16.05.1980
Sameinað þing: 59. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2724 í B-deild Alþingistíðinda. (2726)

200. mál, samkomulag milli Íslands og Noregs um fiskveiði- og landgrunnsmál

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Þegar við metum kosti og galla þess samnings, sem meiri hl. samninganefndar Íslendinga í Osló ákvað að mæla með að Alþ. samþ., er nauðsynlegt að meta þann samning fyrst og fremst á grundvelli þeirrar stefnu sem íslensk stjórnvöld, stjórnmálaflokkar og ríkisstjórnir, hafa haft í þessu máli. Það er nauðsynlegt vegna þess að samkv. mínum skilningi er í þessum samningi að finna afneitun á flestum þeim grundvallaratriðum sem Íslendingar hafa byggt sókn sína í Jan Mayen málinu á. Sú saga er orðin nokkuð löng þótt hún hafi einkum verið viðburðarík á síðustu misserum.

Jón Þorláksson, forsrh. Íslands 1927, hafði framsýni og stórhug og djúpan skilning skömmu eftir fullveldi þjóðarinnar til að setja fram, strax þegar Norðmenn ætluðu að hasla sér völl á Jan Mayen, kröfu um að samkv. sögulegri hefð og almennum rétti áskildi íslensk þjóð sér jafnan rétt á Jan Mayen til nýtingar auðlinda þar á við hverja aðra. Þessi yfirlýsing Jóns Þorlákssonar forsrh. felur í raun og veru í sér vefengingu strax í upphafi á því, að Norðmenn hafi ótvíræðan eignarrétt yfir eyjunni. Þótt Noregur, sem þá var og enn er miklu öflugra land að öllum styrkleika en Ísland, gæti í rás sögunnar styrkt sig í sessi á Jan Mayen var samt sem áður ljóst að forsrh. Íslands, samstundis og norska veðurstofan ætlaði að festa sig í sessi og hefja landnám á Jan Mayen, setti fram fyrirvara um að slík aðgerð gæti leitt til þeirra réttinda sem að jafnaði fylgja ótvíræðum eignarétti á eyjunni. Grunntónninn í kröfugerð Íslendinga frá upphafi hefur þannig verið vefenging á því, að Norðmenn hefðu venjubundinn eignarrétt yfir þessari eyju, — eignarrétt sem fæli í sér að þeir gætu ákveðið einir út af fyrir sig hvernig farið væri með þær auðlindir sem eyjunni eru tengdar.

Það er einmitt þessi beina og óbeina vefenging eignarréttarins sem hefur verið grunntónninn í kröfugerð og stefnutillögum íslenskra stjórnvalda. Norðmenn hafa aftur á móti haldið þannig á þessu máli að tryggja að við lok samningsgerðar lægi fyrir texti sem tæki af allan vafa um að Íslendingar hefðu viðurkennt „sovereignitet“, alþjóðlegan eignarrétt, Noregs á Jan Mayen, ekki aðeins eyjunni, heldur einnig því gífurlega stóra hafsvæði sem til hennar megi teljast samkv. þróun hafréttarmála á undanförnum árum.

Ég vil því strax í upphafi, líkt og síðasti ræðumaður, þó ég vilji halda lengur áfram og hærra á lofti merki Jóns Þorlákssonar í þessu máli en mér fannst hann vilja gera, byrja mitt mál með því að minna enn á ný á og láta hér standa sem grunntón málflutnings míns tilvísun í bréf forsrh. Íslands frá 1927.

Í ágætum og skýrum og greinargóðum upphafsorðum núv. utanrrh. í viðræðunum, sem fóru fram í Reykjavík í aprílmánuði s. l., er einmitt vitnað rækilega í þennan fyrirvara íslensku ríkisstj. frá 1927. Lok þessa fyrirvara eru á þessa leið:

. . . að því marki sem hún telur nauðsynlegt, en að því leyti sem til greina gæti komið að nýta eyjuna í þágu annarra hagsmuna óskar ríkisstjórn Íslands að áskilja íslenskum ríkisborgurum jafnan rétt á við borgara hvaða annars ríkis sem vera skal.“

Ég vil skjóta því inn hér, þótt ekki sé staður og stund til að rifja upp ítarlega þær röksemdir sem fóru á milli viðræðunefnda Norðmanna og Íslendinga í þeim samningum, að það er til marks um hvers konar hártogunum frændur vorir og vinir beittu í þessum viðræðum, að þegar þeir afneituðu gildi þessa texta var það m. a. á þeim grundvelli að þeir teldu að þarna væri átt við aðra en Norðmenn, þótt öllum megi vera ljóst að það votu Norðmenn og Íslendingar einir sem á þessu sögulega augnabliki voru að fást við þetta mál.

Aldagamall sögulegur réttur Íslendinga til auðlinda Jan Mayen svæðisins hefur mjög rækilega verið rakinn í riti sem utanrrn. gaf út fyrir skömmu og er eftir prófessor Sigurð Líndal og nokkra starfsmenn rn. og aðra einstaklinga og ber heitið „Ísland og det gamle Svalbard“. Ég ætla ekki að rekja efni þessa rits hér, en eingöngu minna á og vitna í þær ítarlegu röksemdir sem þar koma fram.

Ég harma mjög að í viðræðum við Norðmenn hafa þeir aldrei verið fáanlegir til að viðurkenna þennan sögulega rétt Íslendinga til Jan Mayen svæðisins, heldur eingöngu viljað byggja viðræðurnar annars vegar á eigin yfirráðum óumdeilanlegum og hins vegar sanngirni þeirra í Íslands garð út frá almennum frændsemissjónarmiðum, almennum utanríkispólitískum sjónarmiðum og með nokkru tilliti til efnahagslegrar stöðu Íslands. Við verðum þess vegna að horfast í augu við það, að með því að samþ. þann samning, sem hér liggur fyrir, er hugsanlegt að verið sé að ógilda þann mikilvæga fyrirvara sem Jón Þorláksson forsrh. setti fram af mikilli framsýni. Og ég vil lýsa því yfir hér, að ég tel að sá fyrirvari gildi áfram. Ég tel að aðgerðir íslensku ríkisstj. 1927 séu enn í fullu gildi og okkar sögulegu röksemdir þótt Norðmenn hafi að sinni ekki viljað fallast á þær.

Ég sagði í upphaf að þennan samning bæri fyrst og fremst að meta á grundvelli þeirrar stefnu sem Íslendingar hafa haft í málinu. Kostir hans og gallar verða að mínum dómi dæmdir í ljósi þess, hvað við höfum sett fram. Ég er þeirrar skoðunar, að í meðferð utanríkismála sé það ríkari skylda en í meðferð innanríkismála að vanda mjög stefnugerð og tillöguflutning. Óhyggjuleg stefna og ábyrgðarlaus stefna á sviði utanríkismála getur haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þjóðina og sjálfstæði hennar, efnahagslegt sjálfstæði og pólitískt sjálfstæði. Enn fremur er nauðsynlegt, að þegar þjóð setur fram við aðra þjóð kröfur telji hún sig bæði hafa rétt og einnig aðstöðu til að fylgja þeim kröfum eftir, vegna þess að það skapar lítt virðingu í rás tímans fyrir slíkri þjóð ef aðrar þjóðir reyna hvað eftir annað að þær tillögur, sem fram eru settar, reynast í viðræðum heldur marklitlar og hopað er frá þeim öllum á skömmum tíma. Það er hins vegar eðlilegt og að hætti hygginna samningamanna að setja fram í upphafi máls ítarlegri kröfur en þeir hafa e. t. v. von til að fram nái að ganga. Þess vegna er það rétt, sem komið hefur fram í máli þeirra tveggja — held ég — sem á undan mér hafa talað hér, að stefnumótun íslenskra stjórnmálaflokka og stjórnvalda í þessu máli hefur verið byggð á meginkröfum, aðalkröfum, grundvallarkröfum og síðan varakröfum sem við værum reiðubúnir að ræða ef Norðmenn sýndu okkur þá ósanngirni að vilja ekki taka tillit til aðalkröfugerðar okkar. Ef niðurstaða samninga er hins vegar á þann veg, að hvorki aðalkröfur né varakröfur hafa náð fram að ganga, er tvennt sem blasir við: annaðhvort hafa þær í upphafi verið settar fram á óhyggilegan hátt vegna þess, að að baki þeim hafi hvorki staðið réttindi né aðstaða þjóðarinnar til að fylgja þeim eftir, eða þá að menn hafi á síðasta sprettinum hvikað frá flestu eða öllu því sem þeir áður töldu grundvallaratriði.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að lítil þjóð eins og Íslendingar, sem á eðlilega undir högg að sækja í veröldinni, vandi svo vel stefnumótun sína á sviði utanríkismála að við hér á Alþingi og þeir, sem á eftir okkur koma, séu ekki að gera sér leik að því að setja fram ítarlegar tillögur sem kröfugerð gagnvart öðrum þjóðum — tillögur sem hæstv. utanrrh. sagði alveg réttilega fyrr í dag, að gætu hugsanlega leitt til átaka milli þjóðanna ef á þær verður ekki fallist, — að við gerum okkur ekki leik að því að setja fram tillögur sem við teljum okkur svo ekki getað staðið á. Ég held þess vegna, og segi það í fullri vinsemd og með virðingu gagnvart þeim sem ég hef átt samstöðu með á undanförnum misserum að móta tillögur í hinu svonefnda Jan Mayen máli, að ef það er dómur manna nú að réttur Íslendinga sé svo lítill og aðstaða Íslendinga hafi verið svo veik að þær kröfur hafi lítt eða ekki verið mögulegt að knýja fram, þá skulum við frekar í framtíðinni gæta hófs í tillögu- og kröfugerð gagnvart erlendum þjóðum en setja á oddinn slíkar kröfur að önnur ríki reyni það hvað eftir annað að Íslendingar tali stórkarlalega á löggjafarþinginu og í upphafi samningaviðræðna, en þegar kemur að viðræðum við þá á alþjóðlegum vettvangi séu þeir fljótir að hopa. Ég held að slík stefnumótun á sviði utanríkismála og slík framganga á sviði utanríkismála sé ekki farsæl leið fyrir litla þjóð í þeirri veröld sem við búum í nú.

Því miður verð ég að segja að ef sá texti, sem hér liggur fyrir, er dæmdur á þeim grundvelli sem lagður var í landhelgisnefnd á sínum tíma og ég mun aðeins gera að umræðuefni hér á eftir, þá sé ég ekki að neins staðar í þessum samningi fáist fullnaðarviðurkenning eða örugg viðurkenning á neinni af þeim grundvallarkröfum sem við höfum sett fram. En það er vissulega rétt, sem fram hefur komið hér, bæði hjá hæstv. utanrrh. og eins formanni Sjálfstfl., að í þessum samningstexta má finna ýmsar setningar sem þoka málinu í áttina að því sem við hefðum kosið. Vandinn er hins vegar sá að mínum dómi, að í þessu er hvergi það traustatak að við getum beitt því ef reynslan yrði sú, að Norðmenn túlkuðu þennan texta í reynd á hinn óhagstæða hátt fyrir okkur. Ef svo yrði stæðum við frammi fyrir því að meta hvort efna ætti til nýrra deilna, nýrra átaka við Norðmenn eða þá líta í eigin barm og skoða uppgjöf málsins í gráum hversdagsleikanum eins og hún mundi þá blasa við. En ég mun víkja nánar að því undir lok ræðu minnar.

Ég tel, — eins og kom reyndar fram hjá hæstv. utanrrh., mér fannst hann leggja þetta mál að mörgu leyti hreinskilnislega fyrir hvað það snertir, gat þess hvað eftir annað, — að í þessum texta séu á fleiri en einum stað og fleiri en tveimur og fleiri en þremur möguleikar á alvarlegum samningsrofum ef Norðmenn túlka hann fyrst og fremst í þágu þröngra norskra hagsmuna. Þá blasir við íslenskum stjórnvöldum sú spurning, hvað skuli þá gera. Spurningin er nefnilega sú, hvort þessi samningur leysir yfir höfuð nokkurn vanda, hvort hann sé ekki svo almennt orðaður, svo óljós í alla staði að við stöndum eftir sem áður í víðtækum deilum við Norðmenn ef við viljum halda áfram að fylgja fram okkar fyllsta rétti bæði í fiskveiða- og landgrunnsmálum.

Að því hefur verið vikið hér, og formaður Sjálfstfl. reyndi að gera það að nokkrum gamanmálum, en ég tel það þó hafa verið mjög jákvæðan þátt í þessu máli, að í júlí- og ágústmánuði 1979 náðu Sjálfstfl. og Alþb. saman um ákveðna stefnu í þessum málum. Upphaf þess máls var að Matthías Bjarnason lagði fram í landhelgisnefnd 23. júlí 1979 hugmyndir að viðræðugrundvelli Íslendinga og Norðmanna. Í þessum hugmyndum voru sex meginefnisatriði, sem hann raðaði að vísu ekki í forgangsröð, en augljóslega textanum samkvæmt fólu í sér aðalkröfur og varakröfur Íslendinga gagnvart Norðmönnum. Þar var krafist sameiginlegra yfirráða hvorki meira né minna — Norðmanna og Íslendinga bæði hvað snertir nýtingu hafs og hafsbotns. Þessi krafa gekk að mínum dómi lengst. Þetta var krafa sem fól í sér efasemd um afdráttarlausan yfirráðarétt Norðmanna á eyjunni Jan Mayen — krafa sem gaf til kynna að Íslendingar hefðu ekki fallist í eitt skipti fyrir öll á „sovereignitet“ Norðmanna á eyjunni og teldu sig eiga kröfu til sameiginlegra yfirráða, m. a. með tilvísun til þeirra sögulegu og lagalegu raka sem hefur áður verið vikið að í þessari umr. Önnur krafan fól í sér sameiginlega fiskveiðilögsögu umhverfis Jan Mayen, þar sem báðar þjóðirnar færu með stjórn á lögsögunni og nýtingu þeirra auðlinda sem innan hennar væru. Þriðja krafan fól í sér, að þótt Norðmenn lýstu yfir efnahagslögsögu á Jan Mayen svæðinu ættu báðar þjóðirnar rétt til að nýta að jöfnu auðlindir hafs og hafsbotns utan 12 sjómílna. Og fjórða krafan byggðist á því, að eingöngu væri um fiskveiðiútfærslu að ræða og þær ættu þá báðar rétt til að nýta að jöfnu auðlindir hafs og hafsbotns utan 12 sjómílna. Og fjórða krafan byggðist á því, að eingöngu væri um fiskveiðiútfærslu að ræða og þær ættu þá báðar rétt til að nýta að jöfnu allan þann afla sem á svæðinu fengist og þá ekki bara loðnu. heldur einnig alla aðra fiskstofna sem þar væri að finna. Til viðbótar þessum aðal- og varakröfum voru einnig settar fram tillögur um að Norðmenn og Íslendingar gerðu með sér samning um að útiloka veiðar annarra þjóða, nema samþykki beggja kæmi til, og jafnframt yrði tilgreint í samningnum það hlutfall sem Færeyingar ættu að hljóta í heildarveiðinni.

Það þarf ekki að eyða löngu máli í að útskýra að bókstaflega ekkert af þessum efnisatriðum er í þessum samningi að finna. Hér er ekkert um sameiginleg yfirráð, hér er ekkert um sameiginlega fiskveiðilögsögu, hér er ekkert um jafna nýtingu auðlinda hafs og hafsbotns, hér er ekkert um jafnar veiðar á afla og hér er ekki um útilokun annarra þjóða að ræða. Ég vil segja það í fullri vinsemd við formann Sjálfstfl., sem var að reyna að lesa inn í þann texta samkomulagsins, sem hér liggur fyrir, að hann væri þeirrar skoðunar að þarna væri um jafnan rétt að ræða og hann ætti áfram að liggja til grundvallar í þeim texta sem okkur er ætlað hér að samþykkja, að þeirri kröfu er gagngert neitað af hálfu Norðmanna. Það verður því miður að horfast í augu við það, að þótt Norðmenn viðurkenni, að Íslendingar hafi af almennum sanngirnisástæðum einhver ítök í öðrum stofnum en loðnu á Jan Mayen svæðinu, og geri við þá samkomulag um loðnuveiðar til skamms tíma og setji af stað ákveðna aðferð til að ákveða landgrunnið, þá verður Sjálfstfl. að horfast í augu við að engin krafa, hvorki aðalkrafa né varakrafa, af þeim sem Sjálfstfl. setti fram og hældi sér síðan fyrir — og að nokkru leyti með réttu — að hann hefði haft forustu um stefnumótun Íslendinga í þessum málum, — engin af þessum kröfum hefur náð fram að ganga.

Það er rétt að á grundvelli þessara tillagna, þótt ekki væri þar um kalkipappírsaðferð að ræða, lagði ég fram í landhelgisnefnd 10. ágúst 1979 tillögur frá Alþb. Þar voru annars vegar þrjár megintillögur sem fólu í sér: sameiginlega fiskveiðilögsögu umhverfis Jan Mayen, í öðru lagi jafna nýtingu á auðlindum hafs og hafsbotns og í þriðja lagi jafnmikinn afla. Var þá annar og þriðji liður miðaður við efnahagslögsögu eða fiskveiðilögsögu. Til viðbótar hinum þremur meginþáttum, sem leggja átti til grundvallar í viðræðum, voru fimm atriði sem fólu í sér samning um sameiginlegar fiskverndaraðgerðir sem útilokuðu veiðar annarra þjóða, að tiltekið væri hlutfall Færeyinga, að samið væri m. a. með tilliti til norsk-íslenska síldarstofnsins, og að íslenska landhelgisgæslan fengi aðgang að Jan Mayen svæðinu til að tryggja að við hefðum eftirlit með framkvæmd þessara ákvæða. Einnig verður að segjast að því miður hefur ekkert af þessu fengist fram í samningnum.

Þegar þriðju viðræðurnar blöstu við eftir aprílviðræðurnar hér í Reykjavík var ljóst, að Norðmenn höfðu fyrir sitt leyti neitað sögulegum rétti Íslendinga til Jan Mayen svæðisins eins og hann var grundvallaður á yfirlýsingu ríkisstj. Jóns Þorlákssonar. Það var ljóst, að Norðmenn höfðu neitað sameiginlegum yfirráðum landanna yfir svæðinu, þeir höfðu neitað sameiginlegri lögsögu, þeir höfðu neitað sameiginlegri nýtingu og þeir höfðu einnig neitað að gera samkomulag um heildarlausn sem fæli í sér, eins og hæstv. utanrrh. gerði grein fyrir áðan, að gengið væri fullkomlega frá skiptingu landgrunnsins um leið og samið var um önnur atriði. Við höfðum sett kröfur okkar fram af fullum þunga, af fullri alvöru og af fullri samstöðu allra íslenskra þingflokka. Ég vil einnig segja það hér, að málið var flutt af mikilli einurð af þeim báðum utanrrh., hv. þm. Benedikt Gröndal og núv. hæstv. utanrrh. Ólafi Jóhannessyni, bæði í fyrri og síðari viðræðunum í Reykjavík. Þar hafði kröfugerð Íslendinga verið sett fram bæði í ítarlegum inngangsorðum og eins í ítarlegum rökstuðningi þar sem þeir ásamt sjútvrh. Kjartani Jóhannssyni, hv. þm., og núv. hæstv. sjútvrh. höfðu haft meginorð fyrir Íslendingum. Þessar meginkröfur höfðu verið fluttar af ráðherrum okkar fyrir hönd nefndanna við bæði tækifærin af fullri einurð og mikilli festu og með ítarlegri tilvísun til þeirra margháttuðu raka sem við höfum sett fram. Ég tel það mikla ósanngirni af hálfu Norðmanna og skapar ekki vonir um að þeir muni í framtíðinni sýna okkur þá sanngirni sem orðuð er í þessum texta, að engin af þessum kröfum okkar, ekkert af þessum sjónarmiðum okkar fékk hljómgrunn í þeirra eyrum. Og þá stóðum við frammi fyrir því að reyna að finna millileið sem hægt væri að fá Norðmenn til þess að fallast á og tryggði höfuðatriði sem við legðum mesta áherslu á þótt okkur væri ljóst að þeir hefðu neitað aðalkröfum okkar. Og mér finnst það sýna þann vilja, sem minn flokkur, Alþb., hafði til að reyna að ná samningum í þessari deilu, að við værum reiðubúnir að leggja fram drög að slíkri millileið áður en síðasta samningalota hófst í Osló. Það gerðum við með tillögum sem lagðar voru fram á fundi viðræðunefndarinnar 5. maí s. l. Þar voru að meginhluta fimm efnisatriði:

1) Óskertar 200 mílur af landhelgi Íslands. Norðmenn hverfi algerlega frá fyrri kröfum sínum.

2) Að veiðar á loðnu, kolmunna, rækju og öðrum tegundum, sem veiddar eru á Jan Mayen svæðinu, verði að jafnaði byggðar á helmingaskiptareglu þjóðanna.

3) Að réttindi Íslendinga til auðlinda hafsbotnsins á Jan Mayen svæðinu verði tryggð með afdráttarlausri skiptingu, sem tilgreind verði í samningi, og Norðmenn fallist á að færa ekki út efnahagslögsögu við Jan Mayen fyrr en slíkur samningur hefur verið staðfestur af báðum aðilum.

4) Að olíuboranir á Jan Mayen svæðinu verði háðar samkomulagi beggja þjóðanna.

5) Að samningarnir verði ótímabundnir og óuppsegjanlegir.

Það er e. t. v. til marks um það, hve lítill samkomulagsvilji Norðmanna var í þessu máli, að þegar þessar tillögur voru birtar í Noregi og um það fréttist í norska utanríkisráðuneytinu, þá hefur komið fram að norska viðræðunefndin hugleiddi alvarlega að aflýsa viðræðunum. Svo fráleitar fundust þeim þessar hugmyndir um millileið sem hæstv. utanrrh. hefur þó tekið fram með réttu að bæði á Íslandi og eins í Noregi voru ekkert nýjar og eru ekkert nýjar, heldur fólu í sér þann lágmarksgrundvöll sem íslenska samninganefndin öll taldi að hægt væri að byggja samkomulag á. En jafnvel þessar millikröfur, sem settar voru fram í kjölfar af röð af aðalkröfum sem allir íslensku flokkarnir höfðu haft samstöðu um, náðu ekki fram að ganga í viðræðunum í Osló, nema e. t. v. sú fyrsta þeirra, sem ég mun koma að á eftir.

Fyrsta dag viðræðnanna í Osló kom greinilega fram að Norðmenn voru fyrir alvöru farnir að hugleiða samninga við Efnahagsbandalagið um veiðar á þessu svæði og vildu koma óbundnir til þeirra samninga af samningum við Íslendinga. Þessi afstaða þeirra var svo fráleit að okkar dómi að við hugleiddum í alvöru að hverfa við svo búið frá Osló. Þegar norska ríkisstjórnin sá fram á það breytti hún um stíl í viðræðunum og fór að ræða ýmis þau atriði sem þarna voru tilgreind, en þó með þeim hætti að þar var hvergi hægt að festa hönd á þannig að við gætum sagt að íslenska samninganefndin hefði með tvímælalausum hætti tryggt um aldur og ævi eða ákveðinn tíma viss grundvallarréttindi.

Norska viðræðunefndin kappkostaði að hafa orðalagið alls staðar og alltaf með þeim hætti að Norðmenn gætu túlkað það sér í hag ef þeim þætti nauðsynlegt að beita Íslendinga í framtíðinni hörku. Texti samkomulagsins, sem okkur var sýndur hvað eftir annað, fól þannig sífellt í sér skort á þeim tryggingarákvæðum sem að mínum dómi ein duga í samningum við Norðmenn. Nú er það vissulega rétt, að Norðmenn eru miklir frændur vorir og vinir, en Norðmenn hafa líka sýnt, að þeir eru harðir samningamenn, og þeir hafa sýnt það með veiðum á síldarstofninum, að þeir eru harðir veiðimenn. Þeir hafa sýnt það með kröfugerð sinni nú í loðnustofninn, að þeir ætla sér stóran hlut, miklu stærri hlut en hingað til, í veiðum á Norður-Atlantshafi. Þeir taka í því sambandi lítið tillit til þess, þótt Íslendingar eigi fyrst og fremst afkomu sína undir fiskveiðum.

Í framtíðarviðskiptum við svo harða nágranna hefði ég talið grundvallaratriði að Íslendingar hefðu í höndum afdráttarlaus tryggingarákvæði, einkum og sér í lagi vegna þeirrar reynslu sem þessi samningalota í Jan Mayen málinu hefur kennt okkur. Við höfum sett fram hvert sjónarmiðið á fætur öðru, sem að okkar dómi væri rétt og sanngjarnt, en Norðmenn hafa ekki fallist á þau. Við höfum komið með hugmyndir um veiðar sem þeim hafa fundist fráleitar. Við höfum fundið að sterkur þrýstingur er í Noregi hjá ýmsum samtökum og hagsmunaaðilum á að knýja norsk stjórnvöld nú og í framtíðinni til að taka stærri hlut af veiðunum en þeir hafa haft. Við fundum greinilega undirtóninn í þeirri kröfu, að þar sem Jan Mayen væri að þeirra dómi algerlega norsk, jafnríkulegur hluti af konungsríki Noregs og trén í garði kóngsins, ætti hún að hafa fulla 200 mílna efnahagslögsögu í kringum sig. Þegar horft er til þeirra aðstæðna hjá Norðmönnum sjálfum efast ég um að jafnvel þótt ríkisstj. í framtíðinni í Noregi hefði í sjálfu sér góðan vilja til að túlka þau sanngirnisákvæði, sem kveðið er á um í þessum samningi, á hinn besta veg eða hinn betri veg a. m. k. fyrir Íslendinga, þá séu aðstæður allar þannig heima fyrir að henni yrði það kleift. Ég tala nú ekki um ef sú ríkisstj. byggði fylgi sitt að verulegu leyti á stuðningi þeirra héraða sem telja sig frá byggðasjónarmiði hafa mestra hagsmuna að gæta gagnvart veiðum í Norður-Atlantshafi.

Ég ætla ekki hér, enda tel ég það þjóna litlum tilgangi, að rifja upp þau ítarlegu blaðaskrif sem orðið hafa um þetta mál hér á landi á undanförnum misserum. Ég vil þó minna á það, líkt og síðasti ræðumaður gerði, geri það í fullri vinsemd, en tel þó að nauðsynlegt sé að fram komi, að þegar við Matthías Bjarnason höfðum myndað samstöðu í landhelgisnefnd á sínum tíma sagði hæstv. þáv. forsrh. að sú hugmynd okkar Matthíasar, að Íslendingar ættu að krefjast helmingaskipta á hafsbotninum, væri alger barnaskapur, vegna þess að við ættum miklu meiri rétt á hafsbotninum þar, ekki aðeins landgrunninu, heldur öllum hafsbotninum í kringum Jan Mayen. Bæði í viðtali við Vísi 22. ágúst og einnig í viðtali við Tímann 16. ágúst koma þessi sjónarmið skýrt og greinilega fram. Tíminn hefur eftir þáv. forsrh., með leyfi hæstv. forseta: „Fellst ekki á helmingaskipti botnsins, segir forsrh.

Enn fremur finnst mér rétt, fyrst talsmenn Sjálfstfl. leggja svo mikið upp úr því, bæði hér og einnig utan þings, að í þessum samningi felist viðurkenning á 200 mílunum íslensku, að benda á að það hefur verið þeirra skoðun þangað til síðustu daga að slíkt atriði væri ekki einu sinni til umræðu við Norðmenn, hvað þá heldur að fyrir það ætti að gefa eitthvað í samningum. Það hefur verið samdóma álit íslensku samninganefndarmannanna yfirleitt, að 200 mílurnar okkar fullar í átt að Jan Mayen væru svo sjálfsagðar að það kæmi ekki til greina að skoða þær sem einhvers konar skiptimynt í samningum. Í leiðara Morgunblaðsins 10. ágúst 1979 er þessi stefna orðuð á þennan hátt m. a.:

„200 mílna lögsaga Íslands á Jan Mayen svæðinu er óumdeilanleg og ekki til umræðu við Norðmenn. Þar er hvorki um að ræða grátt svæði né umdeilt svæði, eins og sumir íslenskir fjölmiðlar hafa sagt, bersýnilega af þekkingarleysi.“

Hér er í örfáum orðum, í leiðara Morgunblaðsins 10. ágúst 1979, lýst þeirri grundvallarafstöðu sem Sjálfstfl. og aðrir flokkar hafa jafnan haft, að þessi réttur væri svo sjálfsagður að hann væri ekki umræðuatriði gagnvart Norðmönnum. Það kemur m. a. fram í grein hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar, sem hann skrifaði í Morgunblaðið á sínum tíma, þar sem hann réttilega hælir þáv. utanrrh. Benedikt Gröndal fyrir að hafa algerlega „snúið niður“ — held ég að sé orðalag greinarinnar — allt tal Norðmanna um að draga í efa 200 mílurnar íslensku gagnvart Jan Mayen.

Það má vera rétt, þó ég dragi það nokkuð í efa, en skal ekki ræða það ítarlega hér, að í þessum texta hafi Norðmenn horfið frá fyrri afstöðu sinni til íslensku 200 mílnanna. En ég vil minna á tvennt í þessu sambandi. Það fyrra er, að það var ávallt afstaða allra íslensku samninganefndarmannanna að fyrir slíkt bæri ekki að gefa eitt einasta atriði í samningum við Norðmenn, vegna þess að það væri réttur sem ekki væri til umræðu, eins og sagt er í fyrrgreindri grein.

Hitt atriðið, sem ég vil minna á, er að Norðmenn höfðu áður í reynd eða „de facto“ viðurkennt 200 mílurnar íslensku, bæði með því að gefa skipun um það í fyrra að sigla ekki inn á svæðið og eins með annarri almennri umfjöllun um málið. Það var alveg ljóst, að það voru fyrst og fremst samningahagsmunir Norðmanna í Barentshafi sem gerðu það að verkum að þeir vildu ekki skrifa lögformlega upp á afnám miðlínukenningarinnar, en alls ekki að þeir teldu að þeim héldist það uppi til lengdar að ætla að tileinka sér eitthvert „grátt svæði“ milli Íslands og Jan Mayen.

Ég hef hér minnt á nokkur meginatriði í þeim stefnugrundvelli sem Íslendingar, bæði þingflokkarnir og stjórnvöld, hafa haft í þessu máli. Þessi stefnuatriði koma mjög vel fram í þeirri ágætu inngangsræðu núv. hæstv. utanrrh., sem ég vitnaði í áðan og hann flutti við upphaf seinni viðræðnanna í Reykjavík, eins og í þeim drögum að ræðu sem fyrrv. hæstv. utanrrh. Benedikt Gröndal hafði ætlað sér að flytja þegar viðræðurnar stóðu fyrir dyrum s. l. haust, en voru síðan afturkállaðar, og hann birti í Alþýðublaðinu 10. maí 1980. Lokaorð þeirrar inngangsræðu hv. þm. Benedikts Gröndals eru að mínum dómi ágætur kjarni í þeirri meginhugsun og þeirri meginafstöðu sem við höfum haft í þessum málum. Þau eru á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Með hliðsjón af framansögðu og fleiri atriðum er íslenska þjóðin þeirrar skoðunar, að hún eigi a. m. k. helmingsrétt til stjórnunar og nýtingar auðlinda Jan Mayen svæðisins utan 12 mílna landhelgi, í sumum tilvikum meiri.“

Mér finnst þarna í fáum orðum orðuð vel sú meginhugsun sem kröfugerð okkar hafði verið byggð á. Ég vil einnig benda á, þó að ég telji ástæðulaust að rekja það hér, þann ítarlega rökstuðning fyrir þessari niðurstöðu sem fram kemur í þeirri ræðu sem hv. þm. Benedikt Gröndal hafði ætlað sér að flytja þegar viðræðurnar stóðu fyrir dyrum s. l. haust. Ég vil enn fremur minna hv. þingheim á atriði í inngangsræðu núv. hæstv. utanrrh., þar sem hann segir 14. apríl s. l., með leyfi hæstv. forseta:

„Í þessu sambandi ber að geta þess, að það er matsatriði hvort Jan Mayen á að fá nema 12 mílna lögsögu á sjó að viðbættu mjög takmörkuðu landgrunnssvæði. Dæmi eru til þess, að slík eyja hafi aðeins fengið viðurkennt 1 mílu landgrunn. Af Íslands hálfu er lögð áhersla á það, að ef ekki væri um að ræða kröfugerð vegna Jan Mayen fengi Ísland yfirráð yfir öllu landgrunnssvæði sínu.“

Þetta eru stór orð. Þetta er afdráttarlaus yfirlýsing um hvað utanrrh. Íslands telur Jan Mayen hafa lítinn rétt þegar til samninga eigi að ganga um skiptingu auðlinda hafs og hafsbotns á þessu svæði. Þessi skoðun er studd mörgum öðrum rökum í þessum inngangsorðum. Þar er vikið að lífshagsmunum Íslendinga, þar er vikið að því að Jan Mayen sé lítil og óbyggð og án sjálfstæðs atvinnulífs, og þar er vikið að fyrirvörum íslensku ríkisstj. frá 1927.

Það er þess vegna miður að mínum dómi, að nú skuli hafa verið lagður fyrir Alþ. texti að samkomulagi sem hefur þá grunnhugsun innbyggða að Jan Mayen sé eiginlega jafngilt ríki á við Ísland hvað öll réttindi snertir. Út á þetta sker, þennan klett, sem við köllum eyju og er algerlega óbyggð, hefur aldrei haft neina byggð og við höfum haldið fram að væri á íslensku landgrunni, ætla Norðmenn sér nú slík yfirráð á Norður-Atlantshafi að þegar þau bætast við þeirra fyrri yfirráð hafa þeir meiri yfirráð yfir hafi en allt Efnahagsbandalagið til samans. Við erum með þessum samningi að gera Noreg að stórveldi í hafsdrottnun á Norður-Atlantshafi, og við gerum það aðeins nokkrum vikum eftir að utanrrh. Íslands hefur dregið í efa að Jan Mayen ætti rétt á nema kannske l mílu landgrunni og ekki nema 12 sjómílna lögsögu. Sú grunnhugsun gengur í gegnum þetta samkomulag, að Jan Mayen sé jafnríkulegur hluti af Noregi og trén í skógum landsins og þær auðlindir aðrar sem á meginlandi Noregs eru. Í þessum texta er yfirráðaréttur Norðmanna með beinum eða óbeinum hætti viðurkenndur. Það tel ég að samrýmist ekki grundvallarsjónarmiðum okkar Íslendinga í þessu máli. Við hljótum til frambúðar að halda fram þeirri skoðun, að hvað sem framtíðin kunni annars að bera í skauti sér sé það óeðlilegt ástand að þessi litla mannlausa eyja eigi að skerða svo framtíðarréttindi Íslendinga sem gert er með þessu samkomulagi — réttindi sem við höfum haldið fram og ég hef hér verið að rekja í stefnumótun þingflokka, í yfirlýsingum utanrrh. tveggja ríkisstjórna, að við hefðum ótvíræðan rétt til.

Ef litið er á þann samning, sem hér liggur fyrir, vil ég ítreka það sem ég sagði í upphafi, að hann ber að mínum dómi fyrst og fremst að dæma á grundvelli þeirrar stefnumótunar sem Íslendingar hafa sett fram áður. Það ber ekki að dæma hann eins og hann detti niður úr skýjunum úr einhverju sögulegu tómarúmi og sjá kost og löst eingöngu í textanum sjálfum eins og hann kemur fyrir, heldur með tilliti til þess, hvers við höfum vænst og hvers við höfum krafist. Ég hef áður gert tvíþættar aths. við þau meginrök, að samningurinn feli í sér stóran feng hvað snertir 200 mílna efnahagslögsögu Íslendinga. Bæði hefur það verið stefna okkar, að slíkt væri ekki skiptimynt í samningum við Norðmenn, og hins vegar lá slík „de facto“ viðurkenning í reynd fyrir áður.

Ég hef þegar vikið að því, að ekkert af þeim grundvallarstefnumiðum, sem Íslendingar hafa sett fram, næst í þessum samningi. Ég sagði það í íslensku samninganefndinni og skal segja það hér, að ef einhver þeirra hefðu náðst, þó ekki öll, hefði ég verið tilbúinn að hugleiða í fullri alvöru að standa að slíkum samningi, vegna þess að þá hefði náðst að mínum dómi viðspyrna gegn hugsanlegri ósanngirni, hugsanlegum órétti Norðmanna í framtíðinni. En það, sem fyrst og fremst tekur af skarið gagnvart minni afstöðu hér og nú, er það, að við höfum ekki náð slíkum tryggingum. Ég orðaði það í sjónvarpi í viðræðum við utanrrh. kvöldið sem við komum heim, að það væru engir stálvírar í þessum samningi sem bæru uppi réttindi Íslendinga. Hann viðurkenndi að það væri alveg rétt. Ég tel, eins og ég sagði áðan, að í heiðarlegri greinargerð fyrir þessum samningi í upphafi þessarar umr. hafi komið mjög rækilega fram hve miklum vafa undirorpin nánast öll veigamestu ákvæði þessa texta eru. Og mat manna, sem mæla með samningnum, hvílir fyrst og fremst á þeirri skoðun, að það sé betra að hafa þetta en ekkert. Það er röksemd sem ég mun víkja að undir lok máls míns.

Það hefur þegar komið fram á opinberum vettvangi, hvernig ýmsar greinar þessa samnings hafa opnað útgöngudyr fyrir Norðmenn og skortir tryggingarákvæði fyrir okkur. Ég víl aðeins hlaupa á þeim hér vegna þess að ég reikna með, enda kom það fram í ræðum þeirra tveggja sem hér töluðu áðan, að þessir gallar samningsins séu flestum allljósir.

Sú nefnd, sem fjallað er um í 2. gr. að setja á fót og kveðið er á um starfsvettvang og starfsaðferðir í 3. gr., á ekki að vera nefnd fiskifræðinga, eins og ég les þennan texta, heldur fyrst og fremst nefnd embættismanna eða stjórnmálalegra fulltrúa sem eiga síðan að koma á fót starfshópi fiskifræðinga í tengslum við nefndina. Ég tel því að sá möguleiki sé fyrir hendi, að önnur þjóðin eða báðar setji í nefndina starfsmenn sem telja sig á einhvern hátt vera skuldbundna þeirri ríkjandi stjórnmálastefnu sem gildir gagnvart fiskveiðum í viðkomandi landi og það sé ekki trygging fyrir því að nefndin starfi fyrst og fremst á faglegum grundvelli.

Þar að auki er á 3. gr. sá vankantur, að það eru eingöngu samhljóða tillögur nefndarinnar sem eru bindandi. Ef annar aðilinn gerir ágreining, og ég bendi aftur á hvernig nefndin gæti verið saman sett af embættismönnum eða pólitískum fulltrúum, eru tillögur ekki bindandi. Þarna er um að ræða möguleika á neitunarvaldi Norðmanna, sem ekki hefur mikið verið vikið að í þessum umræðum, en ég tel þó að standi í þessum texta.

Í 4. gr., um ákvörðun heildaraflamagnsins, er ákvæði sem mjög ítarlega hefur verið rætt um í tengslum við þessa samninga. Þótt Íslendingar eigi að ákveða heildarmagnið eru Norðmenn óbundnir af því. Ég vil hins vegar lýsa þeirri skoðun minni, að ég óttast þá yfirlýsingu, sem flutt var á lokamínútum viðræðnanna af Jens Evensen, einum af þremur aðalsamninganefndarmönnum Noregs í þessum viðræðum frá upphafi og jafnframt þeim sem reyndist okkur erfiðastur í þessari glímu, og reikna ég ekki með að neinn trúnaður sé brotinn þó það sé sagt hér. Hann lýsti þeirri skoðun samkv. minni bókun fyrir hönd norsku samninganefndarinnar, — ekki sem sinni einkaskoðun, heldur fyrir hönd norsku samninganefndarinnar, — að lokaorðin í 8. gr., þar sem kveðið er á um að samningur þessi skuli vera bindandi í viðræðum við Efnahagsbandalagið, gildi ekki um 4. gr. Vonandi er þessi skilningur minn rangur. Vonandi verður það þannig, að í viðræðum við Efnahagsbandalagið reynist Norðmenn bundnir af þessum texta. En ég tel þó að reynsla okkar af samningaviðræðunum fyrsta daginn og þessi yfirlýsing, sem þarna var flutt, og samræður við norsku fulltrúana gefi fyllilega tilefni til þess, að íslensk stjórnvöld — þeir sem styðja þennan samning — fari strax að íhuga hvað skuli til bragðs taka ef kemur í ljós að þessi yfirlýsing Jens Evensens hefur ekki bara verið nokkur orð mælt af einum manni í samninganefnd, eins og talað var um áðan, heldur raunverulegur boðskapur um hvað Norðmenn ætluðu sér að gera í reynd. Ef þau reynast raunverulegur boðskapur erum við hér að gera loðnuveiðisamning til þriggja vikna, þá erum við að láta Norðmönnum í té viðurkenningu á 200 mílna fiskveiðilögsögu við Jan Mayen gegn loðnusamningum til þriggja vikna, sem þurfi að taka upp frá grunni þegar Efnahagsbandalagið er komið inn í myndina, sem Norðmenn töluðu um allan fyrsta dag viðræðnanna. Við skulum gera okkur grein fyrir því, að í þeim samningum hafa Norðmenn miklu meiri möguleika til að skipta við Efnahagsbandalagið á öðrum fisktegundum, eins og t. d. makríl, eða gera við þá olíusamninga gegn því að fá í staðinn viðbótarloðnuveiði við Austur-Grænland, þannig að hlutur Norðmanna af loðnuveiðinni verði ekki eingöngu þau 15%, sem kveðið er á um í 5. gr. og Norðmenn eru ófáanlegir til að takmarka við svæðið utan efnahagslögsögu Íslands, heldur geti þeir bætt við þessi 15% jafnvel öðrum 15%, kannske minna, kannske meira, við Austur-Grænland. Kannske stöndum við frammi fyrir því í sumar eða næsta sumar að Norðmenn séu farnir að taka 30% eða jafnvel meira úr loðnustofni sem við höfum alltaf talið íslenskan loðnustofn fyrst og fremst og byggt okkar efnahagslíf að verulegu leyti á og þeir veiddu ekki neitt af fyrir nokkrum árum og hafa aldrei veitt nema örfá prósent af. Það yrði verulegt efnahagslegt áfall fyrir Íslendinga ef 30% eða jafnvel meira af loðnustofninum væru komin í hendur Norðmanna eftir slíka baktjaldasamninga við Efnahagsbandalagið.

Það eru þess vegna í þessum samningi verulegar hættur. Og ég tel að það sé nauðsynlegt, þótt okkur greini á um þennan samningstexta, að við séum þó sammála því mati að ekki megi útiloka að slík verði reyndin, það megi ekki útiloka að Jens Evensen, sem Knut Frydenlynd gaf orðið sérstaklega á síðustu mínútum viðræðnanna, hafi ætlað sér einhvern sérstakan tilgang með yfirlýsingu sinni annan en þann að koma sjálfum sér á framfæri.

5. gr. hefur þar að auki þann galla, að eftir fjögur ár er ekki samkomulag um neitt hlutfall. Menn greinir á um hvernig túlka eigi hvað taki þá við. Þeir, sem bjartsýnastir eru fyrir Íslands hönd, telja að Norðmenn verði þá af siðferðilegum eða almennum lögfræðilegum — óljósum þó — ástæðum bundnir við þessi 15% ef samningar takast ekki. Þeir sem svartsýnastir eru, og ég er í þeirra hópi, telja að þessi texti feli ekki í sér neinar slíkar tryggingar og að Norðmenn muni telja sig hafa algerlega óbundnar hendur af þessu hlutfalli að fjórum árum liðnum. Mér er kunnugt um að túlkun sérfræðinga norsku stjórnvaldanna var á þann veg einnig.

Hvað 6. gr. snertir ber að hafa í huga að íslenska samninganefndin hefur ávallt og allt til síðasta dags gert kröfur um að ekki yrði eingöngu viðurkenndur réttur okkar á loðnuveiðunum, heldur yrði einnig viðurkenndur tvíþættur annar réttur sem við ættum til veiða á Jan Mayen svæðinu: í fyrsta lagi réttur til veiða á öðrum flökkustofnum, eins og kolmunna og síld, og ákveðið yrði um það hlutfall þar sem við héldum helmingaskiptareglunni til streitu, og í öðru lagi að viðurkenndur yrði réttur okkar til staðbundinna fiskstofna við Jan Mayen. Hvorugt af þessu næst fram í þessum texta, heldur er eingöngu með óljósu orðalagi talað um að „sanngjarnt tillit skuli taka til“ og við megum svo veiða sanngjarnan hluta í þessu sanngjarna tilliti á Jan Mayen svæðinu, — almennt orðalag sem góðviljug norsk ríkisstjórn gæti kannske túlkað okkur í hag, en ríkisstjórn, sem bundin væri af stjórnmálalegum hagsmunum norskra fiskimanna og íbúanna í þeim héruðum Noregs þar sem veiðarnar eru mikilvægastar, mundi auðvitað túlka á þann veg að Íslendingar fengju lítið sem ekkert af þessum stofni. Og þó að það sé út af fyrir sig rétt, sem hæstv. utanrrh. sagði áðan, að þegar úthlutað verður kvótum af stofnum eins og kolmunna verði það fyrst og fremst gert til þjóða eða landa, hygg ég þó að í þeirri úthlutun verði ekki eingöngu tekið tillit til þess, hvað þjóðirnar hafi veitt áður af slíkum stofnum, enda yrði þá hlutur okkar í kolmunnanum frekar lítill, heldur yrði einnig tekið tillit til þess, hver er yfirráðaréttur þjóðanna á þeim svæðum sem flökkustofninn fer um. Það er einmitt á þessum grundvelli sem við höfum talið mikilvægt að fá viðurkenningu fyrir því, að við ættum helmingsrétt í öðrum flökkustofnum sem fara um Jan Mayen svæðið, til þess að þegar til skiptingar kæmi á þessum stofnum í framtíðinni væri hlutur Íslands byggður bæði á þeim hluta, sem fer um núverandi íslenska efnahagslögsögu, og einnig þeim hluta, sem fer um Jan Mayen svæðið.

Í 7. og 8. gr. er skýrt tekið fram að önnur lönd eiga að koma inn í þessa samninga, gagnstætt því sem var upphaflega stefna okkar í þessum efnum. Ég hef áður vikið að þeim fyrirvara sem Jens Evensen hafði fyrir hönd norsku samninganefndarinnar varðandi lokaorðin í 8. gr.

Þegar komið er að 9. gr. um landgrunnsskiptinguna, ber að hafa fjögur atriði í huga:

Í fyrsta lagi er þarna fjallað um svæðið milli Íslands og Jan Mayen, þ. e. svæðið frá fjörðum Norðaustur-Íslands og ströndum þess til Jan Mayen, en ekki fjallað um svæðið frá efnahagslögsögu Íslands til Jan Mayen. Þess vegna liggur það að mínum dómi í orðanna hljóðan hér, að líkur séu á að norskir hagsmunir túlki þetta samkomulag þannig að það eigi að reikna inn í hlut Íslands við þessa skiptingu allt það sem nú þegar er innan fullrar 200 mílna efnahagslögsögu Íslendinga. Það er atriði sem mjög mikilvægt er að hafa í huga. Það á ekki að skipta svæðinu frá íslensku 200 mílunum til Jan Mayen, heldur frá ströndum Íslands.

Í öðru lagi er nauðsynlegt að nefndin skili samhljóða tillögum, norski fulltrúinn í henni, íslenski fulltrúinn og þriðji fulltrúinn, en þó hefur norski fulltrúinn í þessari umræðu möguleika á neitunarvaldi ef skiptingin er ekki samkvæmt hans vilja. Og mér þykir það líklegt, ef dæma má af reynslu og eðli slíks starfs, að þeir fulltrúar, sem verða fyrir hönd Íslands og Noregs, muni hafa náið samstarf við ríkisstjórnir beggja landanna. Mér er til efs að fulltrúi Noregs í slíkri nefnd mundi samþykkja tillögur að skiptingu sem norsk ríkisstjórn teldi sér ekki stjórnmálalega óhætt að samþykkja. Þá skulum við hafa það í huga, sem við fundum greinilega fyrir, samninganefndarmennirnir í Osló, að kosningar eru í nánd í Noregi. Þessi ferill skiptingarinnar mun eiga sér stað með kosningarnar yfirvofandi og þá almennu kröfu, a. m. k. einhvers hluta norsks kjósendahóps, þegar komin er full viðurkenning Íslendinga á 200 mílna fiskveiðilögsögunni við Jan Mayen, að Íslendingar viðurkenni þá einnig eða Norðmenn knýi Íslendinga einnig til að viðurkenna fulla 200 mílna efnahagslögsögu við Jan Mayen og við stöndum upp, eins og og hæstv. utanrrh. réttilega sagði að möguleiki væri á, án þess að nokkurt slíkt samkomulag væri á borðinu og við þyrftum að stefna í nýja deilu við Norðmenn með því að færa hafsbotnsréttindin út fyrir 200 mílur.

Í þriðja lagi kemur það fram, að tillögurnar eru ekki skuldbindandi. Það urðu mér mikil vonbrigði, að það bréf, sem talað var um að norski utanrrh, ritaði hinum íslenska, fól ekki í sér yfirlýsingu um að útfærsla 200 mílna efnahagslögsögu við Jan Mayen væri bundin því að samkomulag hefði tekist milli Íslendinga og Norðmanna, heldur er það eingöngu, eins og hæstv. utanrrh. gerði grein fyrir áðan, bundið við tímabilið til áramóta.

Til viðbótar öllu þessu verðum við svo að trúa því, að Norðmenn vilji taka sanngjarnt tillit enn á ný til skoðana okkar hvað snertir olíuboranir og aðrar aðgerðir á Jan Mayen svæðinu sem kunna að valda röskun á lífríki svæðisins, ef illa fer, og stofna fiskveiðum okkar í hættu. En ég held að það sé rétt að minnast þess, þegar menn vega og meta hvert hald er í slíku ákvæði, að norsk stjórnvöld höfðu ákveðið olíuboranir úti fyrir ströndum Norður-Noregs gegn mótmælum íbúa Noregs sjálfs, gegn hörðum mótmælum byggðasamtakanna og íbúasamtakanna í Norður-Noregi. Er líklegt að ríkisstj., sem hlítir ekki samhljóða mótmælum eigin byggðarlaga, komi til með að hlíta mótmælum okkar þegar ákvæðin eru jafnóljóst orðuð og hér er? Við skulum hafa þá reynslu í huga þegar við vegum og metum hvert hald kann að vera í þeirri grein textans sem fjallar um mengunarvarnir.

Ég held því að sé nokkuð ljóst, að í þessum samningi hafi ekki náðst fram neinar af þeim meginkröfum sem Íslendingar hafa sett á oddinn. Það er einnig ljóst, að í þessum samningi felast margir möguleikar á óhagstæðri túlkun Norðmanna á honum, eins og hæstv. utanrrh. vék að hvað eftir annað í máli sínu þar sem hann við umfjöllun sína um hverja greinina á eftir annarri reifaði ýmsa möguleika og benti á að ef það gerðist væri um samningsrof að ræða og þá væri ekki staðið við þau ákvæði sem hér væri að finna, enda held ég að það sé rétt mat — a. m. k. hef ég ekki heyrt neinn mann lýsa sig ánægðan með þennan samning. Þeir, sem hér hafa talað, og þeir, sem um hafa fjallað á opinberum vettvangi, hafa flestir á einn eða annan hátt viðurkennt að hér væri um slæman samning að ræða. Lokaröksemd stuðningsmanna samningsins felst hins vegar í því, að það sé betra að hafa þennan samning en ekkert. Ég vil að lokum gera það að umtalsefni.

Sú röksemd að segja, að samningurinn sé betri en ekkert, felur í sér þá innbyggðu forsendu að hann sé í eðli sínu slæmur, enda hefur það komið fram hvað eftir annað. En við skulum þá hugleiða hvað hefði tekið við ef meiri hl. íslensku samninganefndarinnar hefði ekki ákveðið að leggja þennan samning í núverandi formi fyrir Alþingi.

Mín tillaga var sú, og það er enn mín tillaga, að Íslendingar héldu áfram samningum við Norðmenn. Við skulum hugleiða að þessi texti verður til á tæpum einum og hálfum sólarhring frá því að Norðmenn fóru á annað borð að hreyfa sig. Það er mat, þar sem enginn getur sannað af eða á hver hafi rétti fyrir sér, hvort þessi eini og hálfi sólarhringur hafi dugað okkur eða enginn annar möguleiki hafi verið fyrir hendi. Ég benti á það úti í Osló og ég bendi á það hér, að enn er nægur tími til stefnu til að halda áfram þessum viðræðum og til að knýja á um að við fáum inn í þennan samning þau tryggingarákvæði sem ég held — a. m. k. vona — að við séum allir sammála um að þyrftu helst að vera í honum. Þess vegna var það tillaga mín í Osló að við færum heim, boðaður yrði svo nýr viðræðufundur eða haldið áfram að skiptast á tillögum.

Ég met stöðu Íslendinga sterka í þessu máli hvað snertir réttindi okkar. Báðir utanrrh. okkar — núv. og fyrrv. — hafa lýst hvað eftir annað og ítarlega rökstutt í viðræðum um málið að aðstaða okkar væri mjög sterk hvað snertir nauðsyn Norðmanna á að semja við okkur og koma í veg fyrir átök milli Íslendinga og Norðmanna, — aðstaða okkar væri sterk, vegna þess að ef við mótmælum útfærslu Norðmanna við Jan Mayen og virðum hana ekki verður lítið hald í þeirri útfærslu og í slíkri atburðarás mundum við ná fram sterkari samningi, traustari samningi, og Norðmönnum, ef þeir þyrftu að horfast í augu við það kalt og rólega í ljósi sögunnar, í ljósi röksemda Íslendinga, í ljósi þeirra grundvallarþátta sem einkenna samskipti þjóðanna, væri ekki stætt á því að standa upp frá samningaborðinu og stefna kannske í óleysanleg átök milli þjóðanna. Ég held þess vegna að það sé vanmat á aðstöðu okkar að halda að við hefðum staðið veikir eftir ef við hefðum sagt við Norðmenn og ef við segjum enn við Norðmenn, því að enn er ekki öll nótt úti í þessu máli: Við viljum halda áfram og knýja á um að inn í þennan texta, sem að vísu er í áttina, en dugir þó ekki, þurfa að koma traustari ákvæði. — Jafnvel þótt þeir færðu út í millitíðinni held ég að það skipti litlu máli, vegna þess að við mundum tilkynna þeim að við munum ekki virða það, Danir munu ekki virða það og aðrar þjóðir á þessu svæði munu ekki virða það. Það mun bókstaflega enginn virða þá útfærslu Norðmanna, enda vil ég minna á að Knut Frydenlund, utanrrh. Norðmanna, hefur sagt hvað eftir annað að forsenda þess, að Norðmenn gætu fært út við Jan Mayen, væri að Íslendingar mótmæltu því ekki og helst viðurkenndu það. Ef við þeim blöstu mótmæli Íslendinga við slíkri útfærslu væri staða Norðmanna veik. Það var okkar stóra tromp í þessum samningi. Það var það tromp sem við gátum að mínum dómi haldið á lengur og traustar til að fá í okkar hendur þær tryggingar sem gæfu okkur rétt til varanlegra loðnusamninga á þessu svæði, ákveðinn og skýran rétt til veiða á öðrum tegundum á þessu svæði, afdráttarlausari viðurkenningu fyrir skiptingu landgrunnsins og afdráttarlausara tryggingarákvæði um að olíuboranir og aðrar aðgerðir í þessu umhverfi, sem gætu stofnað lífríki þess í hættu, væru háðar samþykki okkar.

Ég tel koma til greina, og mun reifa það í utanrmn., að fluttar verði hér á Alþingi tillögur um að samningum við Norðmenn verði haldið áfram og þar verði ákveðnar meginkröfur Íslendinga lagðar til grundvallar og við óskum eftir nýjum viðræðufundi og áframhaldandi viðræðum við Norðmenn eða óskum eftir ákveðnum tilteknum breytingum á þessu fyrirkomulagi. Í þriðja lagi tel ég rétt að við hugleiðum það öll, sem hér erum, hver svo sem afstaða okkar er til þessa samnings, hvað við ætlum að gera ef í ljós kemur í fyrsta lagi, að í samningum við Efnahagsbandalagið reynast Norðmenn haga sér þannig að þeir séu algjörlega óbundnir af þessum texta, og í öðru lagi, að landgrunnsskiptingin verður okkur bersýnilega svo í óhag að við verðum til að efna til nýrra átaka við Norðmenn. Því miður er það þannig að mínum dómi, að þessi samningur, þótt samþykktur yrði hér, felur ekki í sér neina tryggingu fyrir því að átök þjóðanna um þetta mál séu þar með úr sögunni. Ég held þvert á móti að hann sé svo opinn að það séu miklu meiri líkur á því, að átök þjóðanna um þetta mál haldi áfram, en staða okkar í þeim átökum verði veikari vegna þess að við séum búin að spila út okkar stærsta trompi, þ. e. viðurkenningunni á 200 mílna efnahagslögsögu Norðmanna við Jan Mayen. Ef það er réttur spádómur, það er að vísu spádómur, en ef hann reynist réttur, að efnisgrundvöllur málsins og samningsins sé sá, að deilur muni halda áfram um fiskveiðarnar og deilur muni halda áfram um landgrunnið, þá er það mitt mat að þessi samningstexti, sem í inngangsorðum felur í sér viðurkenningu á 200 mílna fiskveiðilögsögu Norðmanna við Jan Mayen og væntanlegri efnahagslögsögu þar einnig, veiki málstað Íslendinga í því áframhaldi.

Ég vil að lokum, herra forseti, ítreka það sem ég sagði í inngangsorðum mínum, að þeir, sem hafa flutt djarfar tillögur, réttar tillögur í þessu máli á undanförnum misserum, þeir sem hafa sett fram ítarlegar og stórhuga kröfur fyrir Íslands hönd, en ætla nú að hlaupa frá þeim öllum, ættu að hugleiða að það getur verið hættuspil fyrir litla þjóð að gera svo stórar kröfur á alþjóðavettvangi sem hún hvorki hefur svo þegar á reynir rétt eða aðstöðu til að standa við, en lyppast niður og skrifar undir texta sem felur í sér afneitun á öllu því sem hún áður sagði: Ef þannig verður fram haldið með utanríkismál íslenskrar þjóðar í framtíðinni missum við smátt og smátt þá virðingu sem við höfum þó áunnið okkur í samfélagi þjóðanna.