22.05.1980
Neðri deild: 84. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3045 í B-deild Alþingistíðinda. (2980)

180. mál, lánsfjárlög 1980

Frsm. 1. minni hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Eins og hæstv. fjmrh. tók fram áðan hefur hann fyrir hönd ríkisstj. flutt þrjár brtt. við lánsfjárlög. Okkur í fjh.- og viðskn. þótti eðlilegt að líta á þessar brtt. og boðuðum fund í nefndinni, en því miður gátu þeir embættismenn, sem ætluðu að upplýsa okkur um málið, ekki mætt á þeim tíma. Við fulltrúar í 1. minni hl. nefndarinnar tókum málið eigi að síður til athugunar með embættismönnunum síðar, þegar þeir gátu mætt, en það varð að samkomulagi í nefndinni, að ekki væri ástæða til þess að halda um það sérstakan fund.

Í fyrsta lagi er brtt. þess efnis á þskj. 585, að á eftir 9. gr. komi ný grein, er verði 10. gr., svo hljóðandi: „Undirbúningsfélagi saltverksmiðju á Reykjanesi hf. er heimilt að taka lán á árinu 1980 að fjárhæð allt að 100 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt til greiðslu skammtímaskulda sem á fyrirtækinu hvíla.“

Við erum samþykkir þessari till., eins og við erum út af fyrir sig samþykkir öllum þessum till. Það er nauðsynlegt að þessi heimild verði veitt. Á þessu fyrirtæki hvílir nú þegar allt að því þessi upphæð og það hafði fallið niður við afgreiðslu lánsfjárlaga í fyrra að afgreiða þá 70 millj. kr. heimild, en nauðsynlegt er að halda rannsóknum þarna áfram þangað til rannsóknarniðurstaða fæst.

Í öðru lagi er á þskj. 585 heimild til að ábyrgjast 250 millj. kr. til nýrra iðnaðarverkefna samkv. lánsfjáráætlun. Við viljum taka það fram, að hér er út af fyrir sig ekki um fjárveitingu að ræða. Hér er um það að ræða að veita ábyrgð og við göngum út frá því, að veð séu þar á bak við.

Það má út af fyrir sig segja að það sé nauðsynlegt að veita fé og meira fé til rannsóknarstarfa hér á landi, en slíkt verður að gera á fjárlögum. Við viljum taka það skýrt fram, að slíkar fjárveitingar eiga ekki að vera á lánsfjáráætlun, enda mun gert ráð fyrir því í þessu sambandi, ef til kemur og fyrirtæki verða um þetta stofnuð, að stofnuð verði hlutafélög eða önnur félög, þannig að hér ætti að vera hægt að útvega veð til þess að geta veitt þessar ábyrgðir. — Þetta viljum við taka fram.

Í þriðja lagi er hér till. um að ábyrgjast lán vegna Vatnsveitu Búðardals, allt að 150 millj. kr., sem gert er ráð fyrir að Lánasjóður sveitarfélaga láni. Hér er ekki heldur um fjárveitingu til þessa máls að ræða. Félmrn. styrkir í mörgum tilfellum slíkar vatnsveitur af vatnsveitufé. Hins vegar er hér um mjög erfiða framkvæmd að ræða sem Lánasjóðurinn telur að þurfi ríkisábyrgð fyrir. Við göngum út frá að með sama hætti og áður greinir verði hér gefin veð og grundvöllur tryggður varðandi þessa vatnsveitu, þannig að endurgreiðsla á þessu fjármagni sé tryggð.

Það hefur því miður verið allmikið um það að ríkisábyrgðir væru veittar. Vil ég í því sambandi nefna t. d. Herjólf og Akraborg og fleiri slík verkefni. Síðan hafa skuldir safnast upp í Ríkisábyrgðasjóði. Það er náttúrlega ekki sá háttur sem á að hafa varðandi hin ýmsu verkefni í þjóðfélaginu, að óreiðuskuldir hrúgist upp í Ríkisábyrgðasjóði. Ef Alþ. vill styrkja slíkar framkvæmdir, sem vissulega ber að gera í mörgum tilfellum, t. d. þeim sem ég nefndi, þá ber að taka sérstaklega á því á fjárlögum.

Þetta vildi ég aðeins taka fram í sambandi við þetta mál, en við í 1. minni hl. nefndarinnar mælum með að þessar brtt. verði samþykktar.