjáráætlun.

Ég vil aðeins víkja hér að liðum sem eru bundnir og voru bundnir þegar undirbúningur hófst að þessu máli og síðasti ræðumaður raunar vék að, en það er fjárfesting til stóriðjuframkvæmda eða orkufrekra iðnaðarfyrirtækja sem ákvarðanir höfðu verið teknar um fyrir allnokkru. Vegna þess að spurt var sérstaklega um járnblendiverksmiðjuna og 8 milljarða fjárfestingu á hennar vegum í ár vil ég aðeins rifja það upp, að veturinn 1978–1979, við undirbúning fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar þá, beitti ég mér fyrir því sérstaklega að fá endurskoðaðan samning um uppbyggingu þessa fyrirtækis varðandi 2. áfanga sem verið var að taka þá ákvarðanir um að gera bindandi pantanir varðandi bræðsluofn 2 hjá þessu fyrirtæki. Mér sýndist að það væri, eins og getið var um hér áðan, ekki rétt tímasetning á þessari framkvæmd sem lögfest hafði verið. Það var leitað eftir því með samþykki ríkisstj. þá að fresta 2. áfanga þessarar framkvæmdar um 6–9 mánuði, þannig að þessi 2. bræðsluofn verksmiðjunnar tæki ekki til starfa fyrr en vorið 1981. Það var látið á það reyna af fyllsta þunga gagnvart fyrirtækinu og hinum erlenda samstarfsaðila hvort hægt væri að ná þessu fram, en það gekk ekki. Það reyndist ekki unnt að ná samkomulagi um þessa tilfærslu. Þegar óskað var upplýsinga frá raforkusalanum á þeim tíma um það, hvort raforka yrði tryggð á þessum vetri vegna þessa ofns, þá fengum við það svar í iðnrn. að á því léki vart vafi að raforka væri til. Þetta sýnir mönnum að á skömmum tíma hafa skipast veður að því er mat snertir að þessu leyti, því að allir vita hvernig horfur eru nú í sambandi við orkukerfi landsmanna, framboð á raforku á komandi vetri, og raunar þurfti að grípa til skömmtunar á síðasta vetri.

Ég vil aðeins nefna það hér, að á þessari áætlun nú eru 250 millj. kr. til nýiðnaðarverkefna. Þar er um að ræða að vísu helst til lága upphæð að mínu mati, en þó smávegis fjármagn vegna undirbúnings iðnaðarkosta sem nú eru allnokkuð á veg komnir og væntanlega verður hægt að taka ákvarðanir um á þessu ári. Þarna er um að ræða saltverksmiðju á Reykjanesi, 1. áfanga hennar fram yfir þann tilraunarekstur sem hefur verið í gangi, steinullarverksmiðju, sykurverksmiðju, sem svo er kölluð, og e. t. v. stálbræðslu. Þetta eru iðnaðarkostir sem kalla á fjárfestingu upp á 7–10 eða 12 milljarða hver eða svo, og gæti á það reynt við lánsfjáráætlun komandi árs að veita fjármagn til þeirra, en þá hefur létt á fjárfestingarþörf vegna stóriðjuframkvæmda sem nú eru í gangi við járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga og skapast væntanlega möguleikar til að ráðast í þessi fyrirtæki ef niðurstöður reynast jákvæðar við nánari athugun.

Stjórnarandstæðingar hafa við umr. undan því kvartað, að atvinnuvegirnir séu sérstaklega afskiptir í sambandi við þessa fjárfestingar- og lánsfjáráætlun og atvinnuvegasjóðirnir búi við skarðan hlut. Ég vil ekki gera lítið úr því, að eflaust hefðu margir kosið að sjá ríflegri upphæðir til vissra þátta á þessu sviði. En þegar menn eru að bera saman milli ára og líta aftur til ársins 1979 í þeim samanburði, þá er rétt að haft sé í huga að frá þeim tíma hefur ávöxtun á fjármagni þessara fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna breyst nokkuð til batnaðar, og raunar reið þar á vaðið aðalstofnlánasjóður iðnaðarins, Iðnlánasjóður, sem leggur til með eigin fjármögnun 1.5 milljarða kr. sem hann hefur til ráðstöfunar, en aðrir lánasjóðir atvinnuveganna eru því miður enn sem komið er ekki með sams konar rekstur að þessu leyti, en það stefnir væntanlega í rétta átt. Og ef litið er til þessa stofnlánasjóðs iðnaðarins miðað við árið á undan, þá kemur fram í þessari áætlun að þar er um að ræða aukningu á lánsfjármagni eða ráðstöfunarfé um 97% eða þar um bil, þannig að um verulega aukningu á ráðstöfunarfé á að vera að ræða.

Ástæða væri til að víkja hér að mörgum öðrum þáttum. Ég vil nefna í lokin tvennt sem er mjög haft í umræðu, þegar rætt er um þessa fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, af þeim sem telja að hér sé í of mikið ráðist, við séum að binda okkur of þunga bagga í erlendum lántökum og hefðum átt að hafa þar verulega annan hátt á. Ég heyri þó í þessari umr. að þar eru stjórnatandstæðingar engan veginn á einu máli, eins og glöggt hefur fram komið í þeirra málflutningi.

Ég taldi mér skylt og mitt rn. við undirbúning fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar að leitast við á stuttum tíma, sem til ráðstöfunar var, að fá einhver svör við spurningum sem margir bera fram í þessu sambandi: Hver eru líkleg verðbólguáhrif af auknum erlendum lántökum? Margir gera því skóna að þau séu stórfelld og af þeim sökum sé hið mesta óráð að bæta þarna við umfram það lágmark sem sett var af Seðlabanka Íslands á s. l. hausti. Því spurði ég auk Seðlabankans einnig Þjóðhagsstofnun og auk þess nokkra vísa hagfræðinga sem ég ætla ekki að fara að vitna hér í. Ég vil aðeins vitna til Þjóðhagsstofnunar sem var spurð: Hvað teljið þið líklegt að verðbólguáhrif verði vegna viðbótar í erlendum lántökum til orku- og iðnaðarmála miðað við tiltekna skiptingu á innlendum og erlendum kostnaði og viðbót frá 10 og upp í 40 milljarða umfram 70 milljarða sem um var rætt á s. l. hausti? Úr svari Þjóðhagsstofnunar vil ég taka eftirfarandi tilvitnun, en það barst rn. 15. apríl. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Taka mætti dæmi um 10–40 milljarða viðbótarlántöku erlendis, það er víðbótarlántaka við þessa 70 milljarða. Ef gert er ráð fyrir að 60% fjárins sé varið beint til kaupa á erlendum aðföngum veldur þessi viðbótarlántaka 4–16 milljarða kr. aukningu peningaframboðs innanlands og verðlagsáhrifin yrðu eftir ofangreindum reikningum á bilinu 1–5%. Ætla má að þau áhrif verði að mestu komin fram á tveimur árum, en hraðast fyrst.

Að sjálfsögðu er hér aðeins um grófa ágiskun að ræða því að óvissuþættirnir eru margir, ekki aðeins hvað snertir verðbreytingarnar sjálfar, heldur einnig hvað varðar tímasetningu áhrifanna.“ Og í lokin segir í þessu áliti: „Forsenda allra þessara dæma er að full atvinna sé fyrir í hagkerfinu þegar lánsféð er aukið og að ekki verði breyting á innlendri lánastarfsemi eða ríkisbúskap til mótvægis erlendri lántöku.“

Þarna er sem sagt ekki gert ráð fyrir neinum sérstökum ráðstöfunum til mótvægis þessu. Ég held að ef þessar upplýsingar eru réttar — ég vil ekki leggja mat á það, en þær falla saman við álit sem ég hef fengið frá öðrum aðilum um þetta efni — þá fari menn býsna mikið villtir vegar þegar verið er að tala um að þessar erlendu lántökur til skynsamlegra framkvæmda á sviði orkumála og iðnaðarmála og til annarrar skynsamlegrar fjárfestingar í landinu séu stórvægilegar. Hér er ekki verið að tala um 40 milljarða, sem valdið gætu 5% verðlagsáhrifum á tveimur árum eða þar um bil, heldur 15 milljarða samkv. fyrir liggjandi lánsfjáráætlun, áformum um töku erlendra lána til viðbótar umræddum 70 milljörðum, og geta menn þá með hlutfallareikningi séð hver áhrifin yrðu væntanlega af þessu á tveimur árum eða þar um bil. Við þetta er að bæta, að ég held að aukning á framleiðni innan atvinnuvega, gjaldeyrissparnaður vegna orkuframkvæmda, komi til baka sem verðbólguminnkandi þáttur, ef rétt er á málum haldið, þannig að þarna þurfi ekki að vera um teljandi verðbólguáhrif að ræða ef rétt er valið um fjárfestingu.

Annað atriði, sem ég vil að lokum nefna, eru þensluáhrifin. Menn segja: Þetta er skelfilegt, það er þegar þensla í þjóðfélaginu víða og ekki er á hana bætandi. — Og ég taldi skylt að leita einhverra svara við þessu og lagði spurningar um þetta fyrir Framkvæmdastofnun ríkisins sem leitaðist á mjög skömmum tíma við að veita nokkur svör og gerði vissulega fyrirvara um nákvæmni á þeim niðurstöðum. En ég leyfi mér að vitna í svar Framkvæmdastofnunar um þetta, dags. 28. apríl, þar sem segir:

„Almennt um stöðu á vinnumarkaði í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð má segja að allt bendir til þess, að byggingarframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu verði í minna lagi í sumar, sbr. meðfylgjandi skýrslu um atvinnuhorfur í byggingariðnaði á höfuðborgarsvæðinu. Utan höfuðborgarsvæðisins eru hins vegar víða miklar byggingarframkvæmdir í gangi. Þær framkvæmdir í orkumálum, sem helst vekja óttann um þensluáhrif á vinnumarkaði, eru Hrauneyjafossvirkjun og hitaveituframkvæmdir í Borgarfirði (þar sem einnig standa yfir framkvæmdir við Borgarfjarðarbrú). Reynslan sýnir þó að vinnuafl í þessari atvinnugrein er hreyfanlegt, a. m. k. til skamms tíma, og fjarlægð þessara staða frá höfuðborgarsvæðinu er tiltölulega lítil.“

Meginniðurstaða í þessu áliti Framkvæmdastofnunar er það, að ekki sé ástæða til að óttast verulega ofþenslu á vinnumarkaði vegna þessara framkvæmdaáforma, sem raunar voru allnokkru meiri en hér liggja fyrir till. um á sviði iðnaðar- og orkumála, og frekar minni framkvæmdir í byggingariðnaði hér á þéttbýlissvæðinu, sem við erum stödd á, vegi upp á móti eftirspurn eftir vinnuafli ekki langt utan þessa svæðis við stórframkvæmdir. Þetta tel ég rétt að hér komi fram um þessi atriði og mætti þó fjölmargt meira um þau segja.

Ég vil, herra forseti, ekki taka meiri tíma frá þingstörfum til að skýra mál mitt þó að mjög mörgu væri við að bæta og mjög mörgu sé ósvarað. Við undirbúning till. í þeim þýðingamiklu málum, sem ég ber ábyrgð á innan ríkisstj., hef ég leitast við að horfa til landsins alls. Ég vænti þess, að þess sjáist ekki sérstök merki að þar hafi einn öðrum fremur orðið út undan. Vafalaust telja menn að halli á ef grannt er skoðað og aðeins horft á tölur varðandi einstaka landshluta. En það er ekki vegna þess að það hafi verið mismunað í till. iðnrn. þar að lútandi. Og ég held að hv. 4. þm. Vestf. geti fengið það staðfest ef hann leitar eftir því hjá mönnum sem glöggt vita, að leitast hafi verið við að gera hlut Orkubús Vestfjarða viðunandi í sambandi við afgreiðslu þessara þýðingarmiklu mála sem hér eru, og hefði ég þó kosið að hlutur þess svæðis væri betri en hér kemur fram. En takmörk verða að liggja fyrir í þessu máli sem öðrum, og þó að ég hefði sitthvað á annan veg kosið ef ég hefði einn mátt ráða í sambandi við þetta mál, þá uni ég þeirri niðurstöðu allvel sem hér liggur fyrir að þessu leyti. Miklu skiptir að þeir fjármunir, sem hér eiga að koma til þýðingarmikilla verka, nýtist á skynsamlegan hátt. Vissulega er allnokkuð á árið liðið þegar við erum að fjalla um þetta, og það endurtekur sig vonandi ekki á komandi ári að það sé komið fram á vor þegar verið er að ganga frá jafnþýðingarmiklum áætlunum og hér er um að ræða. Ábyrgð á því ber ekki núv. ríkisstj. að svo er. Þar er orsakanna til annarra að leita, en ég ætla ekki að fara hér í sagnfræðilega upprifjun.

Ég er sammála því sem hér hefur komið fram, m. a. frá talsmönnum stjórnarandstöðunnar, þ. á m. hjá hv. 6. þm. Reykv., að það skiptir miklu í lausn þeirra efnahagsmála sem við erum að glíma við, að reynt verði að ráðstafa fjármagni þjóðarinnar skynsamlega og til þess að efla atvinnustarfsemi okkar og auka það sem til skiptanna er. Þetta er jafnmikilvægt og að halda vel á því fjármagni sem við ráðstöfum til einstakra framkvæmdaþátta. Og eftir að þessar áætlanir, fjárlög og fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, hafa verið samþykktar, þá er það næsta verkefni stjórnvalda að reyna að tryggja að skynsamlega og vel verði ráðstafað því fjármagni sem hv. Alþ. ætlar til framkvæmda og hinna ýmsu brýnu þátta í okkar þjóðlífi.