13.05.1980
Sameinað þing: 56. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2580 í B-deild Alþingistíðinda. (2551)

151. mál, Olíumöl

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Þetta gerast nú þjáningarfullar umr. Það er ekki nóg með að hv. 3. þm. Vestf. fái að tala þrisvar, heldur tekur hv. 1. þm. Norðurl. v. sig til og fer að þylja yfir öllu þessu fólki greinargerðir eftir hann, hv. þm. Sighvat Björgvinsson og Ólaf Ragnar Grímsson ofan í kaupið.

Ég vil varpa þeirri spurningu fram: Hverjir tapa þegar og ef sveitarfélög tapa 350–400 millj. kr. vegna gjaldþrots þessa fyrirtækis? Hver borgar það? Hverjir tapa og hverjir borga ef ríkissjóður tapar 300 millj. kr. við gjaldþrot þessa fyrirtækis? Hverjir skyldu borga ef Útvegsbanki Íslands tapar 600 millj. kr.? Það er enginn að tala um að skattborgarar verði látnir borga brúsann vegna þessa fyrirtækis. Það er ætlunin að reisa þetta fyrirtæki við þannig að það geti skilað ágóða og skilað aftur því sem nú um hríð verður látið af hendi rakna. Og mín skoðun er sú, enda mundi ég aldrei leggja til að til þessa leiks yrði gengið nema af því að ég hef trú á því, að við höfum óhemjulegan markað fram undan ef við ætlum að manna okkur upp í að fara að hefjast handa um framkvæmdir á þessu lífsnauðsynlega sviði okkar. Það liggur alveg ljóst fyrir. Mér dytti aldrei í hug að leggja það til sem ég hef gert í þessu máli nema af því að ég sé engan annan veg til að bjarga því sem bjargað verður. Það er hægt að leiða að því mörg óyggjandi rök.

Ég vil bæta því við að stjórn Framkvæmdastofnunar gerði einróma með sjö atkv., þar sem allir flokkar eiga fulltrúa, samþykkt fyrir utan samþykktina sem ég gat um áðan, um 700 millj. (Gripið fram í: Sex atkv.) Já, það getur verið að ég sé orðinn svo sljór að ég gleymi því sem fram fer eftir að það átti sér stað fyrir fjórum tímum, en það er þá nýtt. Það var tekið fram að það væri shlj., allir hefðu greitt atkv. Ég ber það undir aðra, sem eru staddir hér úr stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins, formanninn o. s. frv. Það fór þannig fram. Það verður þá að breyta fundargerð, — en það var samþykkt að Byggðasjóður skyldi á komandi árum leggja framlög fram til að ná verulegum áfanga í þessu lífsnauðsynlega máli okkar. Það var stefna mörkuð í morgun um að Byggðasjóðurinn skyldi taka þetta upp sem eitt meginverkefni sitt, þar sem þetta er eitt stærsta byggðamálið og felur líka í sér og sameinar áhugamál þéttbýlis og strjálbýlis. Það urðu tímamót í þessum málum, eftir minni skoðun, á fundi Framkvæmdastofnunar ríkisins í morgun, — tímamót sem líka geta komið til góða við að rétta þetta fyrirtæki við og gera það að þjóðnytjafyrirtæki. Það ætlum við okkur til þess að forðast að skattborgararnir verði fyrir áföllum. Annars blasir það við.