15.01.1980
Sameinað þing: 11. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í B-deild Alþingistíðinda. (385)

212. mál, beinar greiðslur til bænda

Fjmrh. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að blanda mér í þær umr. sem hér eiga sér stað, heldur aðeins í tilefni af 3. tölul. í fsp. hv. fyrirspyrjanda, þar sem hann spyr hvað líði athugun á breytingum á greiðslu útflutningsbóta og niðurgreiðslna þannig að þær nýtist betur, upplýsa að fjmrn. og viðskrn. eru samkv. beiðni ríkisstj. að láta athuga hvernig greiðslum sé háttað á útflutningsbótum og niðurgreiðslum, hvernig þær fari fram, hvenær og hvaða aðilum þær séu greiddar svo og hvaða reglur gildi almennt um hverjir veiti þeim viðtöku.

Á bak við býr ekkert annað en að afla þeirra upplýsinga sem hv. þm. er að spyrja um, en t.d. mætti nefna í þessu sambandi að sú ákvörðun var tekin af fyrrv. hæstv. ríkisstj. að af þessu niðurgreiðslu- og útflutningsbótafé skyldi fyrst sérstaklega gera upp vaxta- og geymslukostnað þeirra aðila sem þar eiga hlut að máli. Þetta hefur tvær hliðar eins og öll mál. Að gera upp með þessum hætti getur valdið að a.m.k. sé ekki þrýstingur á um að hraða sendingu úr landi á þeim umframbirgðum af landbúnaðarvörum sem falla til í landinu, en það er að sjálfsögðu verulegur kostnaður fólginn í því að liggja með slíkar birgðir mjög lengi. Bæði er fólginn í því mikil geymslukostnaður, en enn fremur talsverður vaxtakostnaður. Sá kostnaður getur verið miklu meiri en sá hagur sem í því kann að vera fólginn að geyma umframbirgir um vikna eða mánaða skeið til að ná nokkurra króna hærra verði fyrir þær á erlendum markaði. Þessi mál er verið að athuga af hálfu ríkisstj. til þess að það liggi fyrir hvernig greiðslur gagnast í þessu sambandi. Það hefur engin ákvörðun verið tekin af hálfu ríkisstj. um neinar breytingar á þessum greiðslureglum.