19.05.1980
Sameinað þing: 61. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2841 í B-deild Alþingistíðinda. (2816)

Umræður utan dagskrár

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. þá grein sem hann gerði fyrir niðurstöðum ríkisreiknings og að það hefur tekist nú að halda þeirri reglu, sem á var komin, að ríkisreikningurinn yrði lagður fram áður en þingi lyki.

Eins og fram kom í því, sem hæstv. fjmrh. sagði, er útkoman neikvæð um 1 milljarð 110 millj. kr. eða 1110 millj. kr. 1979, en var hins vegar gert ráð fyrir jákvæðri útkomu upp á 6 milljarða 664 þús. millj. kr. Er hér um að ræða verri útkomu upp á 7.7 milljarða. Þessu til viðbótar upplýsti ráðh., sem kemur heim og saman við það sem fram kemur í skýrslu Seðlabankans, að skuld við Seðlabankann hækkaði á árinu um 2.5–2.6 milljarða kr. Það er verri staða um áramótin sem nemur yfir 10 milljörðum kr. heldur en fjárlög ársins 1979 gerðu ráð fyrir. Hér er um að ræða nákvæmlega þá útkomu sem við stjórnarandstæðingar gerðum ráð fyrir með tilliti til þeirra fjárlaga sem samþ. voru og að vísu var talið af þáv. ríkisstj. og ríkisstjórnarmeirihluta að um hrakspár okkar væri að ræða. En hér er í ljós komin sú staðreynd sem við töldum blasa við, ef þannig væri frá fjárl. gengið.

Þá er enn fremur í þessu staðfest það sem okkur hæstv. fyrrv. fjmrh. Sighvat Björgvinsson greindi á rétt um áramótin. Það voru bókfærsluatriði. Hann svaraði mér þá og sagði að væri til skoðunar með hvaða hætti ætti að færa upp í sambandi við áramótin verðbótaþátt lána. En ég hélt því fram, að hér væri ekki um að ræða neitt sem menn gætu komið sér saman um eftir á, hér væri um að ræða eina reglu og að verðbótaþáttur þessara lána skyldi færður upp um áramót nákvæmlega eins og gengisbreytingar á gengistryggðum lánum. Og það hefur auðvitað orðið staðreyndin, svo sem bæði kemur fram í skýrslu Seðlabankans og í ríkisreikningi fyrir árið 1979. Ég vil enn fremur þakka ráðh. fyrir upplýsingar um stöðu ríkissjóðs fyrstu 4 mánuði ársins. Eins og hann réttilega gat um er hér um að ræða óvenjulegt ástand og ég held að útkoman sé að því leyti til kannske ekki nákvæmlega eins og hún annars hefði orðið. En þess er líka að geta, að fyrri hluti árs er ævinlega erfiður hjá ríkissjóði og ég held að hjá því verði aldrei komist. Ef hins vegar verður hægt að ná því marki sem hann vék að varðandi stöðu ríkissjóðs við Seðlabankann í nóv., þá væri vel. En ég held því miður að eins og um hnútana er búið og hefur verið búið náist það ekki, en við verðum að sjálfsögðu að vona það besta. Staðreyndin kemur svo til með að sýna hver útkoman verður.

Ég endurtek að það er gott að sú regla hefur verið haldin, að ríkisreikningurinn hefur verið lagður á borð alþm. áður en þingi lýkur.