21.05.1980
Neðri deild: 83. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3001 í B-deild Alþingistíðinda. (2948)

180. mál, lánsfjárlög 1980

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Það er með hálfum huga að ég kem í ræðustólinn til að ræða lánsfjárlögin og lánsfjáráætlunina. Ég les það í dagblöðum nú að hér sé stjórnarandstaðan farin að halda uppi málþófi, og mér sýnist að þeir ræðumenn, sem leyfa sér að hafa skoðanir á þeim málum sem hér eru á dagskrá, verði skráðir á lista sem málþófsmenn. Þótt ungur sé er ég kominn í röð þeirra þm., sem eiga nokkuð langa setu á Alþ., og ég held að það hafi ekki komið fyrir mig að fara í neinar slíkar málþófsumr. Ég hef hins vegar leyft mér, hvort sem ég hef verið stuðningsmaður ríkisstj., átt sæti í ríkisstj. eða verið í stjórnarandstöðu, að koma hér upp í ræðustólinn til að tala fyrir eða gagnrýna þau mál sem á dagskrá eru. Ég ætla að leyfa mér það áfram, um leið og ég mótmæli því, að þær umr., sem hér fara fram, séu einhverjar málþófsumr.

Formenn stjórnmálaflokkanna, þ. e. þingflokkanna, hafa látið hafa eftir sér í blaðaviðtölum að það fari eftir fótastyrk og blöðrustærð alþm. hvernig mál muni hér ganga fram. (KP: Það má ekki hafa fleirtölu á því. Það er formaður.) Það er formaður eins þingflokksins, sem lét hafa það eftir sér, það er rétt. (Gripið fram í.) Ég þekki það ekkert, en þær upplýsingar, sem hér koma, fara sjálfsagt rétta boðleið. En ég sé ekki ástæðu til þess og ég beinlínis mótmæli því að formenn þingflokka leyfi sér að viðhafa orð eins og hér um ræðir. Að vísu hafði þau ekki við nema einn formaður. Ég vil benda á það máli mínu til stuðnings, að ekki eitt einasta dagskrármál, sem nú er til umr., hefur verið rætt það lengi á Alþ. að forseti þessarar d. hafi heimild til að skera niður umr. Ég vek athygli á þessu. Það er skýrt tekið fram í þingsköpum hvenær forseti megi skera niður umr., en þær hafa engar staðið það lengi um þau mál sem hér eru til meðferðar.

Þá langar mig til að benda mönnum á hverjir það eru sem í raun og veru hafa eytt ræðutíma Alþ. að undanförnu. Hafa það verið stjórnarandstæðingar? Ég fullyrði að stjórnarsinnar hafa talað hér lengur en stjórnarandstæðingar. (Gripið fram í: Getur þú sannað það, hv. þm.?) Það væri sjálfsagt möguleiki á því að láta spólurnar snúast hér uppi og taka tímann. (Gripið fram í.) En ég segi það eins og er, að þeir, sem fylgst hafa með umr. hér, eru samdóma í þessu máli, og ég held þess vegna að það sé ekki stjórnarsinna að tala á þann veg, sem þeir gera nú, og reyna að halda því fram að hér séu málþófsumr.

Mig langar líka til að vekja athygli á því, hverjir það eru sem hafa komið málum hér áfram. Það hafa ekki síður verið stjórnarandstæðingar en stjórnarsinnar, og ég held að það gerist mjög oft. Það verður að sjálfsögðu þannig að vera, að stjórnarandstaðan vinnur sín verk. Málin ganga áfram hvort heldur mönnum líkar betur eða verr það efni sem verið er að ræða um. — Og þegar hæstv. félmrh. nú gengur úr salnum situr ekki einn einasti ráðh. úr ríkisstj. hér inni í þingsalnum þegar verið er að ræða lánsfjáráætlun, efnahagsstefnu og fjármálastefnu ríkisins.

Ég vek en athygli á því, að þessa seinustu daga hefur ekkert frv., sem flutt hefur verið af þm., verið hér til umr. Það hefur oft viljað brenna við að Alþ. hafi verið kölluð afgreiðslustofnun ríkisstj. Að sjálfsögðu fer tími Alþ. kannske að verulegum hluta í að ræða frv. sem ríkisstj. hefur lagt fyrir Alþ., þannig að það fari minna fyrir ræðutíma varðandi frv. sem þm. flytja. En ég man ekki eftir því, að svo vikum skipti sé ekki hægt að fá rædd frv. sem fulltrúar kosnir á löggjafarsamkomu þjóðarinnar eru hér að flytja.

Síðan eru hér haldnar eldhúsdagsumr.; þ. e. í fyrrakvöld. Þær eru haldnar eftir að búið er að halda fund af hálfu forsrh. með formönnum þingflokka og gera sér grein fyrir hvenær þingslit geti orðið. Þá koma fulltrúar ríkisstj., ráðh., og varpa fram hugmundum um lausn á vandamálum, sem þeir telja að fram undan séu, og með hvaða hætti þau beri að leysa. En umfram allt: Alþ. skal sent heim, stjfrv. skulu hér afgreidd á færibandi, ekkert frv., sem þm. flytja, fæst rætt, og alþm. er gerð grein fyrir því, að þegar þeir séu komnir heim verði sett brbl. til að leysa allan þann vanda sem að steðjar.

Er ekki ástæða til þess að skiptast á skoðunum í þeim málum sem við erum hér að ræða? Ég segi jú. Ég vil vekja athygli á ræðu hæstv. fjmrh. áðan, Ragnars Arnalds, sem mér fannst með eðlilegum hætti og réttum hætti koma inn í umr. eftir að hv. 1. landsk. þm., Pétur Sigurðsson, hafði rætt einn efnisþátt þessa frv., gert grein fyrir sjónarmiðum sinum um þær hugmyndir sem fram voru bornar í frv. Ráðh. taldi eðlilegt og sjálfsagt að koma með sínar skýringar og leiðréttingar, en hann bætti líka við, að hefði hann betri tíma og gæti hann aflað sér upplýsinga væri hann reiðubúinn að koma hér með þær til þess að þm. fengju vitneskju um það sem um var spurt. Hann réttilega fullyrti ekki meira en hann teysti sér til. En það var ástæða til þess af hans hálfu að hafa fyrirvara á því, sem hann sagði, og hann kæmi síðar fram með viðbótarupplýsingar. Þetta vildi ég að fram kæmi í sambandi við þessar umr. og í sambandi við allt tal stjórnarliða um málþóf.

Ég efast ekkert um að fullyrðingum um málþóf verður haldið áfram hvað svo sem tautar og raular. En þær skýringar, sem ég hef gefið hér, eru með þeim hætti að það, sem stjórnarliðar fullyrða í þessum efnum, er markleysa og að mínum dómi ekki til þess að auka á virðingu þeirrar stofnunar sem við erum fulltrúar í. Þegar haldinn er fundur af hálfu forsrh. með formönnum þingflokka og það er ákveðin útvarpsumr. og jafnframt er talað um hvenær þingslit eigi að vera virðast menn ekki gera sér grein fyrir því, hvaða tíma það taki að ræða þau mál sem ríkisstj. hyggst fá afgreidd hér áður en þingi lýkur. Við erum komnir fram yfir þann dag sem talað var um að slíta þingi, en eitt af þeim málum sem átti að ljúka er ekki enn komið til 2. umr. í þessari hv. d., og það mál, sem hér er á dagskrá, er enn við 2. umr. og á eftir að ræða í hv. Ed. áður en það getur orðið að lögum. Sá óskalisti, sem upp var settur, og þau tímatakmörk, sem menn höfðu sett sér, voru því að mínum dómi hvort tveggja þannig, að um 6skhyggju er að ræða, en ekki raunveruleika svo sem þegar hefur sýnt sig.

Ég vil nú beina því til forseta, hvort það sé hugsunin að halda áfram þessari umr. Hér situr enginn fulltrúi þess aðila sem lagt hefur það frv. fram sem við erum að fjalla um. (Forseti: Það er áformað að fresta fundi kl. 16.00.) Það er áformað að fresta fundi kl. 16, segir forseti, en ég hefði betur kunnað við það ef hæstv. fjmrh. hefði setið hér og væri slíkt að mínum dómi aðfinnslulaust í sambandi við þetta mál. Ég hefði gjarnan viljað hinkra þar til hægt hefði verið að fá hann til að koma hingað og hlusta aðeins á þau atriði sem ég vildi víkja að í ræðu minni. (Forseti: Þær upplýsingar, sem ég hef, eru að ríkisstj. sitji nú á fundi sem hófst fyrir 4 mínútum. Ef þm. vill ekki halda áfram ræðu sinni er hægt að fresta umr. um málið nú þegar.) Mér sýnist það mjög eðlilegt, forseti. — Þar sem forseti hefur upplýst að þegar sé búið að setja ríkisstjórnarfund tel ég, jafnvel þó að menn hafi sterka fætur og stóra — ég orða ekki meira, rétt af forseta að fresta þessari umr. enda þótt 10 mínútur séu eftir af þeim tíma sem fundur skyldi standa. (Forseti: Vill ekki þm. nota þessar 10 mínútur?) Ég hefði gjarnan viljað hafa hæstv. fjmrh. viðstaddan, því að ég hafði hugsað mér að beina til hans nokkrum aths. varðandi lánsfjárlögin og afgreiðslu þeirra í n. af hálfu 1. minni hl. Ég held því að það sé eðli málsins samkv. ekki viðeigandi að við höldum áfram þingfundi þegar ráðh. hafa ekki aðstöðu til að vera hér, en ég skil mjög vel að hæstv. fjmrh. geti ekki verið staddur hér þegar búið er að boða ríkisstjórnarfund. Ég vildi því mega leggja til við forseta að ég geri hlé á ræðu minni nú og umr. um málið verði frestað.— [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég lauk máli mínu rétt fyrir kl. 4, átti þá von á að hæstv. fjmrh. gæti verið viðstaddur nú. En ég skal ekki tefja umr. með því að hinkra. Ég geri ráð fyrir að hann komi áður en langt um líður, því að við sjáum að hér er kominn einn ráðh. Þeim ríkisstjórnarfundi, sem haldinn var síðdegis, er því lokið og ég býst við að fjmrh. sé kominn í húsið.

Ég gerði við 1. umr. þessa máls grein fyrir ýmsum þeim atriðum sem ég taldi að skoða þyrfti mjög ítarlega í sambandi við samþykkt lánsfjárlaga sem grundvölluð eru á þeirri fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1980 sem ríkisstj. hafði samþykkt. Það er öllum kunnugt að mikil spenna er í efnahagsmálum okkar, og það er vissulega atriði sem skoða verður þegar gengið er frá fjárlögum og lánsfjárlögum, hvernig hugsað er að fara með þessi mál.

Opinber fjárfesting er aukin og það er gert ráð fyrir að hún verði 26.5% af þjóðarframleiðslu, en gert ráð fyrir að þjóðarframleiðslan sé 1230 milljarðar kr. Fjárfestingin mun því verða tæpir 330 milljarðar. Í stjórnarsáttmálanum er talað um 25%. Við fengum skilgreiningu hæstv. forsrh. á því sem í stjórnarsamningnum stendur, en þar er orðalagið „um það bil“ og gert ráð fyrir, samkv. því sem hann vildi halda fram, að þetta hlutfall væri innan þeirra marka. Nú verðum við að sjálfsögðu, þegar skoðaðar eru tölur, að gera okkur grein fyrir hverjar eru forsendur fyrir tölunum. Forsendur fyrir 26.5% af þjóðarframleiðslu til opinberrar fjárfestingar eru að sjálfsögðu sú tala sem fæst út úr reikningi þjóðarframleiðslunnar. Þá verðum við að gera okkur grein fyrir því, hvort sá útreikningur sé á rökum reistur, hvort ekki sé í raun og veru verið að gera forsendur fyrir fjárfestingarhlutfalli sem menn telji að geti staðist og telja ekki að sé úrskeiðis miðað við það efnahagsástand sem er í landinu.

Það liggur ljóst fyrir að þjóðarframleiðsluspáin, eins og hún er í lánsfjáráætluninni, er ofáætluð. Það er t. d. gert ráð fyrir að botnfiskaflinn fari hvorki meira né minna en 1/3 fram úr því sem vísindamenn lögðu til. Í staðinn fyrir 300 þús. tonn er gert ráð fyrir 380–400 þúsundum tonna miðað við 360 þús. tonn í fyrra, sem þá var talið of mikill afli. Enn fremur er gert ráð fyrir í forsendunum að framleiðsla sjávarafurða geti orðið 2% meiri en á s. l. ári. Það er ljóst að hér er um að ræða ofáætlun, og grunur minn er sá, að það sé fyrst og fremst til þess að það hlutfall, sem kemur þegar fjárfestingin samkv. þessari lánsfjáráætlun er reiknuð út, geti, eins og hæstv. forsrh. orðaði það, hér um bil staðist, 25% eða fjórðungur er tala stjórnarsáttmálans, en 26.5% er hér um bil 25%, eftir að búið er að hækka þjóðarframleiðsluna í sambandi við fiskaflann sem nemur 50–100 þús. tonnum frá því sem sérfræðingar á því sviði telja ráðlegt. Ef þessar forsendur standast, þ. e. að verði 400 þús. tonna botnfiskafli, er öllum ljóst að verið er að ganga á hrygningarstofninn og þjóðarframleiðsla okkar á næstu árum verðum ekki með sama hætti og hún gæti orðið ef við hygðum betur að þessum málum í ár. Það er ljóst. Hér er verið að éta fyrir sig fram, og það á að sjálfsögðu eftir að hefna sín ef það nær fram að ganga sem þessi skýrsla gerir ráð fyrir.

Það er gert ráð fyrir að vöruskiptajöfnuðurinn verði hallalaus, hins vegar verði halli á viðskiptajöfnuði. Á sama tíma og við ætlum,okkur að fara óvarlega í sjávarafla, auka þjóðarframleiðsluna umfram það, sem rétt er talið varðandi sjávarafla, stefnir í viðskiptahalla. Við getum gert okkur grein fyrir því hverjar afleiðingar það hefur og hver verður framvinda þessara mála á næstu árum, með fjárfestingu, sem er miklu meira en áður, með sjávarafla langt umfram það, sem talið er skynsamlegt, með viðskiptahalla? Hvernig koma dæmin til með að líta út þegar við verðum hér að ári liðnu sjálfsagt að ræða þessa hluti? Ég á ekki von á að vinnubrögðin verði neitt betri í þessum efnum ef núv. hæstv. ríkisstj. kemur til með að lifa á sama tíma að ári liðnu. — Á sama tíma og við spennum opinbera fjárfestingu upp, á sama tíma og við ætlum okkur að taka meiri afla úr sjónum en talið er skynsamlegt, á sama tíma og við komum til með að þola viðskiptahalla eru enn fremur erlendar skuldir hækkaðar og greiðslubyrðin, sem þjóðin kemur til með að bera á næstu árum, meiri en nokkurn tíma áður.

Í lánsfjáráætluninni er gert ráð fyrir að erlendar skuldir þjóðarinnar muni aukast um 39 milljarða á yfirstandandi ári, erlendar skuldir í heild verði 85.5 milljarðar og endurgreiðslur erlendra lána verði 46 milljarðar kr. Samkv. áætlun Seðlabankans gerir hann ráð fyrir að greiðslubyrðin á þessu ári verði milli 16 og 17% af útflutningstekjum þjóðarinnar — af útflutningstekjum sem eru fundnar á svo hæpnum forsendum sem ég gat um áðan. Ef niðurstaðan yrði skynsamlegri en hér er gert ráð fyrir, þ. e. sjávaraflinn yrði ekki eins mikill, skulum við líka átta okkur á því, að greiðslubyrði erlendra lána á þessu ári, þ. e. hlutfallið, kemur til með að hækka. Það liggur því ljóst fyrir að ríkisstj. hefur í öllum þessum útreikningum grundvallað lánsfjáráætlunina og opinberar framkvæmdir á þjóðarframleiðsluspá sem er tvímælalaust óviturleg og hefur verið varað við í ræðum og riti vísindamanna, þ. e. þeirra sem gerst þekkja til fiskstofna og nýtingar þeirra.

Samfara þessu megum við líka gera ráð fyrir að vextir á erlendum lánamarkaði muni fremur hækka en lækka. Það þýðir aukinn viðskiptahalla. Þar af leiðandi þýðir aukning erlendra skulda aukinn viðskiptahalla þegar litið er til næstu ára. Og ég kem enn að sama grundvallaratriðinu í þessu öllu saman, þ. e. mati á þjóðarframleiðslu byggðu á sjávarafla okkar. Það er hins vegar bent á í þessari lánsfjáráætlun að ekki sé heppilegt að miða greiðslubyrði af erlendum lánum við útflutningstekjur vegna þess að stór hluti af erlendum lánum geti farið til framkvæmda sem spari t. d. innflutt eldsneyti. Þetta hefur hins vegar verið gert svona, og ef við ætlum að fá samanburð á því, sem hefur verið að gerast og er að gerast, er ekki annað ráð tiltækt en að nota sama samanburð. Hitt má svo sjálfsagt skoða líka, hversu stórt hlutfall erlendar lántökur almennt eru af þjóðareigninni og spyrja sig þar af leiðandi hvort þær séu of háar með tilliti til þess sem á bak við þær stendur. Það hefur áður verið gert og það er sjálfsagt að gera. En á meðan við byggjum og grundvöllum á útflutningstekjunum og við gerum okkur grein fyrir því, að við borgum ekki afborganir af erlendum lánum eða vexti öðruvísi en við höfum nægar útflutningstekjur er spurningin þessi: Hvað viljum við og hversu hátt treystum við okkur að fara í sambandi við greiðslubyrði? En þegar spáin um þjóðarframleiðsluna er byggð á röngum forsendum, þegar spáin um þjóðarframleiðsluna er byggð á því, að við ætlum okkur að eyða um efni fram af þeim fiskstofnum sem við höfum yfir að ráða, þá liggur ljóst fyrir að það er ekki stefnt í rétta átt.

Þegar þessi atriði hafa öll verið skoðuð verðum við að líta á, hvert við erum að stefna í raun og veru og þær yfirlýsingar sem lesa má í stjórnarsamningnum. Ég held að öllum sé ljóst að að engu leyti er farið eftir þeim, þvert á móti. Það sýnist stefna í verra efnahagsástand en hér hefur verið, og þessi atriði öll, sem ég hef vikið hér að, undirstrika að það er ekki aðeins að við förum lengra í ár í þessum efnum en áður, heldur erum við að stórskaða okkur þegar kemur fram á næsta ár og árið þar á eftir, því að allir gera sér grein fyrir því, hvað fylgir ofnýtingu á fiskstofnunum.

Varðandi viðskiptakjörin er gert ráð fyrir verði á innfluttri orku miðað við aprílmánuð. Það liggur alveg ljóst fyrir að þær tölur eru þegar orðnar úreltar þegar þessi lánsfjáráætlun er til umr. Þar af leiðandi er líka um vanmat að ræða þegar við erum að tala um viðskiptahalla og þá greiðslubyrði sem nú er og verður á þessu ári í sambandi við erlendu skuldirnar. Það er miklu frekar að reikna megi með hækkun á verði erlendrar orku. Það kemur því til viðbótar við það sem ég hef áður sagt í sambandi við útflutningstekjur okkar og hvað við þar höfum til að standa við skuldbindingar okkar sem gerðar hafa verið.

Þetta er önnur hliðin á því máli sem við erum að fjalla um í dag. Hin er verðlagsþróunin í landinu og launaþróunin í landinu. Hún er enn fremur ekki ljós af lánsfjáráætluninni. Ég vil endurtaka spurningu sem ég bar upp við 1. umr.: Hverjar eru gengisforsendur þessarar lánsfjáráætlunar? (Fjmrh.: Þær sömu og fjárlaga.) Þær sömu og fjárlaga, segir hæstv. ráðh. Hver hefur verið þróun gengismála frá áramótum og hvað má búast við miklu fráviki frá þeirri stefnu, sem þar hefur verið, til þess að standist það útflutningsverð sem þjóðhagsspáin byggir á? Ég held að ef skoðuð er ofan í kjölinn sú forsenda sem fjárlagafrv. er reist á og þjóðhagsspáin og þar af leiðandi lánsfjáráætlunin byggir á, þá séu tölur komnar býsna nærri þeim mörkum sem sett voru þegar fjárlagafrv. var samið fyrir nokkrum mánuðum. Ef ráðh. hefur aðrar upplýsingar um, hver gengisbreytingin hefur orðið, hver þróunin hefur þar verið og hver var spáin um meðalgengisbreytingu á árinu 1980 og hversu mikil gengisbreytingin hefur þegar orðið, þá upplýsir hann það. En grunur minn er sá, að það sé komið upp undir það þak meðalgengisbreytingar, ef við getum orðað það svo, sem gert var ráð fyrir um áramótin í sambandi við t. d. fiskverð og aðra þá þætti sem nauðsynlegt var að taka þá þegar ákvörðun um. Þetta hefur að sjálfsögðu geysimikil áhrif.

Hæstv. ráðh. sagði áðan að lánsfjáráætlun byggðist á sömu forsendum og fjárlög, sem gerðu ráð fyrir 30% verðlagshækkunum frá upphafi árs til loka, en þegar við erum að ræða lánsfjáráætlunina, og vorum reyndar þegar komnir nærri því þegar við ræddum fjárl., verður okkur ljóst að verðlagsþróunin frá upphafi árs til loka verður óhagstæðari en gert hafði verið ráð fyrir og töluvert miklu óhagstæðari. Frá upphafi árs til loka ársins 1979 var þróun framfærsluvísitölunnar þannig, að hækkunin varð 61.2%. Hins vegar hefur nú verið sett fram í stjórnarsamningnum niðurtalningarleiðin svokallaða. En það er sjálfsagt eftir að skýra fyrir okkur að það hafi ekki verið ætlunin að fara eftir þeirri reglu nema svona hér um bil. Það er þegar að koma í ljós, að það er meira en „svona hér um bil“ mismunur á því, sem 1. júní gerði ráð fyrir í niðurtalningarprógrammi ríkisstj., og þeim staðreyndum, sem nú eru komnar í ljós.

Hvort gerðar verða einhverjar ráðstafanir af hálfu ríkisstj. í þá átt, sem hæstv. sjútvrh. og hæstv. menntmrh. véku að í útvarpsumr. s. l. mánudagskvöld, er aðeins ríkisstjórnarinnar að vita. Hæstv. forsrh. hefur ekki tekið fyrir að þær leiðir verði farnar. Hann lýsti því hér yfir, að það væri ekki hægt að lýsa því yfir að brbl. um þessi efni yrðu ekki gefin út fyrir 1. júní. Það má því vel vera, að í sambandi við þessi mál hyggist ríkisstj. koma fram með breytingar eða ráðstafanir og þannig ná því að verða „svona hér um bil“ í sambandi við launaþróunina fyrstu 5–6 mánuði ársins, en ef þrír fyrstu mánuðirnir hjá núv. hæstv. ríkisstj. eru teknir og verðbólgan mæld samkv. þeim hraða sem á henni hefur verið er hún á bilinu 63–65%. Þjóðhagsstofnun hefur spáð verðþróuninni 1. sept. og 1. des. hærri en niðurtalningarleiðin gerir ráð fyrir.

Eins og ég hef orðað það verður verðlagsþróunin sjálfsagt nær 50% en 30%. Hvorum megin við markið niðurstaðan verður skal ég ekki spá um hér og nú. En ég vakti athygli á því og ég vek athygli á því enn, að samanborið við árið í fyrra er verðbólguhraðinn nú töluvert miklu meiri frá 1. des. 1979 til l. maí 1980 en hann var 1. des. 1978 til l. maí 1979. Og árið 1979 var slegið verðbólgumet, verðbólgan varð 61.8%, nærri 62%. Ef menn telja að það sé til þess að koma betri skipan á efnahagsmál í landinu, ef menn telja að það sé til þess að koma betri skipan á peningamálin í landinu, ef menn telja að það sé til þess að koma betri skipan á fjármál ríkisins að vera með í smíðum og samþykkja á Alþ. fjárlög sem eru byggð á alröngum verðlagsforsendum, verðlagsforsendum sem geta breyst kannske um 60–70–80%, — ef menn telja að slíkt sé hin skynsamlega leið, þá held ég að menn séu með algerlega ranga stefnu.

Ef við virðum fyrir okkur fjárlög og ríkisreikninga undanfarinna ára getum við gert okkur grein fyrir hver þróunin var og hver þróunin er að verða aftur. Ef ég man rétt var mismunur á fjárlögum og ríkisreikningi árið 1974 um 35%. Ríkisreikningurinn var 35% hærri en fjárl. 1974. 1975, þrátt fyrir slæmt ár hjá ríkissjóði, tókst þó að draga úr og mismunurinn á milli fjárlaga og ríkisreiknings 1975 var milli 23 og 25%. 1976 er mismunur fjárlaga og ríkisreiknings kominn niður fyrir 20%, er milli 17 og 18, og 1977 er mismunur fjárlaga og ríkisreiknings orðinn 10.2%. Er þá verðbólgan, er þá þróun verðlagsmála frá upphafi árs til loka milli 35 og 38%. Ég tel að þarna hafi tekist allt í senn: að ná fram fjárlögum sem voru raunhæfari en þau nokkurn tíma höfðu verið samhliða því að í fjmrn. hafði verið unnið að útgjaldaáætlun, útgjaldaeftirliti, sem best kom í ljós á árunum 1976–1977, en þegar þetta hvort tveggja fór að vinna saman, útgjaldaáætlun sem gerð hafði verið og eftir farið svo og fjárlög sem voru raunhæf, skilaði sér minni mismunur á milli fjárlaga og ríkisreiknings.

En hvað gerist svo árið 1978? Þá breytist strax í þessum efnum. Seðlabankinn hefur sjálfur í skýrslu sinni gert grein fyrir þeim halla, sem þá varð hjá ríkissjóði, og gert grein fyrir því, að 3 milljarðar af 3.9 milljörðum hafi stafað af ráðstöfunum ríkisstj. frá sept. fram í des. á árinu 1978. Reyndar er það allur hallinn, en við skulum ekki deila um það, á því eru eðlilegar skýringar. En strax á árinu 1978 verður mismunur fjárlaga og ríkisreiknings yfir 15%, og mismunur fjárlaga og ríkisreiknings 1979 nálgast 20%. Strax þegar vinstri stjórn er komið fer allt úr böndunum. Þá eru ekki gerðar raunhæfar áætlanir og þá eru útgjöld samþ. á ríkissjóð þannig að skiptir ekki hundruðum millj., heldur milljörðum. Og við skulum ekki gleyma því, að þegar ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar tók við í septembermánuði 1978 og gerði sínar ráðstafanir var ekki talað um að árið 1978 ætti að vera hallalaust ár hjá ríkissjóði. Dæmið stóð þannig þegar þeir tóku við að fyrir lá áætlun fjárlaga- og hagsýslustofnunar um úttekt ríkissjóðs á miðju ári 1978. Nei, fyrstu 16 mánuðir ríkisstj. skyldu verða hallalausir hjá ríkissjóði, þ. e. fjórir mánuðir ársins 1978 og svo árið 1979. Ríkisstj. lifði ekki út árið 1979, eins og kunnugt er, og það kom auk þess í ljós að það varð halli á árinu 1979 til viðbótarvið hallann á árinu 1978. Sú ríkisstj. getur þó að sjálfsögðu sagt að henni hafi ekki unnist tími til að skila ríkissjóði hallalausum, hún hefði getað gert það ef hún hefði fengið tækifæri til að sitja að völdum út árið.

Þeir, sem tóku þá við fjármálum ríkisins, töldu sig hafa gert geysimikið til að draga úr eyðslu og koma ríkissjóði á réttan kjöl, en það kom fram hér í gær frekar en í fyrradag, á mánudaginn, í ræðu hæstv. fjmrh., þar sem hann gerði grein fyrir ríkisreikningnum árið 1979, hver hallinn varð. Það hafði síður en svo tekist að jafna það sem úrskeiðis fór á árinu 1978, miklu frekar bættist við þá skuldasúpu sem fyrir var hjá Seðlabankanum, auk þess sem ríkissjóður skilaði stórum mismun frá því sem fjárlög höfðu gert ráð fyrir þegar þau voru samþykkt í desembermánuði 1978.

Það er öllum ljóst, sem fylgst hafa með þróun efnahagsmála á undanförnum árum, að það er allt annað en að auka á opinberar framkvæmdir, það er allt annað en að auka á hraða verðbólgunnar sem er okkur lífsnauðsynlegt. Ég er ekki að halda því fram að þær framkvæmdir, sem hæstv. ríkisstj. hyggst nýta það fjármagn til sem hún ætlar sér að taka erlendis og innlendis, séu ekki þarfar framkvæmdir, og því er ekki að neita að það er eðlileg hugsun að við reynum að byggja orkuver og við reynum að tryggja að við getum nýtt innlenda orkugjafa. En á meðan við erum að gera það verður annað að víkja ef við ætlum okkur að halda okkur innan þess ramma sem við teljum að við eigum að reka þjóðfélagið innan. Sá einstaklingur, þau félagasamtök sem gera sínar fjármálaáætlanir fram í tímann, bóndinn sem gerir fjármálaáætlanir fram í tímann, — þessir aðilar allir saman meta og raða verkefnunum eftir því hvað þeim finnst og þeir telja mikilvægast fyrir starfsemi sína, en umfram allt reyna þeir að halda sér innan þess ramma sem þeir hafa sett sér. Þeir nýta lánamöguleika að sjálfsögðu, en þeir gera það ekki með þeim hætti að þeir séu að skaða sjálfa sig þegar fram í sækir. Bóndi, sem krefst meira af búi sínu en eðlilegt er til þess að það geti endurnýjast, er að sjálfsögðu að skaða eigin framtíð. Þannig eru öll vinnubrögð núv. hæstv. ríkisstj. og þessi lánsfjáráætlun og þessi lánsfjárlög eru í samræmi við það.

Þegar við höfum rætt þessi atriði sérstaklega, þ. e. fjárfestinguna, viðskiptin við útlönd, erlendu skuldirnar og verðlagsþróunina, skulum við gera okkur grein fyrir því, hvernig staðið er að þessari lánsfjáráætlun, hvernig staðið er að því að útvega fjármagn til þessara framkvæmda sem eiga að verða 21.3% að magni til meiri í ár en áður. Það er ekki aðeins verið að auka erlendar lántökur, heldur er líka seilst inn á erlendan lánamarkað meira en nokkurn tíma áður, sem þýðir að atvinnulíf landsmanna kemur til með að lamast. Það liggur ljóst fyrir, að þegar bankakerfið hefur keypt ríkistryggð bréf fyrir stórar upphæðir lánar það ekki sömu peningana út til atvinnuveganna. Það liggur líka ljóst fyrir, að þegar lífeyrissjóðirnir hafa verið skyldaðir til að lána háar upphæðir til hins opinbera verður ekki jafnauðvelt fyrir einstaklinginn að fá lán hjá lífeyrissjóðunum til húsbygginga. Þetta eru staðreyndir sem við hljótum að gera okkur grein fyrir, og þá er ljóst að það er dregið úr atvinnulífinu, einstaklingarnir hafa minna úr að spila, en ríkið sjálft ætlar sér stærri hlut. Og það er ekki bara í erlendum lántökum, það er ekki bara með því að ná fjármagni frá viðskiptabönkunum og lífeyrissjóðunum sem ríkið eykur umsvif sín, heldur er það líka með skattheimtunni sem núv. ríkisstj. og fyrrv. ríkisstj. hafa beitt sér fyrir. Það er nákvæmlega sama hvert litið er, hvort um er að ræða skattamálin, skattheimtuna til ríkissjóðs, erlendar lántökur ríkissjóðs, innlendar lántökur ríkissjóðs, allt er þetta á einn veg: Það á að auka opinber afskipti, það á að auka opinberar framkvæmdir, en hefta frelsi einstaklingsins og lama atvinnulífið í landinu. Þegar forsenda þjóðarframleiðslunnar er röng, þegar við ætlum okkur að veiða meira en skynsamlegt er talið liggur ljóst fyrir að gera þyrfti ráðstafanir til að afstýra því að hið opinbera taki allt að sér. En á sama tíma og þetta er gert verða opinber afskipti meiri, verður opinber fjárfesting meiri, hefur einstaklingurinn minna á milli handa, skattpíningin verður meiri, atvinnulífið lamast og útkoman verður lakari lífskjör í landinu.

Það er vissulega til íhugunar að mennirnir, sem svo vasklega gengu fram í kosningabaráttunni 1978 með slagorðið „samningana í gildi,“ eru nú búnir að vera við stjórnvöl frá því í sept. 1978, ýmist saman í ríkisstj. eða þá, eins og nú, í stjórn og stjórnarandstöðu, en fulltrúar verkalýðsins, sem hafa kallað sig svo, sitja nú við völdin. Þessir aðilar, sem hæst hrópuðu, standa nú fyrir því, hvernig svo sem á þetta er allt litið, að rýra lífskjörin svo að jafnvel þær ráðstafanir, sem gerðar voru á árinu 1978, eru léttvægar í sambandi við það sem núna hefur verið gert. Ég segi: Það er kaldhæðni örlaganna að þessir forystumenn verkalýðssamtakanna, sem töldu ekki skynsamlegt að draga örlítið úr ferðinni í upphafi árs 1978, skuli vera ýmist höfundar eða meðverkamenn í því að koma lífskjörunum svo langt niður að það verður sennilega að bera þau saman við vinstri stjórnina 1971–1974 til þess að fá samanburð sem getur staðist. Svo langt verður að fara. Það eru þessir aðilar sem hafa komið málum þannig fyrir.

1975 og 1976 var kaupmátturinn að aukast. Þá voru gerðar ráðstafanir fyrir láglaunafólkið. Þá voru láglaunabætur settar á haustið 1974. (Forseti: Ég vil spyrja hv. þm. hvort hann eigi eftir langt af ræðu sinni.) Ég á von á því, að ég geti lokið ræðu minni fyrir eða um kl. 7. (Forseti: Það þyrfti helst að vera svona 5 mínútum fyrir 7.) Fimm mínútum fyrir sjö. Það skal ég þá gera til þess að forseti geti haft þá hentugleika á fundarstörfum sem hann telur réttast. — En ég vík aftur að haustinu 1974 og láglaunabótum sem þá voru settar. Það var vissulega lærdómsríkt fyrir þá aðila, sem stóðu að þeim, að fylgjast með viðbrögðum ákveðinna hópa innan verkalýðsstéttarinnar, eins og þeir eru kallaðir, fylgjast með viðbrögðum þessara manna og fylgjast með því, hverjir það voru sem í raun og veru sprengdu láglaunabæturnar þannig að þær fóru upp úr öllu valdi. Þetta var að mínum dómi mjög skynsamleg tilraun sem þá var gerð til að bæta hag þeirra lægst launuðu. Oft hefur verið talað um það í ræðustól að menn séu reiðubúnir til þess að gera slíkt, en það er það merkilega að þeir, sem kannske tala hæst, eru ekki reiðubúnastir til að standa við orð sín þegar á hólminn er komið. Á þessum tíma voru þó gerðar skynsamlegar tillögur og ráðstafanir og ég held að þær hafi einmitt komið þeim til góða sem helst þurftu.

Við skulum gera okkur grein fyrir því að viðskiptakjörin, sem voru að versna á árinu 1974, héldu áfram að versna fram á árið 1975, en samt sem áður tekst að ná verðbólgunni niður á árinu 1976 þannig að um áramótin 1976 er hún komin niður fyrir 30%. Kaupmátturinn hafði vaxið, við skulum gera okkur grein fyrir því. Við skulum jafnframt gera okkur grein fyrir því, að það er það besta, sem við getum gert fyrir þá sem minnst mega sín, fyrir þá lægst launuðu, að ná verðbólgunni niður. Það er nokkuð sem við verðum að gera okkur grein fyrir og verðum að skilja, en menn virðast því miður ekki vilja skilja.

Það verður aldrei gerð í þessum efnum bragarbót ef við getum ekki náð með einum eða öðrum hætti samstöðu til að koma fram því að verðbólgan lækki. En ég segi: Þetta frv., sem hér er til viðbótar við fjárl. sem samþ. hafa verið, verður verðbólgulög ofan á verðbólgufjárlög. Það stefnir í aukna fjárfestingu, það stefnir í auknar erlendar skuldir, það stefnir í viðskiptahalla, þjóðarframleiðslan er áætluð rangt. Ef það stenst erum við að éta fyrir fram út fiskstofna okkar, og þess vegna segi ég: Hér er ekki verið að koma til móts við þá sem minnst mega sín, sem hafa lægstu launin. Hér er verið að kynda áfram verðbólgubálið, því miður, og allar tölur og allir útreikningar, sem einstaka menn vilja gera til að hægt sé að segja að það sem í bláu bókinni stendur sé hér um bil rétt, eiga eftir að sýna sig að vera ekki „hér um bil“ réttir.