21.01.1980
Efri deild: 22. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í B-deild Alþingistíðinda. (489)

22. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Dómsmrh. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Þetta er frv. til l. um fuglaveiðar og fuglafriðun og lagt fram óbreytt í fjórða skipti. Það var fyrst lagt fram til kynningar af þáv. menntmrh., Vilhjálmi Hjálmarssyni, í lok 99. löggjafarþings, en var síðan endurflutt af fyrrv. menntmrh., Ragnari Arnalds, á tveimur síðustu þingum.

Í lok janúarmánaðar 1977 skipaði menntmrh. þrjá menn til að endurskoða lög nr. 33 frá 1966, um fuglaveiðar og fuglafriðun. Á undanförnum árum höfðu rn. öðru hverju borist samþykktir, einkum frá Búnaðarfélagi Íslands, Stéttarsambandi bænda og Æðarræktarfélagi Íslands, um að lögin yrðu endurskoðuð eða sumum greinum laganna yrði a.m.k. breytt, svo að auðveldara yrði að fækka svokölluðum vargfuglum, fyrst og fremst svartbaki og hrafni.

Í endurskoðunarnefndina voru skipaðir Ásgeir Bjarnason, þáv. forseti Sþ., formaður Búnaðarfélags Íslands, dr. Arnþór Garðarsson, formaður fuglafriðunarnefndar, og Runólfur Þórarinsson stjórnarráðsfulltrúi, sem jafnframt var skipaður formaður nefndarinnar. Nefndin hélt allmarga fundi meðan hún vann að endurskoðuninni og hafði samband við marga aðila og fór þess á leit við þá, að þeir gerðu í bréfi til nefndarinnar grein fyrir þeim hugmyndum sínum og tillögum til breytinga á lögunum sem þeir telja æskilegar. Ábendingar eða tillögur þessara aðila fylgja frv., merktar fskj., I–XII. Nefndarmenn urðu sammála um flest ákvæði frv., eins og það liggur nú fyrir.

Herra forseti. Ég hef ekki séð ástæðu til að gera breytingar á tillögum nefndarinnar. Hins vegar er væntanlega æskilegt að málið verði vel athugað í nefnd.

Eins og áður greinir er frv. nú flutt í fjórða skipti, og vil ég leyfa mér að leggja til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. menntmn. og 2. umr.