15.01.1980
Sameinað þing: 12. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í B-deild Alþingistíðinda. (409)

11. mál, útibú frá Veiðimálastofnun

Flm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 11 hef ég leyft mér að flytja svo hljóðandi till. til þál.:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að koma á fót útibúi frá Veiðimálastofnun á Austurland. Skal að því stefnt að útibúið geti tekið til starfa á árinu 1980.“

Óþarft er að hafa mörg orð hér um utan þess sem grg. segir og á eftir verður rakið, svo og bréf frá aðalfrumkvöðull þessa máls til okkar þm. Austurlands, sem einnig verða rakin úr höfuðatriði hér á eftir.

Laxarækt og laxeldismál eru nú ofarlega á baugi og umr. um þau miklar og ýmsar hræringar þar uppi sem snerta framtíðarmöguleika þessarar greinar, sem margir telja að eigi sér þá bjarta og góða sem arðgefandi atvinnugrein fyrir þjóðarbú okkar. Er þar vitnað í hvort tveggja, reynslu annarra þjóða og þær aðstæður sem hér eru og mörgum þykja hinar ákjósanlegustu, jafnvel með þeim bestu í veröldinni. Veldur þar að sjálfsögðu miklu, hver þróun þar verður í heild, hversu stutt verður að því að tilraunir og aðgerðir megi takast sem best og skila sem skjótustum árangri, og þá ekki síður hitt, að þannig verði að málum staðið að þjóðarbú okkar njóti sem best og um leið að nýting þessarar auðlindar verði sem skynsamlegust og notadrýgst fyrir þjóðarheildina alla, einkum í ljósi nýrra upplýsinga um stórfellda möguleika, jafnvel umfram það sem bjartsýnismenn hafa þó talið. Þá sögu og þá möguleika kunna aðrir betur að rek ja en ég, m.a. þeir sumir er hér sitja í þingsölum, og skal ekki nánar út í það farið, þó ekki sé unnt að komast hjá því að minna hér á heildarþýðingu laxaræktar í leiðinni, þegar fyrir þessari litlu till. er mælt. Í grg. segir svo, með leyfi forseta:

„Áhugi fyrir laxarækt á Austurlandi hefur farið sívax­ andi og hefur hinn aldni bændahöfðingi, Sveinn Jónsson á Egilsstöðum, haft þar um lofverða framgöngu og beitt sér fyrir málum af eldlegum áhuga. Um þetta efni flutti hann m.a. hið merkasta erindi á aðalfundi Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi á Eiðum 1978 og sá fundur lýsti yfir eindregnum stuðningi við meginhugmyndir hans. Fyrir forgöngu Sveins á Egilsstöðum var þetta mál svo tekið fyrir hjá Landssambandi veiðifélaga og frá þeim samtökum barst í vor bréf um þetta mál til fjvn. og er það birt hér sem fskj. til rökstuðnings.“

Í fskj. er svo greint frá bréfi Landssambands veiðifélaga til fjvn., en Landssambandið og Veiðimálastofnunin hafa haft þetta mál til umfjöllunar og athugunar og báðir aðilar lagt á það mjög mikla áherslu, að það næði einhvern veg fram að ganga.

Í bréfi frá Sveini Jónssyni, sem ritað var í árslok 1978 og miðaðist við möguleika á einhverju fjármagni á árinu 1979, segir m.a., með leyfi forseta, en bréfið var skrifað í des. 1978:

„Á stjórnarfundi Landssambands veiðifélaga í s.l. viku var rætt við veiðimálastjóra um stofnun útibús í fiskirækt frá Veiðimálastofnuninni fyrir Austurland nú á næsta ári, sbr. samþykkt þar um á síðasta aðalfundi sambandsins. Veiðimálastjóri lýsti áhuga sínum fyrir að þetta kæmist í framkvæmd sem allra fyrst, en taldi sig þurfa að fá fjárveitingu til þess frá Alþ., svo sem verið hefði við stofnun slíks útibús fyrir Vesturland, sem staðsett hefur verið í Borgarnesi. Stjórn sambandsins hafði viðtalsfund við landbrh. um málið og var hann mjög jákvæður í undirtektum, en taldi útilokað að fjárveiting í þessu skyni kæmist inn á fjárlög það ár.

Í framhaldi af þessu vil ég leyfa mér sem stjórnarmaður í Landssambandi veiðifélaga fyrir Austurland að óska eftir því við þm. Austurlandskjördæmis, að þeir beiti sér fyrir að fjárveiting í þessu skyni verði tekin inn á fjárlög næsta árs. Veiðimálastjóri taldi að áætla þyrfti 8–10 millj. í þessu skyni sem fulla fjárveitingu. Í umr. um þessi mál við veiðimálastjóra kom það fram sem sameiginlegt álit allra, að þótt fjárveiting kæmist ekki inn á fjárlög þess árs, 1979, þá mætti hugsa sér að hefja starfsemi á n.k. sumri, sumrinu 1979, með ráðningu fiskifræðings í starfið hluta af árinu til nauðsynlegs undirbúnings fyrir raunhæfa starfsemi á árinu 1980, sem þá gæti náð til alls Austurlands. Veiðimálastjóri taldi að það mundi ekki standa fyrir að ráða mann í starfið. Starf slíks manns næsta sumar yrði fyrst og fremst undirbúningsstarf, vinna að stofnun veiðifélaga, standa fyrir og sjá um byggingu sleppitjarna við árnar, áætla og undirbúa pöntun á sleppiseiðum fyrir næsta ár og ýmislegt fleira, þar með að kynna sér ágalla laxastigans í Lagarfljóti og leita þar úrbóta. Þessa starfsemi að hluta á árinu 1979 mætti hugsa sér að fjármagna með lánsútvegum til bráðabirgða með fjárveitingu á fjárl. í bakhöndinni.“

Hér lýkur tilvitnun í bréf Sveins Jónssonar, en eins og í bréfinu kemur fram er þegar starfandi útibú frá Veiðimálastofnun í Borgarnesi og hefur það að allra þeirra dómi, sem gerst til þekkja, gefið ágæta raun. Varðandi hæfan starfsmann við útibú á Austurlandi, eins og einnig er vikið að í bréfinu, þá mun það mál hafa verið nokkuð kannað af mönnum þar eystra og munu þar og engin vandkvæði verða að því er mér er tjáð. Það, sem á skortir hér eins og víðar, er nauðsynlegt fjármagn til að koma slíku útibúi á og gera það virkt og hefja þá þessa starfsemi um leið til aukins vegs á Austurlandi, svo sem fyllstu nauðsyn ber til. Þessi till. er einmitt flutt til áherslu á það.

Ég get þess aðeins hér í sambandi við útibúið í Borgarnesi og útibúamál yfirleitt, að í áliti stofnananefndar um flutning ríkisstofnana var gert ráð fyrir hvoru tveggja, flutningi stofnunarinnar sjálfar, þ.e. Veiðimálastofnunarinnar, út á land, en einnig útibúastofnunar í fjærstu landshlutunum, en þá mun Borgarnes einnig hafa verið sá staður sem talinn var æskilegur sem aðsetursstaður aðalstofnunarinnar. Bréfið, sem birt er hér með till. sem fskj., segir í raun meira um erindið sjálft og tillöguefnið en töng framsaga, og skal ég því vitna til þess beint, með leyfi forseta, en bréfið er til fjvn. Alþ.:

„Undanfarin ár hefur verið unnið mikið starf til undirbúnings aukinni laxarækt á Austfjörðum. Sums staðar hefur þegar náðst ágætur árangur, svo sem í Breiðdal. Annars staðar eru tilraunir í gangi, t.d. í Berufirði, þar sem Veiðimálastofnunin stendur fyrir hafbeitartilraunum með styrk frá Norðurlandaráði. Þær tilraunir eru sérlega mikilvægar, þar sem ætla má að niðurstöður þaðan gildi í stórum dráttum um ýmsar aðrar ár á Austfjörðum.

Á Lagarfljótssvæðinu hafa undirbúningsrannsóknir þegar farið fram.“ — Síðan er vitnað í skýrslur Teits Arnlaugssonar frá árunum 1977 og 1978, sem sendar voru fjvn. — „Framkvæmdaáætlanir, byggðar á þessum rannsóknum, liggja að nokkru fyrir, og hefjast seiðasleppingar samkv. þeim væntanlega nú snemma í sumar.

Víða annars staðar er áhugi fyrir hendi, en skortur á vettvangsrannsóknum hindrar frekari framkvæmdir. Veiðimálastofnunin í Reykjavík hefur gert sitt besta til að sinna þessu svæði, en fjarlægðin takmarkar þá þjónustu verulega. Landssamband veiðifélaga telur því aðkallandi að á Egilsstöðum verði komið upp rannsóknaútibúi frá Veiðimálastofnuninni, svipað því sem starfrækt er í Borgarnesi fyrir Vesturlandskjördæmi og Vestfirði.

Slíkt útibú ætti að geta annast vettvangsrannsóknir og ráðgjafastörf á Austurlandi. Meðal annars er mjög áríðandi að kanna strax möguleika á gönguseiðasleppingum í sem flestum laxlitlum eða laxlausum ám á svæðinu til undirbúnings áætlunum um klak- og eldisstöð, sem áhugi er fyrir að reist verði á Egilsstöðum með þátttöku margra sveitarfélaga austur þar.

Slíkar rannsóknir þurfa að standa það lengi, að illmögulegt er að sinna þeim frá Reykjavík. Landssamband veiðifélaga fer því þess á leit við hv. fjvn., að hún hlutist til um að fé verði veitt til stofnunar og rekstrar þessa rannsóknaútibús þegar á fjárl. næsta árs. Áætlanir um fjárþörf og tilhögun greiðslna mun Veiðimálastofnunin gera og koma á framfæri við yður.“

Ég dreg ekki í efa að fjvn. muni gaumgæfa þessa beiðni og veita það lið, sem mögulegt er talið, og ég veit það, að nú nýlega hefur fjvn. Alþ. aftur verið skrifað, að þessu sinni af veiðimálastjóra, þar sem gerð er grein fyrir því, hvaða kostnaður mundi verða af útibúi sem þessu, og óskað eftir því, að fjvn. taki umrædda till. upp í fjárveitingar til veiðimála fyrir árið 1980. Þar er enn minnt á reynsluna af útibúinu í Borgarnesi og bent á það, að vegna fjarlægðar Austurlands frá aðalstöðvunum sé eðlilegt að þar komi næsta útibú, það sé skoðun allra þeirra manna sem að þessu vinni. Hins vegar segir veiðimálastjóri einnig að nýjum starfskröftum Veiðimálastofnunarinnar verði dreift um landið og stefnt að því, að a.m.k. einn fiskifræðingur verði staðsettur í hverjum landsfjórðungi, en með því að auka verulega þjónustu og framfarir í veiðimálum. Öruggt er að allt þetta kemur til umfjöllunar og athugunar hjá fjvn. Hins vegar tel ég að nauðsynlegt sé að formið verði á þann veg sem till. gerir ráð fyrir, þ.e. að útibú verði stofnað, svo sem allir, sem gerst þekkja til, virðast sammála um að sé nauðsynlegt. Því er till. flutt sem hugsanleg viljayfirlýsing Alþingis, og í ljósi þeirrar samþykktar, sem till. kynni að fá og ég vona eindregið að hún fái, verður um margt auðveldari eftirleikur hjá fjárveitingavaldinu, þó að í engu sé það einhlítt að vísu.

Vissulega hefði verið fróðlegt að vitna hér beint í hið skelegga bjartsýnis- og baráttuerindi sem Sveinn Jónsson flutti yfir okkur Austfirðingum 1978 og sýndi þá óbilandi trú sem hann hafði á málefninu, það skipulag sem hann af mikilli framsýni hafði þar í huga og þann ágæta rökstuðning sem hann hafði þar uppi fyrir sínu máli. Til þess er tæpast tími hér. En n. þeirri, sem fær málið til frekari meðferðar, stendur vitanlega til boða að kynna sér málið nánar, bæði varðandi það erindi svo og þær skýrslur sem hjá fjvn. eru og vitnað er til í bréfinu, sem fskj. lýtur að. Það er a.m.k. sannfæring mín eftir að hafa kynnt mér málið, að átaks er þörf eystra. Þar hafa menn um of dregist aftur úr, og skjótvirkasta leiðin til úrbóta er reifuð í till. þessari. Austurland hefur hér mikla ónýtta möguleika og á það þarf að reyna sem best, að unnt sé að nýta þá sem allra fyrst og með sem mestum árangri, ekki aðeins til hagsbóta fyrir þá aðila, sem málið snertir beint eða Austfirðinga atmennt, heldur fyrir landið allt, ekki síst ef það er rétt, að þessi starfsemi og laxaræktin í landinu í heild eigi jafnmikla framtíð fyrir sér og nú upp á síðkastið hefur verið haldið fram og áreiðanlega með miklum rétti.

Ég vil svo leggja til, herra forseti, að þessari umr. verði frestað og málinu vísað til hv. allshn.