15.01.1980
Sameinað þing: 11. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í B-deild Alþingistíðinda. (379)

211. mál, þjónusta strandstöðvarinnar í Hornafirði

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. svör hans, og ég fagna því að ekki verður a.m.k. rasað um ráð fram í þessu efni meðan ástandið er eins og það er núna, því að ekki er mjög langt síðan símasambandslaust varð við Höfn í heilan sólarhring vegna eldingar. Þá hefði fjarstýring getað orðið býsna erfið, svo að ekki sé meira sagt.

Ýmislegt af því, sem hæstv. ráðh. taldi upp um þjónustu stöðvarinnar, er satt og rétt. Þarna hafa menn unnið starf sitt af mikilli kostgæfni og veitt mönnum ýmsa þjónustu, en miklu meira en það sem hér var upp talið, ýmsa nauðsynlega þjónustu sem menn eru hræddir um að falli einmitt niður með fjarstýringu af því tagi sem ráð er fyrir gert.

Ég er ekki á móti sparnaði í þessu efni, síður en svo, ef ég hefði trú á að um raunverulegan sparnað yrði að ræða. En ég er alls ekki viss um að um sparnað verði að ræða þó önnur skipan yrði upp tekin. Samkv. upplýsingum, sem ég hef aflað mér í sambandi við þetta, gæti alveg eins farið svo, miðað við að einn maður sparaðist austur á Höfn, að bæta yrði 2–3 mönnum við í Gufunesi. Ef sú yrði reyndin, sem ég hef rökstuddan grun um, efast ég mjög um að sparnaður yrði að því. Það vill nefnilega oft verða hjá þessum góðu stofnunum okkar, sem staðsettar eru í Reykjavík, að sparnaðurinn er fyrst og fremst úti á landsbyggðinni, en þegar kemur að höfuðstöðvunum vill verða minna um sparnaðaraðgerðir og jafnvel aukningu á sama tíma og verið er að spara ýmsa þjónustu úti á landsbyggðinni.

Ég fagna því sem sagt, að ekki verður rasað að þessu máli, og ég vænti þess að haft verði samband við menn þar eystra áður en nokkur ákvörðun verður í þessu efni tekin og það verði einnig haft samband við okkur þm. kjördæmisins, svo að það sé þá alveg ljóst að ef þessi breyting kemur til framkvæmda sé hún gerð í fullu samráði við heimamenn þannig að tryggt sé að sú nauðsynlega þjónusta, sem þarna fer fram, verði í engu lakari og einnig að menn fái að fylgjast nægilega með til þess að ekki verði um mjög skerta og verri þjónustu að ræða en nú er, sem allir þarna eystra, eftir því blaði sem ég las upp áðan, eru sammála um að sé á svo mörgum sviðum að útilokað sé að það fyrirkomulag, sem gert er ráð fyrir með fjarstýringu, geti komið í staðinn.