28.05.1980
Sameinað þing: 68. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3203 í B-deild Alþingistíðinda. (3149)

Rannsókn kjörbréfs - varamenn taka þingsæti

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Menn hafa fært dylgjur í tal. Hv. þm. Vilmundur Gylfason talaði um að menn ættu ekki að vera hér með dylgjur. Hann gat þó ekki látið hjá liggja að bera það á okkur þm. Framsfl. af Vestfjörðum að það væru gerðir samningar um að þessi eða hinn fengi að koma inn á Alþingi. Hvað eru þetta annað en dylgjur, ómerkilegustu dylgjur, ærumeiðandi dylgjur, hv. þm.? Ég sé ekki betur en Alþingi Íslendinga hafi verið gerð vanvirða og það ærin með því að kjósa suma menn á þing, sem eilíflega eru með dylgjur.

Ég vil bæta því við, að það liggur mér vitanlega ekkert fyrir um að Alþingi Íslendinga verði slitið eftir 24 klukkustundir. Ég sat á þingflokksfundi Framsfl. áðan og hlustaði á skilyrðin fyrir því að það ætti að gerast. Einn heimtaði þetta og annar hitt. Það var enginn áhugi hjá hinum almenna þm. þar á að ganga að þeim skilyrðum sem sett voru af öðrum flokkum í því sambandi. Ég lýsi mig því algerlega óbundinn af því að vera til friðs og hlusta hér á málefni sem hugmyndum var að kæmu fram, og leyfa aðeins ákveðnum mönnum að tala.

Herra forseti. Þegar Finnbogi Hermannsson var boðaður hingað suður lágu engir samningar fyrir. Það blasir við. Og ég fyrir mína parta vil taka undir það með hv. þm. Páli Péturssyni, að við Vilmund Gylfason mundi ég aldrei gera samninga um eitt eða neitt.