21.05.1980
Neðri deild: 83. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3044 í B-deild Alþingistíðinda. (2975)

Umræður utan dagskrár

Forseti (Sverrir Hermannsson):

Ég var rétt að því kominn að lesa upp dagskrá næsta fundar, sem hefði skýrt með hvaða hætti ég ætla að haga þinghaldi, þegar hv. 3. þm. Vestf. kvaddi sér hljóðs um þingsköp. Ég vísa því á bug, að ég hafi reynt um of á langlundargeð hv. þdm. með næturfundum. Ég minnist þess nærri á hverju þingi sem ég hef setið frá 1971, að miklu tíðari hafa verið næturfundir heldur en nú. Ég tilkynnti það í upphafi, hvert verklag mitt yrði á þessum fundi. Það voru ekki gerðar athugasemdir við það þá, og ég hef ekki í neinu breytt út af þeirri yfirlýsingu minni og held fast við það sem athugasemdalaust var þá tilkynnt.