17.05.1980
Neðri deild: 79. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2801 í B-deild Alþingistíðinda. (2781)

184. mál, Iðnrekstrarsjóður

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Á þskj. 539 hef ég leyft mér að flytja brtt. við það frv. sem hér er til umr., frv. til l. um Iðnrekstrarsjóð, sem er 184. mál. Ed. Þessi brtt. er við 2. mgr. 6. gr., sem er jafnframt lokamgr. 6. gr., en hún orðast svo samkv. frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Í því sambandi skal höfð hliðsjón af svæðisbundnum áætlunum er hlotið hafa staðfestingu stjórnvalda.“

Það er sem semsagt í 6. gr. að það eigi að hafa hliðsjón af svæðisbundnum áætlunum við starfsemi sjóðsins. Nú er mér kunnugt um að það þykir ekki ákveðið orðalag „að hafa hliðsjón af einhverju“. Það þýðir nánast ekki annað en að menn, sem ákvarðanir taka, viti af ákveðnum upplýsingum. Ég freistast stundum til að álykta sem svo, að það eigi að skilja þessa mgr. með þeim hætti. En vegna þess að við höfum í þjóðfélaginu aðra stofnun en Iðnrekstrarsjóð, Byggðasjóð og heila Framkvæmdastofnun, sem fjallar sérstaklega um svæðisbundnar áætlanir og gerir tillögur þar að lútandi, finnst mér óeðlilegt að þetta ákvæði sé sérstaklega sett í almenn lög um almenna sjóði á borð við þennan og gæti orðið til þess að sett væri slíkt ákvæði í öll lög er lúta að lánasjóðum. Væri þá í reynd verið að segja í slíkum lögum að það ætti að láta fjármuni renna fremur til ákveðinna svæða, þar sem unnið hefur verið að áætlunum, frekar en í önnur landssvæði. Ég tel þetta ákvæði vera óþarft. Ég skil ekki að það þjóni nokkrum tilgangi og tel aðeins til bóta að þetta ákvæði hverfi úr lögunum. Um það geri ég till. á þskj. 539, eins og ég sagði áður.

Ég hefði vitaskuld freistast til þess að flytja aðra brtt. við 3. gr. þessa frv., sem fjallar um stjórn sjóðsins, en þar segir að ýmis samtök eigi að skipa menn í stjórn, en svo er nefnt eitt fyrirtæki, sem er Samband ísl. samvinnufélaga, og ákveðið að það fyrirtæki eigi að skipa mann í sjóðsstjórnina. Þetta finnst mér óheppilegt, þar sem þessi sjóðsstjórn kemur til með að fjalla um ýmsar nýjungar í iðnrekstri hér á landi, um ýmsa nýsköpun sem auðvitað verður að ætlast til að farið sé með sem trúnaðarmál af hálfu stjórnar. Það er því í fyllsta máta óeðlilegt, að mínu áliti, að eitt ákveðið fyrirtæki hafi mann í sjóðsstjórn eins og þessari. Því miður tel ég tilgangslaust að flytja slíka till., enda féll hún í hv. Ed. þar sem kom fram till. um að í stað Sambands ísl. samvinnufélaga kæmi Vinnumálasamband samvinnufélaganna. Ég sé að vísu ekki að Vinnumálasambandið eigi þarna erindi, en það hefði þó verið ólíkt skárra en að eitt fyrirtæki eigi þarna aðild að.

Nú er mér kunnugt um að þegar Sambandi ísl. samvinnufélaga hentar kallar Sambandið sig samtök fólksins í landinu, en svo þegar því hentar við önnur tilefni er það einstakt fyrirtæki. Það má eiginlega skipta þessum viðhorfum í tvennt eftir því, hvort Sambandið á að fá eitthvað í sinn hlut eða hvort það á eitthvað að láta af hendi rakna er venjan sú, að þeir bera fyrir sig að þeir séu aðeins eitt fyrirtæki og að það sé óeðlilegt að þeir borgi meira en aðrir. En eigi það hins vegar að fá eitthvað í sinn hlut er Sambandið samtök fólksins í landinu og á þá að njóta þess að fá mun meira í sinn hlut. — Þetta er almennt sagt um þetta fyrirtæki, þetta samband, þessi samtök eða hvað menn vilja nefna það. Ég tek það samt fram að ég mun ekki flytja þessa till., en vildi samt kynna þessi viðhorf hér í hv. deild.

Að lokum langar mig til að segja örfá orð um fram komna till., sem hv. 9. þm. Reykv. lýsti hér áðan og ég hafði reyndar ekki séð fyrr, en fjallar um breytingu annars vegar á 5. gr. frv. og hins vegar á 7. gr. þess.

Brtt. við 7. gr. gerir ráð fyrir að lán Iðnrekstrarsjóðs verði með fullri verðtryggingu. Það er stefna sem Alþ. hefur þegar tekið ákvörðun um. Ég ætla ekki að gera þessa till. að umræðuefni að sinni, en ef svo kynni að fara að einhver hæstv. ráðh. stæði hér upp og gerði einhverja grein fyrir þessu máli hér vil ég gjarnan spyrja hann í leiðinni, því að hæstv. ráðh. eru fágætir í ræðustól um þessar mundir, um almenn málefni þjóðarinnar, hvernig standi á því að frá þeirri áætlun hefur verið vikið sem gerði ráð fyrir að full verðtrygging næðist fyrir árslok. Hvernig stendur á því að Seðlabankinn hefur ekki fengið að reikna út lánskjör með þeim hætti sem gert var ráð fyrir, ef það er rétt, sem fram hefur komið í blöðum að undanförnu, að vænta megi stefnubreytingar? Eða þurfa sparifjáreigendur enn um sinn að hlíta því, að ríkisstj. Íslands geti eftir geðþóttaákvörðunum unnið gegn lögum, sem meginhluti sömu ríkisstj. hefur sett, og skapað þannig ærinn vanda fyrir fjölmarga borgara þessa þjóðfélags, sem hafa lagt það á sig í góðri trú að leggja fé í banka og fest þannig fjármagn sitt til þess annars vegar, að atvinnuvegir þjóðarinnar geti gengið, og til þess hins vegar, að ríkisstj., jafnvel misvitur ríkisstj., geti haft úr einhverju að moða? Ef einhver hæstv. ráðh. kemur hér og ræðir um iðnað vegna þeirra umr., sem hér hafa orðið um Iðnrekstrarsjóð, og vegna þeirrar till., sem lögð er fram af tveimur hv. Alþfl.-þm., vil ég gjarnan, þar sem senn líður að þinglausnum, fá skýrt og skorinort frá viðkomandi hæstv. ráðh. hvenær sú stefnubreyting kemur til með að eiga sér stað hjá hæstv. ríkisstj., að hún fari að fara að þeim lögum sem hún sjálf hefur tekið þátt í að setja hér í landinu.