28.05.1980
Efri deild: 104. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3160 í B-deild Alþingistíðinda. (3102)

180. mál, lánsfjárlög 1980

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svar hans. Það, sem mest er um vert í hans svari, er að hann lýsti því yfir að það kæmi ekki til greina að Vesturlínu yrði frestað, það kæmi ekki til greina annað en Vestfirðir yrðu tengdir aðalorkuveitusvæði landsins á þessu ári og á þeim tíma sem ráð er fyrir gert í haust. Ég skil svar hans þannig.

Hæstv. ráðh. vék nokkrum orðum að nýjustu kostnaðaráætlunum fyrir þetta verk. Hann gaf þær upplýsingar, að það væri um lækkun að ræða frá því sem gert væri ráð fyrir í lánsfjáráætluninni, eða um 253 millj. kr. lækkun. Mér er kunnugt um þá áætlun sem hæstv. ráðh. vitnaði til. Ég átti viðræður við Rafmagnsveitur ríkisins um þetta mál bæði í dag og í gær. Án þess að ég vilji bera neinn fyrir því er það mitt persónulega mat, að ekki sé hyggilegt að reikna með mikilli lækkun eða að kostnaðurinn verði miklu lægri en lánsfjáráætlunin gerir ráð fyrir. Eins og ég sagði og lagði áherslu á í fyrri ræðu minni stoðar ekki að geyma neitt af þeim verkefnum sem þarf að framkvæma ef það þýðir að samtenging eigi sér ekki stað.

Hæstv. ráðh. sagði að það mætti ekki skilja heimildina samkv. 29. gr. frv. þannig að það væri heimilt að skera niður alla framkvæmdaliði eða heimildin yrði notuð þannig að allir framkvæmdaliðir væru skornir niður jafnt um 10%. Þetta er sjálfsagt og eðlilegt. En í framhaldi af þessu vil ég leyfa mér að vekja athygli á því, hve mikill munur getur verið á framkvæmdum í þessu sambandi. Þá fer ég ekki út fyrir það sem varðar Byggðalínu. Upphæðin í lánsfjáráætlun yfir byggðalínur á við Vesturlínu, sem nemur 4387 millj. kr., og Suðausturlínu, sem nemur 1120 millj. kr. Nú vil ég ekki fara í neinn meting á milli landshluta í þessu efni, því að alls staðar eru þessar línur jafnþýðingarmiklar, en ég leyfi mér í þessu sambandi og að gefnu tilefni að vekja athygli á þeim mun sem er á þessum framkvæmdum á þessu ári. Á þessu ári er hægt að ljúka Vesturlínu. En Suðausturlína, sem er gert ráð fyrir að hefja framkvæmdir á í sumar, er línan frá Hryggstekk í Skriðdal að Sigölduvirkjun. Í sumar er gert ráð fyrir að framkvæma við þessa línulögn staurareisingu og einhverja strengingu lína á svæðinu frá Skriðdal að Djúpavogi, en ekki að tengja Djúpavog. Á árinu 1981 er gert ráð fyrir að halda verkinu áfram og vera þá búinn að leggja línuna til Hafnar í Hornafirði og þá að tengja báða þessa staði, Höfn í Hornafirði og Djúpavog. M. ö. o.: ekkert af þessari línu og ekkert af þessari framkvæmd kemst í gagnið fyrr en síðla árs 1981. Þegar allt þetta er komið í gagnið er gert ráð fyrir að Suðausturlínan spari olíu fyrir um 800 millj. kr. á ári, en það er gert ráð fyrir að á næsta ári verði olíukostnaður á Vestfjörðum, ef línan kemur þangað ekki á þessu ári eins og ráð er fyrir gert, um 2000 millj. kr. Ég gæti gert frekari samanburð í þessu efni, en ég sé ekki ástæðu til þess. Þessar upplýsingar hef ég úr skýrslu frá Rafmagnsveitum ríkisins sem fjallar um samanburð á þessum verkum.

Það sem ég hef sagt í þessu efni, undirstrikar það sem hæstv. ráðh. sagði, að það er náttúrlega ekkert vit í því að ætla að nota heimild til niðurskurðar jafnt á alla framkvæmdaliði. Það verður að meta hvað er þjóðhagslega hagkvæmt, og þó að heimildin sé frekar notuð í einu tilfelli en öðru þýðir það ekki að það komi að neinni sök þegar svo stendur á um framkvæmd eins og Suðausturlínu.

Þetta segi ég hér til að leggja áherslu á hversu auðvelt val það hlýtur að vera hjá hæstv. ríkisstj. að sjá um að Vesturlínu verði lokið á þessu ári.

Ég vil svo hafa það mín síðustu orð í þessu sambandi, að ég lít svo á að orð hæstv. fjmrh. séu jafngóð lagaákvæði um þetta efni. Ég tel því að við hljótum allir að treysta orðum hæstv. ráðh. og á þeim grundvelli leyfi ég mér að taka till. mína og minna félaga til baka.