21.05.1980
Efri deild: 99. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2982 í B-deild Alþingistíðinda. (2938)

94. mál, sjómannalög

Guðmundur Karlsson:

Herra forseti. Ég skrifaði undir nál. þetta með fyrirvara og vil gera í fáum orðum grein fyrir þessum fyrirvara mínum.

Þetta lagafrv., sem hæstv. félmrh. Magnús H. Magnússon lagði fram í sinni ráðherratíð, er hluti af loforðum, sem ríkisstj. gaf sjómönnum haustið 1978, og er því einn af félagsmálapökkunum. Sjómenn hafa því greitt fyrir þetta frv. með því að gefa nokkuð eftir í kröfum sínum um hækkað fiskverð. Þetta frv. er því tilraun til þess að efna aðeins lítinn hluta af þeim loforðum sem þá voru sjómönnum gefin.

Það var kynnt þegar frv. var lagt fram, að þetta væri gert í samráði við hagsmunaaðilana, bæði sjómenn og útvegsmenn, og reyndar að útvegsmenn gætu keypt sér jafnvel tryggingar gegn þeim álögum sem þarna voru á þá lagðar. En það kom fljótt í ljós, að þetta var alls ekki í samræmi við það sem sjómönnum hafði verið lofað. Þarna voru ýmis þau ákvæði sem sjómannasamtökin gátu ekki með nokkru móti sætt sig við.

Eins tel ég að þarna sé um að ræða að blandað sé saman kjaramálum og réttindamálum og því á vissan hátt dæmi um þingmál sem hér á ekki að afgreiða.

Síðan gerist það, að þetta er tekið til meðferðar í Nd. og þar verða miklar breytingar á frv. í meðferð samgn. og þannig að það verður í flestum atriðum sjómannasamtökunum þekkilegra, en þegar það er orðið verða útvegsmenn heldur óhressir.

Þetta var afgreitt út út Nd. með yfirlýsingu frá hæstv. sjútvrh. þar sem hann segir að hann muni leggja áherslu á það við meðferð málsins í Ed. að samgn. í deildinni taki athugasemdir til meðferðar og geri tilraun til að ná samkomulagi með útvegsmönnum og sjómönnum.

Mér finnst í sjálfu sér að þarna sé verið að fjalla um svo viðkvæmt mál, þar sem eru kjaramál, að til þess þurfi vel að vanda og því miður hafi ekki gefist sá tími sem til þurfti.

Mig langar aðeins að minnast á fáein efnisatriði sem breytast í meðferð Nd.

Þar er t. d. í 2. mgr. fellt út ákvæði sem segir: „Laun er þó ekki skylt að greiða í hléum milli veiðitímabila, sem eru hefðbundin og þekkt fyrir fram.“ Ég held að það sé óhætt að segja það, að á hinu gamla hefðbundna vertíðarsvæði hafi ríkt ákaflega skemmtilegur félagsandi. Ég býst við að maður finni hvergi nokkurs staðar jafnskemmtilega og heilbrigða félagsheild og eina skipshöfn, samstillta skipshöfn, og ég held að flestir sjómenn líti svo á að þeir séu miklu fremur ráðnir hjá skipstjóra heldur en útgerðarmanni, hafi alltaf litið svo á, — áhöfnin líti svo á að þeir séu ráðnir hjá skipstjóranum eða formanninum, svo lengi sem annar aðilinn gerir ekki hinum grein fyrir að þessum samningi sé slitið. Og sjómennirnir hafa ekki til þessa gert kröfur til þess að fá greitt fyrir tímabil sem liðið hefur milli veiðitímabilanna.

Ég er satt að segja ekki viss um að við séum að gera rétt með því að rjúfa þessa gömlu hefð. Útgerðarmenn segja okkur að þessi breyting þýði það, að nú verði þeir, útgerðarmennirnir, að gera sérstakan ráðningarsamning við hvern skipverja fyrir hvert úthald eða hverja vertíð og þar með sé ráðningunni slitið eftir úthaldið.

Það er önnur hefð sem alltaf hefur ríkt á vertíðarsvæðinu, og hún er sú, að ef maður á kost á hærri stöðu, ef háseti á kost á stýrimannsstöðu, ef stýrimaður á kost á skipstjórastöðu, þá getur hann farið úr skiprúminu samdægurs, bara látið skipstjóra vita um þá breytingu sem orðin er, og hann fer úr skiprúminu með — ég held í öllum tilvikum — velfarnaðaróskum skipstjóra síns og útvegsmanns um velgengni í nýju starfi.

Ég er hræddur um að þessi breyting þýði það, að útvegsmenn muni jafnvel gera stífari og harðari kröfur til sjómanna um að samningur sé haldinn en til þessa hefur verið, og ég er ekki viss um að við séum að gera rétt í þessu. Við hefðum átt að leggja það betur niður fyrir okkur, hvað þessi breyting þýddi.

Þá hefur verið látið í veðri vaka að útvegsmenn gætu jafnvel í þessum tilvikum, og einnig þegar veiðar eru stöðvaðar vegna fiskverndarsjónarmiða, leitað til Aflatryggingasjóðs eða jafnvel keypt sér tryggingar fyrir slíkum stöðvunum. En svo mun ekki vera, enda þyrfti Aflatryggingasjóður að hafa feikimiklar tekjur ef hann ætti að geta greitt skipshöfnum laun í öllum þeim hléum sem hljóta að verða.

Í 3. gr. er því breytt, að þeir, sem á dekkinu vinna, fá sama rétt til greiðslu í veikinda- og slysatilfellum og þeir sem eru yfirmenn. Ég hef satt að segja ekkert við þetta að athuga. Mér finnst þetta heilbrigt og eðlilegt. Þessir menn eru í miklu meiri slysahættu en þeir, sem stjórna verkum, og því ekki nema eðlilegt að þessu sé breytt.

Þá breyta menn því í 4. mgr., að staðgengisreglan kemur fyrr inn en ella og réttur manna verður meiri í slysa- og veikindatilfellum. Það er sagt að þetta muni ekki skapa fordæmi fyrir landverkafólk, og satt að segja gef ég ekkert fyrir það, enda er það ekki okkar mál, finnst mér, að fjalla um það sérstaklega í þessu tilviki.

Þá kem ég að 6. mgr., og satt að segja verður mér á að spyrja þegar ég les þessa grein, hvort við séum virkilega staddir á árinu 1980. Þessi grein fjallar um það, að menn eigi ekki rétt á launum ef þeir af stórfelldu gáleysi eða jafnvel af ásetningi valdi sjálfum sér skaða og geti því ekki mætt til skips. Ég býst við því, að þetta sé táknrænt dæmi um það, þegar við Íslendingar þýðum greinar beint úr erlendum lögum og færum þær yfir til okkar. Ég get ekki séð að þessi grein eigi með nokkrum hætti við íslenska sjómenn eða hafi nokkru sinni átt. Ég býst við að þetta eigi miklu fremur við þar sem menn eru í langsiglingum. Ég býst við að frændur okkar Norðmenn þurfi kannske á einhverri grein sem þessari að halda, því að mér skilst að þeir sigli með ærið misjafnan mannskap á þilfari og hafi misjafnt vinnufólk. En ég vil ætla það, að slíkrar greinar sé ekki þörf í íslenskum sjómannalögum.

Þá er þarna fellt niður ákvæði um vinnuskyldu þegar sjómenn komast ekki til skips í veikinda- eða slysatilviki og eru orðnir vinnufærir. Ég er ekki heldur sannfærður um ágæti þess að fella þetta niður, en tel að þar hefði þurft að fjalla nánar um.

Þá komum við að síðustu greininni sem felld er þarna niður og breytt. Hún fjallar um tilkynningarskyldu í veikinda- og slysatilfellum. Þarna er felld niður tilkynningarskyldan og skylda manna til þess að skila veikindavottorði strax og veikindanna verður vart. Ég tel að það sé rangt og óheilbrigt að fella þetta niður. Ég tel að þarna sé um öryggisatriði að ræða í sjálfu sér fyrir skipshafnir lítilla skipa sem standa í dagróðrum. Það er mikils um vert fyrir skipstjóra að vita það, hvort hann getur farið á sjó með fulla skipshöfn eða hvort kannske einhver hluti áhafnarinnar kemur alls ekki til skips. Nú hafa þessir menn engar skyldur til þess einu sinni að tilkynna skipstjóra sínum um það, að þeir muni ekki koma í róðurinn, og hætt er við því, að vegna þessa muni jafnvel íslenskir skipstjórar fara í sjóróðra illa menntir þegar fram í sækir. Það getur vel verið að menn vilji gera lítið úr þessu, en ég var áðan að starfa með einum ágætum kunningja mínum, sem er skipstjóri í Vestmannaeyjum, og hann var einmitt að segja mér dæmi af því, hvernig þetta gæti verið misnotað. Hann var á báti sínum á síld s. l. haust og var búinn að segja mannskapnum hvenær ætti að koma til skips. Stuttu áður en hann fór að heiman hringdi einn af skipsmönnum til hans og tilkynnti honum, að hann væri orðinn veikur og gæti ekki komið í veiðiferðina. Hann bað hann þá að verða sér úti um veikindavottorð og koma því til sín og þá hefði hann ekkert við þetta að athuga, en piltur sagðist ekki geta skilað þessu veikindavottorði fyrr en að einhverjum dögum liðnum. Skipstjóri svarar því þá, að þar sem hann ætti ekki eftir nema 1/3 af veiðikvóta sínum, sem ekki voru nema 200 tonn, þá ætlaði hann bara að bíða eftir honum. Þá sagði piltur: „Jæja, það er best að ég sé ekkert að þessu. Ég kem þá.“ Hann var ekki veikari en svo. Þetta er gott dæmi um hvernig slík ákvæði eru notuð.

Með flutningi þessa máls og afgreiðslu finnst mér að Alþ. taki að sér að verða afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdavaldið fremur en nokkuð annað, og við eigum ekki að láta reka svona á eftir okkur eins og við höfum oftlega látið gera. Við eigum að gefa okkur tíma til að skoða málin miklu betur en við höfum gert og ekki endilega hlaupa eftir yfirlýsingum ráðh., hvort sem þær eru gefnar við samningagerð eða einhvers staðar annars staðar.

Ég vil sem sagt láta í ljós að ég efast um að sumar þessara breytinga, sem nú hafa verið gerðar í meðförum Alþingis, séu sjómönnum í hag. Við erum auðvitað með þessu að leggja aukinn kostnað á útgerðina. Við erum á sama tíma að fjalla um annað frv., um breytingu á lögskráningarlögunum og efni breytingarinnar er það, að útvegsmönnum er ekki gert að skyldu að greiða tryggingargjöld til þess að fá að lögskrá á skip sín. Og mér er spurn: Hvers vegna erum við að þessu? Jú, það er vegna þess að smáútgerðarmenn eru ekki betur haldnir sumir hverjir en það, að þeir hafa hreint ekki efni á í byrjun úthalds að greiða þessi tryggingargjöld. En á sama tíma erum við að hengja á þessa menn, sem eru að brasa við smáútgerðina allt í kringum landið, pinkla, sem þeir fá jafnvel ekki undir risið, og látum okkur ekkert um það muna.

Mér finnst þetta frv. vera blanda eða grautur af kjaraatriðum og réttindaatriðum og þannig úr garði gert að Alþ. eigi ekki að fjalla um sumt af því. Og eins hitt, að mér finnst þetta frv. vera dæmi um þá meðferð sem við eigum ekki að viðhafa hér í Alþingi. Þetta eru vandmeðfarin mál og við eigum að fjalla um þau af miklu meiri kostgæfni og með vandaðri vinnubrögðum en hér hafa verið viðhöfð.