29.05.1980
Neðri deild: 91. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3228 í B-deild Alþingistíðinda. (3190)

195. mál, tollheimta og tolleftirlit

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. um tollkrít eða þau tollamál sem á dagskrá eru.

Ég vil aðeins leggja það fram í þessu máli sem rök fyrir því, að tollkrít verði tekin upp sem allra fyrst, að þegar á dagskrá var sú nýbreytni að taka upp og stofna tollvörugeymslu á Íslandi voru öll rök tínd fram á móti og varnaðarorð fyrir hönd ríkissjóðs töluð og mikil hætta talin á að ríkissjóður yrði fyrir annaðhvort tekjumissi eða tekjutapi. Ég held að hið gagnstæða hafi komið í ljós. Ríkissjóður hefur haft auknar tekjur af tilvist tollvörugeymslunnar, fyrir utan það öryggi sem tollvörugeymslan gefur með því t. d. að í landinu eru birgðir svo milljörðum skiptir á kostnað erlendra framleiðenda, eigenda. Þótt hluti af þeim vörulager, sem er í tollvörugeymslunni, sé á ábyrgð innlendra aðila er fjárfestingin í þeim vörum í miklu smærri stíl hverju sinni sem vara er flutt inn. Þannig er minna álag á gjaldeyrissjóði þjóðarinnar.

Nú erum við að tala um tollkrít. Við skulum átta okkur á því, að hefði tollkrít komist á fyrir mörgum árum þegar fyrst var byrjað að tala um hana, en það var um það leyti sem tollvörugeymslan var stofnuð, um 1962, hefðum við ekki þurft að fjárfesta í þeim gríðarlega dýru mannvirkjum sem hinar stóru vörugeymslur skipafélaganna eru. Öll þessi mannvirki eru á dýrustu lóðum sem landið getur boðið, en það eru hafnarsvæði, það eru tilbúnar lóðir, þar eru hafnarmannvirki. Því til viðbótar má benda á að bara vextirnir af því fé, sem fest er í vörugeymslum til að hýsa þar vörur sem annars færu í vörugeymslur innflytjendanna, væru nógir til að fjármagna innflutninginn á vörunum sjálfum. Það eru komnir milljarðar á milljarða ofan í vörugeymsluhús til að hýsa þær vörur sem eiga að fara beint heim í þær vörugeymslur sem standa auðar hjá innflytjendum.

Ég bið hv. alþm. að hafa í huga að hér er um að ræða gríðarlegan sparnað og létti fyrir bankakerfið, og tekjur til ríkissjóðs streyma reglulegar inn en nú er ef tollkrít verður tekin upp. Hér tala ég af reynslu.

Ég vona að þau frv., sem hér liggja fyrir, nái fram að ganga sem allra fyrst vegna þess að það er þjóðhagslega hagkvæmt.