06.05.1980
Sameinað þing: 53. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2431 í B-deild Alþingistíðinda. (2279)

234. mál, fjárfestingar- og lánsfjáráætlun 1980

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Það, sem hér hefur verið borið á ríkisstj í þessum umr., að hún hafi ekki staðið við stjórnarsáttmálann, það er í fyrsta lagi að greiðslubyrði af erlendum skuldum verði hærri en þau 15% sem nefnd eru í stjórnarsáttmálanum. Þetta hefur verið hrakið og bent á að þeir góðu menn, sem nota þessar röksemdir, sleppa alltaf af ásettu ráði þeim skýra fyrirvara, að frá þessum efri mörkum skuli þó vikið ef nauðsynlegt er vegna gjaldeyrissparandi eða gjaldeyrisaflandi framkvæmda, eins og raforkuframkvæmdir og hitaveituframkvæmdir eru. Þessi ádeila er því röng.

Önnur ádeilan er sú, að þar sem fjárfesting muni væntanlega fara í 26 eða 26.5%, sem enginn getur fullyrt upp á 1/2 eða 1%, þar sem bæði fjárfestingin og þjóðarframleiðslan byggjast á spám, þá sé ekki staðið við stjórnarsáttmálann. En í stjórnarsáttmálanum segir að miðað skuli við að fjárfestingin verði um fjórðung. Því er þessi ádeila líka röng og tilhæfulaus.

Þegar hv. þm. Birgir Ísleifur hélt því hér blákalt fram, að opinberar framkvæmdir hefðu stóraukist á kostnað atvinnuveganna, þá hef ég bent á að hann sjálfur er í stjórn Landsvirkjunar þar sem um langsamlega stærstu framkvæmdir er að ræða við rafvirkjun, Hrauneyjafossvirkjun, sem er fyrst og fremst gerð vegna atvinnuveganna. Þess vegna er rangfærsla á staðreyndum að ætla að telja t. d. Hrauneyjafossvirkjunina sérstaklega til aukningar á hinum opinbera geira, vegna þess að hv. þm. sleppti því í ræðu sinni áðan að þetta er fyrst og fremst vegna atvinnuveganna og að sjálfsögðu almennings í landinu.

Þegar því er svo haldið fram, að ekki sé staðið við stjórnarsáttmálann vegna þess að lofað hafi verið að staðið yrði við vegáætlunina, þá finna þessir menn það út, eins og síðasti hv. ræðumaður, að þetta loforð sé svikið, væntanlega þá út af því að lofað hafi verið að raungildi framkvæmda skyldi fylgja. Ég veit ekki til að það standi eitt einasta orð í vegáætlun um það. Ég veit ekki til að þessi hv. þm. hafi flutt till. um það, þegar vegáætlunin var hér til meðferðar. Ég get skýrt hvers vegna þetta ákvæði er komið inn. Það er vegna þess að fyrir lá þá í fjárlagafrv. lækkun í krónutölu. Við ekki aðeins stóðum við það að halda sömu krónutölu í vegáætlun, heldur bættum við 2 milljörðum.

Allar þessar ádeilur, að ekki sé staðið við stjórnarsáttmálann, eru því staðlausir stafir.