21.01.1980
Efri deild: 22. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í B-deild Alþingistíðinda. (485)

17. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Ég er sammála hv. 3. þm. Norðurl. e. um að gagnrýna það — enda hef ég mótmælt því við gerð fjárlaga — að í fyrra skuli hafa verið dregin 10% af mörkuðum tekjustofnum Húsnæðismálastofnunar ríkisins og að það sé enn þá gert í fjárlagafrv. sem er til meðferðar í þinginu. Hitt er svo annað mál, að þessi 10% voru greidd til baka, þó með öðrum hætti væri, á síðasta ári, þannig að í reynd var þá ekki um neinn niðurskurð að ræða.

Ég er mjög ánægður með það, sem kom fram hjá hv. 11. þm. Reykv., að Samband ísl. sveitarfélaga skuli athuga málið vel, og tel það sönnun þess, að rétt hafi verið að senda því frv. svona snemma, að það skuli hafa komið 15 aths. Það sýnir bara hve mikinn áhuga þeir hafa sjálfir fyrir frv. Ég hef ekki séð þessar aths., enda óskaði ég eftir því að allar þeirra umsagnir færu beint til félmn. þessarar hv. deildar. Enn fremur líkar mér vel að þetta er í skoðun í fleiri sveitarfélögum. Eftir því sem mér er sagt af sveitarstjórnarmönnum er það ekki kostnaðarliðurinn, sem þeir eru að kvarta undan, heldur það, að allt of mikið vald skuli vera fært yfir í hendur verkalýðsfélaganna eða launþegahreyfingarinnar frá sveitarfélögunum, öfugt við það sem kom fram hjá hv. 11. þm. Reykv. síðast. Ég er mjög ánægður með það, eins og ég sagði að það skuli vera öflug og veigamikil samtök, sem eru að skoða þetta frv. og skoða vel, og vona að það komi verulega mikið út úr því.

Það hefur aldrei staðið til að fjölga í toppnum í stjórnunarkerfi Húsnæðismálastofnunar ríkisins.

Það stendur í núgildandi lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins, að hún eigi að stuðla að tækninýjungum, en það furðulega er, að hún hefur ekki leyfi skv. lögum til þess að lána fimmeyring til tækninýjunga. Það er aftur á móti leiðrétt í þessu frv. Má vera að það sé þess vegna sem þeir hafa ekki enn þá svarað Sturlu Einarssyni um hans nýju aðferðir við einangrun. Ég hef talað við Sturlu og það er ýmislegt athugunarvert, sem hann er með í huga, og væti rétt að hjálpa honum við að koma því í framkvæmd. Það er fáránlegt, að húsnæðismálastjórn hefur ekki leyfi í dag til þess að lána honum.

En ég er ánægður með það, sem kom fram hjá 11. þm. Reykv., að frv. muni fá ítarlega meðferð í deildinni. Ég tel það sjálfsagt.