28.05.1980
Neðri deild: 88. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3196 í B-deild Alþingistíðinda. (3134)

194. mál, aðstoð við þroskahefta

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um till. á þskj. 617, sem hæstv. fjmrh. lagði fram í síðustu viku, þar sem ég tel að hann hafi nú dregið hana til baka og lagt fram nýja brtt. þess í stað.

Brtt., sem var samþ. við 2. umr., fól í sér aukið fjármagn um 225 millj. vegna þeirra verkefna sem frv. það, sem hér er til umr., leggur á Framkvæmdasjóð öryrkja. Meirihlutavilji þessarar hv. d. kom glögglega í ljós við atkvgr. um brtt. á þskj. 524, sem ég flutti ásamt hv. þm. Árna Gunnarssyni.

Ég sagði, þegar frv. var til umr. í s. l. viku, að það nál. félmn. væri nokkurs virði sem lýsti afstöðu heillar þingnefndar og viljayfirlýsingu um að Framkvæmdasjóður öryrkja yrði ekki skertur á næsta ári, auk þess sem fjárlaga- og hagsýslustofnun tæki tillit til þeirrar aukningar á verkefnum sem nú bætast á sjóðinn samkv. frv. En það væri mér engu að síður ónóg trygging miðað við fyrri reynslu og því héldi ég fast við brtt. og legði áherslu á samþykkt hennar.

Ég held að það gefist lítið tilefni til að ætla að aukning verði á fjármagni sjóðsins til þessara verkefna á næstu fjárlögum þegar lagt er til að tillaga, sem tryggir a. m. k. 225 millj. sem leggja á í sjóðinn, verði felld. Í því sambandi vil ég benda á og upplýsa hér, að stjórnarnefnd, sem sér um úthlutun úr sjóðnum, hefur nú borist beiðni um 800–900 millj. kr. framlag úr sjóðnum — eingöngu vegna þeirra verkefna sem nú á að bæta á sjóðinn samkv. þessu frv. Heildarúthlutunarbeiðnir úr sjóðnum eru nú orðnar 2.4 milljarðar, en sjóðurinn hefur til umráða 1060 millj. Sú brtt., sem samþ. var við 2. umr., er því aðeins lítill hluti af því viðbótarfjármagni sem renna þyrfti til sjóðsins vegna þeirra auknu verkefna sem frv. gerir ráð fyrir.

Hæstv. fjmrh. bauð samkomulag í þessu máli við 3. umr. sem frestað var s. l. fimmtudag. Það kom fram í máli hans þá. En ég tel ekki að hæstv. fjmrh. geti samið beint um þetta mál við flm. till., þeir hafi hreinlega enga heimild til að semja um þetta mál því að meirihlutaviljinn kom fram við 2. umr. um málið. Hins vegar er ljóst að 225 millj., sem meiri hl. var fyrir við 2. umr. um málið að setja í framkvæmdasjóð 1981, eru algert lágmark miðað við viðbótarverkefnin. En telji hæstv. ráðh. sig ekki geta staðið að því nú að sú upphæð verði tryggð 1981 og gengið verði að því gefnu nú, þá veit ég ekki hverju er að treysta í þessu máli, þó að náttúrlega verði að vona að fé verði tryggt með þeirri skuldbindingu sem felst í brtt. fjmrh.

Í till., sem hæstv. fjmrh. nú leggur fram, felst skuldbinding sem gefur tilefni til að ætla að eitthvert viðbótarfjármagn komi vegna hinna auknu verkefna sem frv. felur í sér. Auðvitað ber að meta það. Engu að síður er því ósvarað, hver sú upphæð verður, og það bíður næsta vetrar, hvaða reikningskúnstir verða þá viðhafðar gagnvart þessum sjóði. Ég tel því að viðbótarverkefnin standi tryggari fæti eins og frv. er nú, þó ljóst sé að nokkur skuldbinding felist í brtt. ráðh. Það er þó vítaskuld betri lausn — ég vil leggja áherslu á það - að málinu verði lokið þannig en að fella brtt. á þskj. 524 við 3. umr., sem annars virðist stefna í í þessu máli.