22.05.1980
Efri deild: 102. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3092 í B-deild Alþingistíðinda. (3064)

Umræður utan dagskrár

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár til að beina ákveðnum óskum til hæstv. utanrrh. um að hann afli upplýsinga sem ég mun hér á eftir gera nánari grein fyrir.

Það er orðin næsta árviss viðburður hér á landi að íslenskir kommúnistar þyrli upp moldviðri miklu, moldviðri áróðurs og blekkinga, og haldi því fram að hér á landi séu geymd kjarnorkuvopn. Þetta er gert þrátt fyrir að margyfirlýst sé af hverjum utanrrh. á fætur öðrum undanfarin ár að svo sé ekki. Þessu er þyrlað upp hér a. m. k. einu sinni á ári, sjálfsagt með það sjónarmið í huga að séu ósannindi endurtekin nægilega oft fari fólk að trúa þeim, a. m. k. að efast. Þetta er gamalt og þekkt áróðursbragð sem oft hefur verið notað og kommúnistar hafa oftlega áður beitt.

Nú er það svo, að oft hafa átt sér stað hér umr. um þetta efni. Hins vegar hygg ég að það hafi í fyrsta skipti gerst á þessu ári að því er haldið fram, og það er ekki talið, heldur er fullyrt að hér á landi séu kjarnorkuvopn. Það er gert síðast í Þjóðviljanum í morgun.

Hv. þm. Guðrún Helgadóttir segir þar orðrétt, með leyfi forseta:

„Ljóst væri þó samkvæmt skrifum erlendra tímarita um kjarnorkumál, t. d. mætti nefna The Bulletin og The Atomic Seientist, að hér væru geymd kjarnorkuvopn.“

Þetta er ekki það eina. Samtök hernámsandstæðinga hafa líka gengið býsna langt í þessum efnum og segir í Þjóðviljanum, að ég held 13. maí:

„Herstöðvaandstæðingar kröfðust þess að kjarnorkuvopn og hergögn þeim tilheyrandi yrðu á brott úr landinu.“

Hér er þessu slegið föstu þrátt fyrir þau ummæli sem rétt og þar til bær yfirvöld hér og ráðh. hafa viðhaft í þessu efni.

Og enn fremur segir í Þjóðviljanum þennan dag, með leyfi forseta:

„Við mótmælum því, að hérlendis skuli geymd kjarnorkuvopn, og ítrekum enn einu sinni þá kröfu, að bandarískur her verði á brott.“

Ég held að þessu verði að mótmæla enn einu sinni. Þessu er auðvitað þyrlað hér upp til að tortryggja þátttöku okkar í varnarsamstarfi vestrænna þjóða og kannske ekki síður til að skelfa íslenskan almenning. Með þessu er beinlínis verið að hræða fólk. Ég veit ekki hvaða hagsmunum er verið að þjóna með þessum málflutningi, en það eru kannske fyrst og fremst hagsmunir þeirra sem hér vilja engar varnir.

Þetta byrjaði sem sagt með fundi herstöðvaandstæðinga. Síðan flutti hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson ræðu í Sþ. s. l. laugardag, þar sem hann lýsti fullkominni andstöðu sinni og síns flokks við stefnu ríkisstj. í utanríkismálum, og er það raunar ekki ný bóla. Síðan koma skrif í Þjóðviljanum næstu daga, en þá fyrst tók nú steininn úr þegar í útvarpinu var fjallað um þetta í a. m. k. 10 mínútna pistli í fyrrakvöld, að ég hygg, og það verður mjög að draga í efa að sá málflutningur, sem var hafður uppi í Ríkisútvarpinu, samrýmist þeim reglum um fréttaflutning sem þar gilda, en m. a. segir — með leyfi forseta — í 3. gr. reglna um fréttaflutning Ríkisútvarpsins:

„Ríkisútvarpið flytur ekki tilgátur eða ágiskanir um atburði eða staðreyndir nema haft sé eftir öðrum og þyki hafa sérstakt fréttagildi.“

Það, sem hér var um að ræða, voru 5 ára gömul ummæli sem búið er að endurtaka hér einu sinni á ári og þyrla upp þannig að það getur varla talist hafa sérstakt fréttagildi.

Þar að auki má svo ýmsar aths. gera við það, hvernig þýtt var af ensku á íslensku það sem þarna fór fram. Ég hjó eftir því, að viðmælandi fréttamanns talaði um „some research“. Það var þýtt „úttekt“. Það er nú heldur lök þýðing og fengi líklega ekki hátt á prófi sá sem þannig skilar verkum sínum (StJ: Þýddi utanrrh. þetta?) Þetta var í Ríkisútvarpinu, hv. þm. Stefán Jónsson, okkar gamla vinnustað.

Það verður að draga í efa að þetta samrýmist þeim reglum sem ég hef til vitnað, og auðvitað skal Ríkisútvarpið gæta óhlutdrægni í hvívetna. Um þetta efni var fjallað í löngu máli, í 10 mínútur eða allt að því, en það voru held ég 15 eða 20 sekúndur sem fóru í að greina frá sjónarmiðum talsmanns utanrrn., sem vísaði öllu þessu á bug eins og oftlega hefur verið gert áður. Það var nú jafnræðið sem þar ríkti.

En þau ummæli, sem allt þetta spinnst út frá, eru sem sé frá árinu 1975, úr riti sem að sögn heitir Defence Monitor og gefið er út af einhvers konar stofnun sem heitir Center for Defence Information í höfuðborg Bandaríkjanna. En hvaða stofnun er það? Fréttamaður útvarpsins endurtók a. m. k. þrisvar sinnum, að þetta væri hlutlaus stofnun og ein sú virtasta er fjallaði um varnarmál í Bandaríkjunum, og sagði orðrétt: „líklega sú áreiðanlegasta“. Ég hygg að þeir muni ekki margir hér sem heyrt hafa þessarar stofnunar getið. En það er auðvitað þannig, að það getur hver sem er í Bandaríkjunum sett á fót hvernig stofnun sem hann vill, gefið henni það nafn sem hann kýs og síðan skráð hana. Það er öruggt mál að það eru tugir slíkra stofnana starfandi í Washington. Þessi stofnun hefur það að yfirlýstu markmiði að gagnrýna gerðir og stefnu Bandaríkjahers og varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna. Og svo að ég vitni nú í ekki ómerkari heimild en Þjóðviljann, málgagn þeirra manna sem þessu þyrla upp, stóð þar fyrir fáeinum dögum að það væri talið að þessi stofnun væri „einhvers staðar vinstra megin við miðju í stjórnmálum“. Ætli hún sé ekki töluvert til vinstri? Ætli hún sé ekki töluvert langt frá miðjunni?

Því hefur margsinnis verið lýst yfir hér, eins og ég áður gat um, að samkv. samkomulagi Íslands og Bandaríkjanna eru hér ekki geymd kjarnorkuvopn, en málflutningur þeirra, sem þessu moldviðri þyrla upp, byggist á því, að menn séu sekir nema því aðeins að þeir geti sannað sakleysi sitt. Því er sem sagt slegið föstu að þetta sé svona þrátt fyrir allar yfirlýsingar í gagnstæða átt.

Ég vil leyfa mér í þessu sambandi að minna á þau ummæli hv. þm. Geirs Hallgrímssonar, sem hann lét falla í umr. í Sþ. s. l. laugardag er hann greindi frá viðræðum sínum við Kosygin, þegar Geir Hallgrímsson fór í opinbera heimsókn til Sovétríkjanna sem forsrh. Íslands og Kosygin lýsti sérstakri ánægju sinni með þá ákvörðun Íslendinga að leyfa ekki staðsetningu kjarnorkuvopna í landi sínu. Halda menn í raun og veru að ef það hefði verið tekin sú ákvörðun einhvern tíma án vitundar íslenskra stjórnvalda að staðsetja kjarnorkuvopn á Keflavíkurflugvelli hefði það farið fram hjá ráðamönnum í Sovétríkjunum? Aldeilis ekki. Ég hygg að hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni t. d. sé það jafnljóst og öðrum sem með þessum málum fylgjast, að Sovétríkin vita nákvæmlega hvar Bandaríkjamenn geyma kjarnorkuvopn og hvar flugskeyti þeirra eru sem búin eru kjarnorkuvopnum, t. d. í Evrópu. Þetta er á almannavitorði og fer ekki leynt og það mundi áreiðanlega ekki vera látið liggja í láginni af hálfu Sovétríkjanna ef hér væru geymd slík vopn.

Það er tínt til hér að á Keflavíkurflugvelli séu flugvélar sem geti borið kjarnorkuvopn. Þetta er áreiðanlega alveg rétt. Ég hygg að ef út í þá sálma er farið muni allar flugvélar eða því sem næst geta flutt kjarnorkuvopn.

Það hefur verið bent á annað atriði hér: Þær öryggisráðstafanir sem viðhafðar eru þar sem slík vopn eru geymd, t. d. í herstöðvum í Þýskalandi, eru með þeim hætti að það fer ekki fram hjá neinum, sem þar býr í grennd eða á leið um, að þannig er. Þetta vita menn.

Í þriðja lagi má á það benda, að öll mannvirki á Keflavíkurflugvelli eru samþykkt af þar til bærum íslenskum yfirvöldum og velflest eða öll mannvirki þar eru byggð af íslenskum aðilum. Og ég veit ekki betur en íslenskir aðilar eigi greiðan gang þarna um til að ganga úr skugga um þetta, ef áhugi er á því, ef menn trúa ekki margendurteknum yfirlýsingum utanrrh. úr fleiri en einum stjórnmálaflokki.

Tilefni þess, að ég kvaddi mér hér hljóðs utan dagskrár, var að vekja athygli á þessu og fara fram á það við hæstv. utanrrh. að hann láti kanna hvers eðlis sú stofnun er sem þessar 5 ára gömlu upplýsingar eru étnar upp eftir hér ár eftir ár, hvort það sé rétt, sem haldið er fram og fullyrt í Ríkisútvarpinu, að þetta sé hin virtasta og áreiðanlegasta stofnun sinnar tegundar í veröldinni, hver kosti starfsemi þessarar stofnunar, hver séu pólitísk tengsl hennar og yfirleitt hvar hún standi meðal þeirra stofnana sem sinna slíkum málum, en þær skipta, eins og ég áður sagði, tugum a. m. k. Jafnframt því væri kannske ekki úr vegi að hv, þm. Ólafi Ragnar Grímssyni yrði boðið suður á Keflavíkurflugvöll. (ÓRG: Ég þakka.) Ég er ekki að bjóða, hef ekkert umboð til þess. Ég var að segja að það væri ekki úr vegi. Hann gæti þá leitað af sér allan grun í þessu máli. (ÓRG: Ekki stæði á mér að fara.) Jú, é er nefnilega ansi hræddur um að það stæði á hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni að fara, vegna þess að ég er þeirrar skoðunar og er sannfærður um að sú leit hans mundi engan árangur bera. Þá væru menn, eins og þar stendur, búnir að missa glæpinn og þá yrði ekki árviss atburður að þyrla upp þessu moldviðri lyga og blekkinga.