22.05.1980
Neðri deild: 86. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3108 í B-deild Alþingistíðinda. (3074)

194. mál, aðstoð við þroskahefta

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það var einhvern tíma á þriðja tímanum í nótt sem unnt var að ganga til atkv. hér um nokkur mál sem voru til 2. umr. í þessari hv. d. Að vísu tókst ekki þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir forseta að koma ýmsum áhugamálum hæstv. ríkisstj. fram, þar sem mjög skorti á að stjórnarþm. væru mættir til atkvgr. Við stjórnarandstæðingar hlupum þá undir bagga með hæstv. ríkisstj. í hverju málinu á fætur öðru og komum þannig í veg fyrir að alger stöðvun hlytist af í afgreiðslu þessara mála á þingfundi í nótt.

Meðal þeirra mála, sem komu þá til umr. og atkvgr. eftir 2. umr., var frv. til l. á þskj. 482 um breyt. á lögum nr. 47 30. maí 1979, um aðstoð við þroskahefta, en frv. þetta var flutt af félmn. Ed. og hafði verið samþ. þar óbreytt, en lagt fyrir Nd. síðan.

Þeir atburðir urðu við atkvgr., að brtt. frá þeim hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og Árna Gunnarssyni var samþ. Brtt. þessi var þess eðlis, að ný grein kæmi inn í umrætt frv. er hljóðaði þannig, að til viðbótar framlagi, sem ákveðið var í 1. gr. frv. eins og það kom frá Ed., skyldi ríkissjóður leggja sjóðnum, þ. e. Framkvæmdasjóði þroskaheftra, a. m. k. 225 millj. kr., í fyrsta sinn á árinu 1981. Sú fjárhæð ætti að hækka í samræmi við vísitölu framfærslukostnaðar miðað við árið 1980 að grunni.

Þessi brtt. var samþ. hér í Nd. Alþ. með 16:14 atkv. Formaður þingflokks Framsfl., hv. þm. Páll Pétursson, neitaði að taka þá atkvgr. gilda og krafðist þess að atkvgr. yrði endurtekin. Hæstv. forseti varð við þeirri ósk og þá var brtt. samþ. með 16:15 atkv. Ekki kom fram krafa um að gengið yrði til atkv. um þessa brtt. í þriðja sinn.

Hæstv. fjmrh., sem var fjarverandi atkvgr., kom ekki í húsið fyrr en lokið var við þessa atkvgr. og raunar ekki fyrr en hartnær var lokið við að afgreiða allar greinar í frv. sem hann hafði lagt fram hér á Alþ. um lánsfjárlög. Flestallar þessar greinar hafði þurft að afgreiða með atkv, stjórnarandstöðunnar þar eð hæstv. ráðh. var fjarverandi. Hæstv. ráðh. var ekki fyrr kominn í salinn og búinn að fá tíðindin af þessari afgreiðslu í Nd. en hann óskaði eftir því við hæstv. forseta d. að málið yrði ekki látið ganga áfram. Hæstv. fjmrh. óskaði eftir því á þeim fundi, sem settur var eftir þessa atkvgr., þar sem forseti d. hafði áformað að taka málið til 3. umr. og afgreiða það úr d. eins og ríkisstj. hafði óskað eftir. Hæstv. fjmrh. óskaði eftir því við forseta d. að málið yrði ekki tekið á dagskrá og ekki afgreitt í gær. Það þurfti níu þm. úr þessari hv. d. til þess að krefjast þess, að málið yrði tekið á dagskrá, sem forseti síðan varð við gegn mótmælum fjmrh.

Hæstv. fjmrh. kvaddi sér þá hljóðs hér til að gera þá furðulegu tillögu, að sú afgreiðsla, sem deildin hafði samþ. að honum fjarverandi nokkru áður, yrði dregin til baka. Hæstv. fjmrh. fann það út af vísdómi sínum, að á hans atkv. mundi það sennilega velta hvort þessi till., sem Nd. hafði samþ. rétt áður, fengist felld. Hæstv. ráðh. krafðist þess af deildinni, að hann fengi að nota atkv. sitt til að reka ofan í d. afgreiðslu sem hún hafði gert skömmu áður.

Mér er ekki kunnugt um hvort þetta er í samræmi við þingsköp, að menn geti með þessum hætti, sem fjarverandi hafa verið við atkvgr. við 2. umr., krafist þess að deild verði gerð ómerk gerða sinna við 3. umr. og felli till. sem samþ. voru í fjarveru þeirra. Sennilega er slíkt ekki brot á þingsköpum. Sennilega er unnt að hegða sér með því móti. En dæmin eru ekki mörg úr þingsögunni um að menn hafi gripið til slíks ráðs.

Það er mjög einkennilegt að hæstv. fjmrh. skuli telja sér sæma að skrá í þingsöguna nafn sitt með þessu móti, að ekki aðeins hafi hæstv. ráðh. á fyrstu vikum í starfsferli sínum ákveðið að beita sér fyrir slíkum afgreiðslumáta hér í d., heldur skuli hann velja sér til þess mál af þessu tagi, þar sem hann krefst þess, eftir að hv. Nd. er búin að samþykkja tiltekna afgreiðslu til hagsbóta fyrir þroskahefta í landinu, að sú óvenjulega afgreiðsla sé gerð strax í kjölfarið, að d. felli umrædda afgreiðslu vegna þess að atkv. hæstv. fjmrh. réði þar úrslitum og hann var fjarverandi í það skiptið sem d. greiddi atkv. um málið. Þetta er í hæsta máta furðulegt. Ég verð að segja eins og er, án þess að nota mjög stór orð um það: Þetta er mjög ámælisvert. Og ég vil eindregið óska eftir því við hæstv. fjmrh., að hann sjái að sér í þessu máli og verði við áskorunum fjölmargra þm. um að skoða hug sinn betur og draga þessa till. til baka. Þó svo það kunni að vera erfitt fyrir ráðh. að sætta sig við að koma ekki vilja sínum fram í atkvgr. vegna þess að hæstv. ráðh. sé fjarverandi, þá verður hroka manna þó að vera nokkur takmörk sett og menn verða að gera sér ljóst að það er ekki verjandi með mál eins og þetta, að ríkisstj. eða einstakir ráðh. krefjist þess, þegar þd. er búin að taka ákvörðun í viðkvæmum félagslegum málefnum eins og þessu, að d. éti ofan í sig þá afstöðu sína.

Þetta er ótímabær hroki. Þetta er hroki sem ekki á við í málum af þessu tagi. Og ég er alveg sannfærður um að fjöldinn allur af þm. er sama sinnis og ég í þessu efni. Ég held að þar skiptist menn ekkert eftir flokkum í afstöðu sinni. Ég er sannfærður um að þessa skoðun hafa miklu fleiri þm. en bara þm. Alþfl. Ég er sannfærður um að fjölmargir af flokksbræðrum hæstv. fjmrh. eru einnig á þessari skoðun. Ég held að hæstv. fjmrh. yrði maður að meiri ef hann gerði sér ljóst að það er ekki æskilegt að halda við afstöðu af þessu tagi bara til að geta sýnt þingheimi og landslýð fram á að hann hafi valdið. Það er ekki æskilegt að ætlast til þess af mönnum, sem hafa áhuga á máli af þessu tagi, að þeir, eingöngu vegna þess að um hæstv. ráðh. er að ræða, lúti fyrirskipun hans um að taka til baka í dag það sem hv. deild samþykkti í nótt í jafnviðamiklu og viðkvæmu máli og hér er um að ræða.

Ég tel ekki ástæðu til að fara neitt sérstaklega hörðum orðum um afstöðu hæstv. fjmrh., sem ég vona að sé á misskilningi byggð, og óska þess einlæglega að hæstv. ráðh. endurskoði afstöðu sína og verði við þeirri vinsamlegu áskorun minni að draga þá till. sína til baka að d. sé látin fella það í dag sem hún afgreiddi í nótt. Ef hæstv. ráðh. fellst hins vegar ekki á þau tilmæli, en situr fast við sinn keip, kynni að vera ástæða til að taka málið svolítið öðrum og fastari tökum í umr. hér á Alþingi.

Ég hef ekki nokkra trú á að hæstv. ráðh. skilji ekki að honum hafi orðið á mistök í nótt. Allir eiga leiðréttingu orða sinna og gerða. Ég trúi því ekki fyrr en í fulla hnefana, að hæstv. ráðh. sé það hrokafullur í sinni að hann fallist ekki á tilmæli af þessu tagi. Ég ætla því ekki, til þess að spilla því ekki á nokkurn hátt að hæstv. ráðh. geti talið sjálfum sér hughvarf, með orðum mínum að reyna á einn eða neinn hátt að leggja stein í götu hans með því að fara þeim orðum um þá afstöðu, sem hæstv. ráðh. tók í nótt, sem ella væri ástæða til.

Ég vil út af orðum hans í nótt koma á framfæri nokkrum leiðréttingum.

Hæstv. ráðh. sagði að brtt. þessi frá hv, þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og Árna Gunnarssyni væri heldur óvanaleg, þar sem 1. flm. till. hefði skrifað undir nál. félmn., sem fjallar um þetta mál hér í d., án þess að láta þess getið að hún stæði að umræddri tillögusmíð. Ég vil upplýsa hæstv. ráðh. um að hinn 16. maí s. l., þegar frv. þetta kom til l. umr. hér í d., áður en frv. fór til félmn. þessarar hv. d., flutti hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir ræðu sem ég er með ljósrit af hérna fyrir framan mig, þar sem hún mælir fyrir brtt. á þskj. 524 og rökstyður nauðsyn hennar og óskar eftir því við félmn., sem hún á sæti í, að hún taki till. til skoðunar og athugunar. Till. hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur er þannig komin fram nokkru áður en málið gengur til félmn. og liggur fyrir n. þegar hún tekur afstöðu til frv. þessa. Það er því misskilningur hæstv. ráðh. að hv. þm. hafi flutt þessa till. eftir að um málið hafði verið fjallað í félmn. Þm. flutti till., áður en málinu var vísað til félmn., og ritaði undir nál. n. með fyrirvara vegna þess að þm. hugðist greiða atkv. með brtt. sem hún flutti ásamt hv. þm. Árna Gunnarssyni við 1. umr. málsins. Ummæli hæstv. fjmrh. í nótt eru því byggð á misskilningi. Hæstv. ráðh. hafði ekki kynnt sér nægilega vel hvernig málið var í pottinn búið.

Í öðru lagi sagði hæstv. ráðh. að hann gæti ekki stutt þessa till. og ekki léð máls á afgreiðslu eins og hún gerir ráð fyrir vegna þess að með því væri verið að fitja upp á því að binda útgjöld í fjárlögum ársins 1981 áður en að því kæmi að undirbúa slíka fjárlagagerð. Ég vil taka það fram hæstv. fjmrh. til upplýsingar, að slíkar afgreiðslur eru alvanalegar á Alþ. Ég er t. d. með langan lista, yfir 39 mál, sem hæstv. ríkisstj. lagði fram fyrir allmörgum vikum á sameiginlegum fundi með formönnum þingflokka, lista yfir mál sem hæstv. ríkisstj. óskaði að afgreidd yrðu fyrir þinglok. Flestöll þessi mál hafa þegar verið afgreidd sem lög frá Alþingi. Mörg af þessum málum leggja ríkissjóði á herðar greiðsluskyldur sem ríkissjóður á að inna af hendi þegar á næsta ári án þess að farið sé að fjalla með nokkrum hætti í fjmrn. um undirbúning eða stefnumörkun í fjárlagagerð fyrir það ár. Þannig eru þau ummæli hæstv, ráðh., að það sé eitthvað óvanalegt að afgreiða útgjaldamál á Alþ. áður en farið sé að fjalla um afgreiðslu fjárlaga viðkomandi árs, út í hött. Að hans beiðni hefur Alþ. þegar afgreitt allmörg slík mál og er að afgreiða nú á þessu þingi. Á dagskrá sama fundar og við nú sitjum á er einmitt mál af slíku tagi, frv. til l. um Húsnæðisstofnun ríkisins, sem leggur ríkissjóði greiðsluskyldur á herðar, ekki aðeins árið 1981, heldur um fjölmörg komandi ár, án þess að það sé svo mikið sem farið að leiða hugann að fjárlagagerð þess tíma. Viðbára hæstv. ráðh. og útúrsnúningur er því út í hött.

Í þriðja lagi held ég að ég hafi kallað fram í fyrir hæstv. ráðh., þegar hann var að flytja þessi rök sín sem engin rök eru, og vakið athygli á að rétt áður en hann flutti ræðu sína hefði einmitt verið afgreitt hér í Nd. frv. um Iðnrekstrarsjóð sem einmitt hefði gert ráð fyrir að binda ákveðin útgjöld úr ríkissjóði á næstu árum áður en væri farið að fjalla um fjárlagagerð fyrir þau ár. Hæstv. ráðh. svaraði mér héðan úr ræðustól. Hann svaraði framíkalli mínu með því að þetta væri rangt, ekki væru nein ákvæði um þessi efni í frv. til l. um Iðnrekstrarsjóð, ég skyldi lesa frv. betur. Ég er með frv. hérna fyrir framan mig. Maður skyldi ætla að ráðh. í ríkisstj., sem fer með ríkisfjármál, hefði einhverja hugmynd um hvaða mál ríkisstj. leggur fram til samþykktar á Alþ. sem varða útgjöld úr ríkissjóði. Í 5. gr. frv. til l. um Iðnrekstrarsjóð stendur svo, með leyfi hæstv. forseta, að auk þeirra framlaga, sem þar um ræðir og eiga að ganga til sjóðsins, eigi þangað að ganga framlag ríkissjóðs er miðist að lágmarki við 0.6% af vinnsluvirði iðnaðar undanfarið ár samkv. áætlun Þjóðhagsstofnunar, í fyrsta sinn árið 1982 og síðan árlega til og með árinu 1985. Ég held að hæstv. ráðh. ætti að lesa eigin mál öllu betur. Þetta stendur hér svart á hvítu í frv. Þar er ekki aðeins að um sé að ræða útgjaldaákvörðun vegna næsta árs, það er um að ræða útgjaldaákvörðun í fjárlögum ársins 1982 og allt til ársins 1985, og er mér ekki kunnugt um að fjmrn. sé svo mikið sem byrjað að leiða hugann að fjárlagagerð fyrir þann tíma. Því skýtur hálfskökku við ef hæstv, fjmrh. ætlar að rökstyðja afstöðu sína gegn þeirri breytingu, sem samþ. var hér á Alþ. í nótt, með því að það nái ekki nokkurri átt að samþykkja hér í þinginu útgjöld varðandi árið 1981 áður en kæmi að því að undirbúa fjárlagagerð fyrir það ár. Hæstv. ráðh. hefur í þessu tiltekna frv. óskað eftir að Alþ. afgreiddi, og það var reyndar gert í Nd. s. l. nótt, bindingar á útgjöldum ríkissjóðs í fjárlögum, ekki aðeins varðandi árið 1981, heldur varðandi árin 1982, 1983, 1984 og 1985. Gegnir kannske einhverju öðru máli ef um er að ræða framlög ríkissjóðs til Iðnrekstrarsjóðs en þegar um er að ræða framlög ríkissjóðs til Framkvæmdasjóðs þroskaheftra? Eiga kannske að gilda aðrar reglur í þessu efni um Framkvæmdasjóð þroskaheftra en gilda um Iðnrekstrarsjóð?

Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um málið að þessu sinni, ætlaði aðeins að nota tækifærið til að leiðrétta það sem fram kom hjá hæstv. fjmrh. í nótt um allan aðdraganda málsins, sem augsýnilega byggist á því, að hæstv. ráðh. hefur ekki, þegar hann fór í ræðustól, verið búinn að kynna sér, hvernig þessi brtt. varð til hér í deildinni, og fór því með rangt mál. Í öðru lagi vildi ég leiðrétta röksemdafærslu hæstv. ráðh. gegn því að vilja fallast á afgreiðslu d. í nótt, — röksemdafærslu sem ekki aðeins er byggð á misskilningi, heldur á algerum þverstæðum.

Herra forseti. Ég hef svo þessi orð ekki fleiri. Ég ítreka óskir mínar til hæstv. fjmrh. um að hann dragi till. sína til baka, sem hann gerir um að hv. Nd. breyti um afstöðu til Framkvæmdasjóðs þroskaheftra á nokkrum klukkustundum, og ég fullyrði að hæstv. ráðh. yrði maður að meiri ef hann tæki slíkum áskorunum. Ég held að hann mundi hljóta fyrir það þakkir, ekki bara þeirra sem aðild eiga að sjóðnum og hafa þar hagsmuna að gæta, heldur líka okkar þm. Stundum er viturlegt að kunna að beygja sig. Stundum er viturlegt að láta ekki hrokann og stoltið alfarið stjórna sínum gerðum.