22.05.1980
Sameinað þing: 65. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3059 í B-deild Alþingistíðinda. (3008)

138. mál, tilraunaveiðar með dragnót

Fyrirspyrjandi (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Sá vísindamaður okkar á sviði fiskifræðinnar, sem manna best þekkir til skarkolaveiða og dragnótarinnar sem veiðarfæris og um leið til tilraunaveiða hér í Faxaflóa, er tvímælalaust Aðalsteinn Sigurðsson. Hann hefur samið mjög ítarlega skýrslu um þær tilraunaveiðar sem fóru fram í Faxaflóa haustið 1979 samkv. till. Alþingis.

„En í framhaldi þessara tillagna veitti sjútvrn. tveimur bátum leyfi til tilraunaveiða með dragnót við Faxaflóa í þrjá mánuði á árinu 1979, þ. e. ágúst til októberloka. Auk áframhaldandi rannsókna Hafrannsóknastofnunarinnar á skarkolaveiðum með dragnót í Faxaflóa mæltist Alþingi til þess að gerð væri athugun á hagkvæmni veiðanna. Hafrannsóknastofnunin hefur unnið að rannsóknum á áhrifum dragnótaveiða á aðra fiskstofna við Faxaflóa en skarkola árið 1976 og komist að þeirri niðurstöðu að þau séu sáralítil.“

Er þetta bein tilvitnun í skýrslu Aðalsteins Sigurðssonar frá Hafrannsóknastofnuninni um þessar veiðar. Þessari skýrslu fylgdu mjög ítarlegar töflur og línurit ásamt teikningum af svæði sem togað var á í Faxaflóa.

Í skýrslunni skýrir Aðalsteinn einnig frá því, hvernig staðið var að vinnslu skarkolans, en hún fór fram í frystihúsi Sjöstjörnunnar í Ytri-Njarðvík. Þar var fyrir komið flökunarvél sem vann kolann, og reyndist góður markaður fyrir þessi flök. Og Aðalsteinn segir orðrétt í skýrslu sinni, með leyfi hæstv. forseta:

„Allir þeir, sem að þessari hagkvæmu tilraun unnu, bæði á sjó og landi, virtust vera harðánægðir með sinn hlut og slíkt er fremur óvenjulegt, þar sem flestir virðast tapa bæði á útgerð og fiskvinnslu. Það mundi eflaust auka nýtingu skarkolastofnsins mikið ef slíkar flökunarvélar yrðu í notkun víða við landið, en það hefur mjög þurft þar sem hann hefur ekki verið nema hálfnýttur síðustu árin.“

Það er eftirtektarvert, að einn vísindamanna okkar skuli draga fram þetta þýðingarmikla atriði sem er meðal staðreynda þessa máls.

Á korti, sem fylgir skýrslu Aðalsteins, kemur fram að gífurlegt svæði, sem uppeldisfiskurinn heldur sig ekki síst á, er algerlega bannað að fara með tilraunaveiðarnar inn á, og var aldrei farið norður fyrir línu um miðjan Faxaflóa með þessar tilraunaveiðar. Þar til viðbótar má benda á, að harður botn, svokölluð hraun, er algerlega óhæfur til dragnótaveiða, og kemur fram á meðfylgjandi kortum hver stór hluti Faxaflóans þetta er og segir jafnframt þar á þá leið, að það sé augljóst að mikill hluti flóans sé friðaður þrátt fyrir að sams konar opnun yrði leyfð og haustið 1979.

Í skýrslu Aðalsteins kom fram að skarkolinn var aðaluppistaðan í veiðinni, en fór minnkandi þegar leið á vertíðina, og telur hann aðalorsakir til þess vera í fyrsta lagi óhagstæðara veður þegar fram kom á haustið og í öðru lagi að þá var skarkolinn farinn að ganga út úr flóanum í átt að hrygningarstöðvum. Hann endaði skýrslu sína á þessum orðum:

„Framanskráð bendir til þess, að arðvænlegt sé að stunda skarkolaveiðar með dragnót í Faxaflóa og það þurfi ekki að hafa áhyggjur af öðrum tegundum vegna slíkra veiða.“

Ég leyfi mér að fullyrða, og því er þessi fsp. mín fram borin, að það hafi aldrei verið jafnítarlegar rannsóknir gerðar á göngu eða veiðiþoli einnar fisktegundar hér við land á ákveðnu hafsvæði. Við skulum ekki gleyma því, að þegar Faxaflóinn var friðaður á sínum tíma fyrir dragnótaveiðum var hann friðaður fyrir allt öðru veiðarfæri en verið er að nota nú, með miklu minni möskva og smærri riðli en nú er. Við lokuðum Faxaflóanum líka við þær aðstæður að þar var ofveitt.

Í framhaldi af þessum orðum mínum vil ég geta þess, að stjórn Hafrannsóknastofnunar er sammála um að þessum tilraunaveiðum verði að halda áfram. Ég tel að sjútvrn. og hæstv. ráðh. eigi að gefa leyfi til að þessum tilraunum verði haldið áfram og nú verði bætt við 2–4 bátum, sem m. a. geri tilraunir sínar í norðanverðum Faxaflóa eða norðar í flóanum en um hann miðjan og jafnframt utar, og t. d. fiskvinnslufyrirtæki hér í Reykjavík verði gefið tækifæri til að fá sér kolaflökunarvél til að fullnýta þetta þýðingarmikla og verðmæta hráefni. Ég skal ekki hafa mörg orð um þýðingu þess. Við stöndum frammi fyrir því að þurfa að draga úr veiði okkar helstu nytjafisktegunda, og þá ber okkur að sjálfsögðu að nytja sem mest, best og hagkvæmast það sem við höfum vannýtt fram að þessu. Meðal þess er skarkolinn, ekki aðeins her í Faxaflóa, heldur víðs vegar um land. Fsp. mín til ráðh. er því ekki bundin við Faxaflóann einan, heldur einnig aðra staði í kringum landið, og bendi ég m. a. á ýmis svæði við Austurland og við Norðurland.

Ég bendi á að lokum að friðun Faxaflóans á sínum tíma var gerð gegn vilja mikils þorra Reykvíkinga, sérstaklega þeirra sem þá höfðu atvinnu sína og lífsafkomu af vélbátaútgerð frá Reykjavík. Það voru litlu bátarnir, sem stunduðu togveiðar og dragnótaveiðar, sem sáu fyrir hráefnisöflun á ferskfiskmarkað Reykvíkinga. Engar bætur komu í hlut þessara manna þegar Faxaflóinn var friðaður til þess, eins og meginröksemdin var, að stuðla að friðun til verndar, aukningar og uppeldis á fiskstofnum sem síðar áttu að veiðast af öðrum landsmönnum. Það er því tímabært að þeim, sem búa við innanverðan og norðanverðan flóann, verði aftur gefið tækifæri til að nýta þetta þýðingarmikla hráefni undir stjórn og eftirliti þeirra manna sem mesta og besta þekkingu hafa á því. Vegna þessa er þessi fsp. mín borin fram til hæstv. sjútvrh.