08.01.1980
Sameinað þing: 7. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í B-deild Alþingistíðinda. (284)

37. mál, bifreiðakostnaður öryrkja

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja fsp. til hæstv. heilbr.- og trmrh. um ráðstafanir vegna bifreiðakostnaðar öryrkja. Fsp. er svo hljóðandi:

„Hvaða ráðstafanir hefur ríkisstj. undirbúið vegna þeirra öryrkja, sem þurfa nauðsynlega á bifreiðum að halda, en hafa nú orðið fyrir sívaxandi rekstrarkostnaði bifreiðanna með hækkandi bensínverði?“

Á undanförnum misserum hefur gengið hér yfir mjög veruleg hækkun á innfluttu eldsneyti af öllu tagi, ákaflega tilfinnanleg og alvarleg fyrir okkar þjóðarbú, sem hefur komið illa við víða og þó alveg sérstaklega, vil ég segja, við þá sem af mjög brýnum ástæðum, félagslegum og atvinnulegum, þurfa á bifreiðum að halda, eins og um er að ræða í tilviki öryrkja.

Í síðustu ríkisstj. var alloft fjallað um þetta mál af vinstri stjórninni, sem svo var nefnd. M.a. var það rætt á fundum hennar í janúar og febrúar á árinu 1979, þegar fyrstu hækkanirnar vorn að koma fram á bensíni. Ég beindi þá þeirri ósk til þáv. og núv. hæstv. trmrh., að á þessum málum yrði tekið. Hann tók því ákaflega vel, svo og allir samstarfsráðherrar mínir þá, og í von um að áfram hafi verið unnið að málinu í heilbr.- og trmrn., er fsp. mín fram borin nú.