09.05.1980
Neðri deild: 72. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2533 í B-deild Alþingistíðinda. (2431)

165. mál, grunnskólar

Frsm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Menntmn. hefur fjallað um frv. það sem hér er til umr., þ. e. frv. til breytinga á grunnskólalögum, og leggur fram nál. á þskj. 436 og mælir eindregið með því að frv. þetta verði samþykkt. Frv. er einfalt í sniðum og skýrir sig sjálft, en það felur það í sér efnislega, að ákvæði grunnskólalaga um síðasta ár skólaskyldu komi til framkvæmda samtímis á landinu öllu 7 árum eftir gildistöku laganna, sem þýðir að skólaskyldan kemur til framkvæmda einu ári síðar en ætlað var. Allir eru sammála um að þar sem ekki hafi enn tekist að afgreiða lög um framhaldsskóla séu nánast engir aðilar, sem um skólarekstur í landinu sjá, undir það búnir að þessi lenging skólaskyldu komi til framkvæmda og því leggur n. einróma til þetta frv. verði samþ. eins og það var lagt hér fram af hæstv. menntmrh.