08.05.1980
Sameinað þing: 54. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2525 í B-deild Alþingistíðinda. (2389)

162. mál, könnun á áhrifum af ákvæðislaunakerfum

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég get tekið undir það sem fram kemur í þessari þáltill., að það sé tímabært að kanna aðstæður á vinnustöðum og áhrif þeirra á þá sem þar vinna. Ég kemst þó ekki hjá því að vekja athygli flm. á annarri till. Er kannske eðlilegt að sú till. hafi farið fram hjá hv. flm., þar sem þm. hefur setið stutt á þingi, en það er till. um kannanir á tekjuskiptingu og launakjörum sem samþ. hefur verið hér sem ályktun Alþingis. Einn þáttur þeirrar till. fjallar nánast um sama efni og þessi þáltill. gerir ráð fyrir. En ég hélt satt að segja ekki að það þyrfti að vekja athygli hv. þm. Guðmundur J. Guðmundssonar á þessari till. og efni hennar. Efni hennar er mjög viðamikið og snertir mikið hans umbjóðendur í Verkamannsambandinu. Hv. þm. taldi þó ekki ástæðu til, þegar hún var til umfjöllunar, að taka undir þá þáltill. eða þann lið sem hann hefur hér gert að umræðuefni og felst í þessari till. sem hv. þm. Guðrún Hallgrímsdóttir flytur.

Sá liður, sem ég vísa til í till. um tekjuskiptingu og launakjör, hljóðar svo — en till. miðar að því að kanna tekjuskiptingu og launakjör og að kannanirnar skuli miða að því að upplýsa ýmsa þætti kjaramála, í 7. lið kemur fram að meta heilsufræðileg, félagsleg og hagfræðileg áhrif hinna mismunandi launakerfa og vinnuaðstæðna. Og í grg. um þann lið segir:

„Vinnuaðstæður eru launakjör út af fyrir sig. óþrifalegar, heilsuspillandi og óaðlaðandi vinnuaðstæður hafa án efa veruleg áhrif á starfsgetu sem og vinnuframlag starfsfólks. Það gæti því hvort tveggja í senn verið hagur vinnuveitandans sem launþegans ef samanburðarkönnun á sambærilegum vinnustöðum leiddi í ljós marktækan mismun á vinnuframlagi betri vinnuaðstæðum í hag.

Alkunna er að margvísleg launakerfi eru notuð á vinnumarkaðinum til að auka afköst eða árangur, önnur til að ná samfelldari vinnu, t d. vaktaálag, enn önnur til að halda góðum starfskröftum, t d. yfirborganir, og einnig eru launakerfi til að halda starfseminni gangandi í misjafnlega langan tíma, t d. dagvinnu- og yfirvinnutaxtar. Það er augljóst að slík launakerfi hafa ekki sömu áhrif, hvorki á launþegann sjálfan né árangur vinnu hans. Öll hafa þau sína kosti og sína galla, ýmist heilsufræðilega, félagslega eða hagfræðilega. En nauðsynlegt er að slíkt sé metið á hlutlausan hátt“

Ég tel sem sagt, að þessi liður — og vísa þá í grg. einnig — nái þeim tilgangi sem að er stefnt með þessari till., og vísa reyndar einnig í ágæta ræðu sem varaþm., sem sat hér, Böðvar Bragason, flutti þegar hann tók undir þessa till. og gerði einmitt að sérstöku umtalsefni þennan 7. lið og taldi hann einn af mikilvægustu þáttum þessarar tillögu. Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson þarf því ekkert að óttast það, að slík könnun verði ekki framkvæmd, svo fremi að ríkisstj. taki undir það, sem Alþ. hefur ályktað, og framkvæmi þessa till. til þál. um tekjuskiptingu og launakjör.

Nú geri ég mér grein fyrir að þessi till. um tekjuskiptingu og launakjör er mjög viðamikil. En það er einmitt lagt til í þeirri þál. að kannanirnar verði lagðar fyrir Alþingi jafnóðum og þær hafa verið framkvæmdar. Ef í ljós kæmi t. d. við niðurstöðu á könnun á 7. lið, að nauðsynlegt væri að gera frekari ráðstafanir, eins og kemur fram í síðari lið þáltill. hv. þm. Guðrúnar Hallgrímsdóttur, þá geri ég ráð fyrir að ráðstafanir yrðu gerðar og Alþingi mundi taka af skarið til þess að bæta þar úr. Þetta vildi ég aðeins að kæmi fram og vildi vekja athygli hv. þm. Guðrúnar Hallgrímsdóttur á þessu, þannig að hún gæti kannske sætt sig við þá niðurstöðu, að tilganginum með þessari till. hennar væri náð með samþykkt þeirrar þáltill. sem Alþ. hefur samþ. nú nýverið.