15.01.1980
Sameinað þing: 11. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í B-deild Alþingistíðinda. (407)

57. mál, umboðsfulltrúar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins

Fjmrh. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins taka fram að þessi ráðning hæstv. dómsmrh. er innan ramma þeirra stöðuheimilda sem það rn. hefur. Það hefur gerst að þar hefur maður hætt störfum sem tekur laun samkv. launakerfi ríkisins sem deildarstjóri. Í staðinn hefur hæstv. dómsmrh. ráðið annan mann í embætti til skamms tíma, þannig að hér er um að ræða ráðstöfun sem er að fullu innan þeirra heimilda sem ráðh. hefur til launagreiðslna í skrifstofu rn. til starfsmanna þar. Það var aðstoðarmaður dómsmrh. sem hætti störfum. Það var gert ráð fyrir því á fjárl. að laun hans væru greidd, og hann tók laun sem deildarstjóri. Í staðinn réð hæstv. dómsmrh. annan starfsmann á sömu kjörum og hefur þar með haldið sér að fullu og öllu innan heimilda Alþingis um launagreiðslur.

Hitt er svo annað mál, sem ég vildi benda á og vekja athygli á, að hér er aðeins um að ræða takmarkaða ráðningu til eins árs og fjvn. hefur að sjálfsögðu í hendi sér og Alþ., hvort kostnaður dómsmrn. verður lækkaður sem þessu nemur vegna ráðningar á aðalskrifstofu frá því, sem frv. fyrrv. fjmrh. gerði ráð fyrir, og frá því, sem frv. núv. ríkisstj. til fjárl. gerir ráð fyrir.

Í annan stað vil ég upplýsa það, að þessi ráðstöfun hæstv. dómsmrh. var borin upp í ríkisstj. og samþ. þar, öfugt við það sem gert var um ráðningu blaðafulltrúa fyrrv. hæstv. ríkisstj.