13.05.1980
Sameinað þing: 56. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2570 í B-deild Alþingistíðinda. (2536)

151. mál, Olíumöl

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að leggja hér inn orð.

Ég skil mætavel fsp. hv. þm. Vilmundar Gylfasonar. Hér er augljóslega á ferðinni mesta vandræðamál, eitt af mörgum slíkum. Það er auðvitað alveg ljóst að á þessu fyrirtæki hefur verið fullkomin óstjórn um árabil og óeðlileg fjárfesting að öllu leyti miðað við að aldrei lá fyrir að þessu fyrirtæki væru tryggð næg verkefni í samræmi við þá fjárfestingu sem fyrirtækið hafði stofnað til. Það sem verra er, er að eftir þá heimild, sem hér hefur verið samþykkt við afgreiðslu fjárlaga bæði af mér og öðrum, liggur jafnframt fyrir að ekki verða næg verkefni handa þessu fyrirtæki. Þannig er augljóslega um að ræða að það verður að gefa með þessu fyrirtæki milljónir og hundruð milljóna á næstu árum með sama rekstrarformi.

Það hljómar auðvitað hjákátlega að nú er verið að tala um að gera úttekt á þessu fyrirtæki. Það er búið að vera vitað töluvert lengi að fyrirtækið var á hvínandi kúpunni og maður hlýtur að undrast af hverju þessi úttekt hefur ekki verið gerð fyrir löngu. Það liggur alveg ljóst fyrir líka, að við vítum nánast ekkert um ástand fyrirtækisins annað en að það skuldar núna hátt í 2 milljarða. Og það er ekki að undra þó að þm. vilji doka við og fá að vita dálítið meira um fyrirtækið áður en farið er að hella í það peningum.

Þá kynni einhver að spyrja hvers vegna þetta fyrirtæki er bara ekki gert gjaldþrota og sveitarfélögin og ríkið taki sig þá frekar saman um að bjóða í það og reyni síðan að reka það á einhvern annan hátt. En þetta er svo sem ekkert ný bóla, að fyrirtæki, sem rekið er meira og minna fyrir almannafé, eftirlitslaust að mestu, kemst á það stig að geta sett Alþingi Íslendinga upp við vegg og sagt: Ef þið bjargið okkur ekki verða engir vegir lagðir á Íslandi í sumar eða engin olíumöl borin á vegi landsins. — Það er fyrir neðan allar hellur að svona lagað skuli geta gerst, því að auðvitað er ekki hægt að tala um þetta fyrirtæki öðruvísi en sem raunverulega opinbert fyrirtæki, þó að einkaaðilar kunni að eiga 8 eða 9% í því. Þess er skemmst að minnast að ekki alls fyrir löngu var stórt verktakafyrirtæki hér í bæ líka á hausnum og fékk reyndar að fara á hausinn, en það varð til þess að umfangsmiklar framkvæmdir í opinberum íbúðarbyggingum, verkamannabústöðum, drógust á langinn. Þetta er auðvitað alveg orðið óþolandi, að fyrirtæki, sem hefur meira og minna, eins og þetta fyrirtæki, einokun á opinberum framkvæmdum, skuli vera látið komast á það stig að þær sömu opinberu framkvæmdir séu í voða. Þessu hljótum við auðvitað að mótmæla og ég vil taka undir það hér að farið verði vandlega ofan í það mál, hvort nokkurt vit er í að halda þessu fyrirtæki gangandi í núverandi formi.