17.12.1979
Neðri deild: 3. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í B-deild Alþingistíðinda. (45)

8. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Fjmrh. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Í sambandi við þær spurningar, sem fram hafa komið hér, vil ég aðeins taka það fram, að þegar áætlaðar voru þær tekjur sem þessi skattur mundi gefa, um það leyti sem hann var lagður á á sínum tíma, þá var alveg ljóst að þar var rennt mjög blint í sjóinn, vegna þess að hér var um nýja skattheimtu að ræða sem enginn raunar gat sagt um hvað mundi gefa í tekjur. Það var sérstaklega tekið fram af þeim aðilum, sem um áætlunina um tekjuöflunina fjölluðu, að það sem þeir gáfu upp, 500 millj. kr. sem þessi skattur ætti að gefa, væri ákaflega lausleg áætlun og raunar aðeins viðmiðunartala, frekar til að segja eitthvað en að það væri mjög handfast. Reynslan hefur hins vegar orðið sú, eins og fram kemur í aths. við frv. þetta, að tekjurnar hafa reynst allmiklu meiri, eða rúmlega einn milljarður króna á móti þeim 500 millj. kr. sem áætlað var.

Eftir að hafa fengið nokkra reynslu um þessa skattheimtu telja menn sig geta áætlað hana nokkuð örugglega 11/2 milljarð kr. á næsta ári. Þeir, sem upphaflega gerðu áætlun um tekjur af þessari skattheimtu, telja sig nú geta gert haldbetri áætlun um það, sem skatturinn skili á næsta ári, heldur en sú spá — eða drög að spá ætti e.t.v. heldur að segja — sem gerð var þegar þetta skattgjald var álagt.

Varðandi það, sem hv. 2. þm. Reykv. spurði um, vil ég aðeins geta þess, að ég mun beita mér fyrir því, að þegar í stað verði spurningu hans svarað á fundi þeirrar nefndar sem væntanlega fær þetta frv. En að öðru leyti er svarið að nokkru leyti a.m.k. fólgið í aths. við 4. gr. frv. Það segir m.a. að 2. mgr. 4. gr. laga nr. 112 frá 1978 hafi haft sömu efnisreglur að geyma og þessi umtalaða grein, að öðru leyti en því, að þar var kveðið á um að væri 75% af rúmmáli fasteignar eða meira nýtt til annars en verslunarrekstrar eða skrifstofuhalds, skyldi verðmæti hennar undanþegið sérstökum eignarskatti. Í framkvæmd hafi þetta ákvæði t.d. leitt til þess, að verulega stórt skrifstofuhúsnæði gat verið undanþegið skattinum þar sem 75% eða meira af rúmmáli þess var engu að síður notað á annan hátt. Í ljósi þessa er því lagt til í þessu frv., að sé sama eignin notuð við verslunarrekstur eða til skrifstofuhalds, en einnig til annarra nota, skuli við ákvörðun á skattstofni skipta verðmæti eignarinnar hlutfallslega og að sá hluti húsnæðisins, sem nýttur er til verslunarrekstrar eða skrifstofuhalds, verði í öllum tilvikum skattskyldur. Til að vega á móti aukinni skattbyrði, sem af þessari breytingu mundi leiða, er síðan lagt til að skattfrelsismörkin verði nokkru rýmri.

Þetta er það sem segir í aths. með frv. þessu til skýringar á því, af hverju þessi skattfrelsismörk eru nokkuð hækkuð. Það breytir ekki heildartekjunum. Hér er um smábreytingu að ræða, þannig að þessi tiltekna regla, sem notuð var á s.l. ári, verður afnumin og skattur því lagður á allt skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Hversu miklu munar við þessa breytingu í fjárhæðum veit ég satt að segja ekki og hef ekki upplýsingar um það við höndina, en mun sjá til þess, að þær upplýsingar fái hv. þm. og sú nefnd sem væntanlega fær þetta frv. til skoðunar.