10.01.1980
Sameinað þing: 9. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í B-deild Alþingistíðinda. (354)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Mér er ánægja að því að svara þessari fsp. Eins og þingheimi öllum og kannske sérstaklega hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni er mjög vel ljóst, er ákvörðun fiskverðs ævinlega bæði mikilvæg og vandasöm. Og nú er hún það eiginlega venju fremur. Það hafa margvíslegar kostnaðarhækkanir átt sér stað í þeirri verðbólgu sem við búum við, en allir flokkarnir tala á hinn bóginn fyrir því að sporna gegn verðbólguþróun eftir því sem mögulegt er. Ákvörðun fiskverðs hlýtur að taka mið af þessum sjónarmiðum báðum, nefnilega að finna viðunandi rekstrargrundvöll sjávarútvegs og viðunandi tekjur til sjómanna annars vegar og hins vegar að sporna eftir mætti gegn verðbólguþrýstingi.

Samningagerðin sjálf er hins vegar í höndum yfirnefndar Verðlagsráðs sjávarútvegsins, eins og kunnugt er, og málið hefur að sjálfsögðu verið þar til umfjöllunar að undanförnu. Eins og hv. þm. Matthías Bjarnason benti á, hefur af hálfu yfirnefndar verið beðið tvívegis um frest á ákvörðun, og menn hafa orðið sammála um það í yfirnefndinni. Í fyrra sinnið var óskin um frestun til 8. jan. og við því orðið. Í síðara skiptið var ótiltekið hvað fresturinn skyldi vera langur. Mér þótti ekki stætt á því að veita ótiltekinn frest, og að höfðu samráði við formann yfirnefndarinnar varð að ráði að veita 10 daga viðbótarfrest. En auðvitað er von að menn fari að verða órólegir yfir því, hvað þetta dregst úr þessu.

Um stöðuna almennt er það að segja, að samkv. þeim bráðabirgðagögnum sem hafa verið unnin — sem eru reyndar vinnuplögg og ekki hægt að vitna nákvæmlega til þeirra um tölur, þar sem þau eru ekki fullfrágengin — en samkv. þeim virðist ljóst að hagur sjávarútvegsins hafi vænkast nokkuð á síðasta ári og það hlýtur náttúrlega að koma inn í þessa mynd. Þetta á sérstaklaga við um útgerðina, en síður um fiskvinnsluna, hún getur náttúrlega ekki risið.undir mikilli fiskverðshækkun við þessar aðstæður óbreyttar. Ég vil hins vegar minna á það, að í umr. hér fyrir jól benti ég á að vandséð væri að niðurstaða fengist í þessu máli nema með framlengingu á olíugjaldi í einhverjum mæli og í einni eða annarri mynd. Horfurnar eru óbreyttar að þessu leyti, eins og líka hv. þm. benti á og sagðist sjá. Og sama gildir reyndar um annað efni sem ég gerði þá að umtalsefni og kom þá líka til nokkurrar umr. nefnilega verðuppbætur á vannýttar tegundir.

Það, sem hér er um að ræða mögulega lagasetningu um, er varðandi þrennt í rauninni. Það er olíugjald í einni eða annarri mynd og í einhverjum mæli. Í öðru lagi verðuppbætur á vannýttar tegundir, en það er mál sem þarf að komast í fastan og sérgreindan farveg, og í tengslum við þetta væntanlega breytingar á lögum um útflutningsgjald, eða a.m.k. geta verið horfur á því. Þetta er í raun og sannleika staða málsins eins og hún er núna.

Málin eru sem sagt til umfjöllunar í yfirnefndinni, og ég vil ítreka að þau eru auðvitað rekin þar með sjálfstæðum hætti í sínum rétta farvegi. Og þar sem þau eru nú enn á samningastigi er ekki á þessu stigi tímabært eða skynsamlegt að ætla að taka þau til nákvæmrar umr. og það ekki fyrr en línur hafa skýrst og t.d. er vitað hvaða atbeina sé þörf af hálfu hv. Alþingis.

Hitt er alveg ljóst, að ég hef að sjálfsögðu talið það og tel það skyldu mína að gera þingflokkunum grein fyrir þessu máli strax og línurnar hafa skýrst, þannig að málið sé í frambærilegu formi. Jafnframt tel ég það vitaskuld skyldu mína, þegar þar að kemur og ef svo til rekur sem allar horfur eru á, að leggja þá fram þau lagafrv. sem nauðsynleg reynast í þessu sambandi. Ég hef trú á því, að málið muni komast á það stig á næstu dögum, að það sé tímabært, rétt og eðlilegt að leggja það fyrir fulltrúa þingflokkanna og leggja síðan lagafrumvörp fram hér á Alþingi.