18.12.1979
Sameinað þing: 4. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í B-deild Alþingistíðinda. (58)

Skýrsla forsætisráðherra

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. hefur óskað eftir því að vera leystur undan þeirri kvöð að flytja hér stefnuskrárræðu. Ég tel sjálfsagt að fallast á að leysa hann undan þeirri skyldu eins og á stendur og allt er í pottinn búið. Hitt er vert að hafa í huga við þetta tækifæri, að núv. hæstv. ríkisstj. er við völd og starfar hér á ábyrgð tveggja flokka, Sjálfstfl. og Alþfl. Alþfl. sprengdi samstarf Alþb., Framsfl. og Alþfl. á haustmánuðum, eins og öllum er kunnugt, og síðan mynduðu Sjálfstfl. og Alþfl. nýjan meiri hl. hér á Alþ. Þessir flokkar bera alla ábyrgð á því stjórnleysisástandi sem nú er ríkjandi. Þeir hikuðu að vísu við að taka höndum saman og mynda stjórn eftir fall vinstri stjórnarinnar og stefndu þjóðinni út í nýjar kosningar. Nú hafa þær farið fram. Er vandinn minni að kosningum loknum? Er ekki ljóst að myndun nýrrar ríkisstj. er flóknara verk og erfiðara en nokkru sinni fyrr? Er ekki ljóst að verðbólga hefur stóraukist á þeim tíma sem liðinn er síðan vinstri stjórnin fór frá? Er ekki Í jóst að kosningar hafa síður en svo auðveldað lausn þeirra vandamála sem fyrir liggja?

Kjarni stjórnarkreppunnar, sem ríkir í íslenskum stjórnmálum, er sá, að einn stjórnmálaflokkanna, þ.e. núv. ríkisstj.-flokkur, Alþfl., hefur átt í miklum vandræðum með að gera það upp við sig á undanförnum misserum hvort hann ætlaði í hægri stjórn eða vinstri stjórn. Flokkurinn hikaði lengi vel eftir kosningarnar 1978, en hafnaði að lokum í vinstri stjórn. Hann sprengdi þó vinstri stjórnina einu ári síðar og gerði þá bandalag við Sjálfstfl. um ríkisstj. og nýjar kosningar. Það bandalag stendur enn. Að vísu eru fulltrúar Alþfl. í vinstristjórnarviðræðum þessa dagana og segja þar fátt, hafa engar till. lagt fram, en nú orðið dylst varla nokkrum manni að Alþfl. stefnir tæpast í vinstri stjórn.

Í gær tryggði Alþfl. að Sjálfstfl. fengi fjóra menn kjörna í fjvn. Í miðjum vinstristjórnarviðræðum kaus Alþfl. að fjölga fulltrúum flokks, sem hefði átt að lenda í stjórnarandstöðu ef viðræður um stjórnarmyndun hefðu borið árangur, á kostnað væntanlegs samstarfsflokks. Í morgun var haldinn fyrsti fundur utanrmn. Við lögðum þar til, hv. þm. Steingrímur Hermannsson og ég, að kosningu formanns yrði frestað. En fulltrúi Alþfl. hafði ákveðna skoðun á þessu máli. Hann lýsti því yfir, að Alþfl. hefði ákveðið að styðja hv. þm. Geir Hallgrímsson, formann Sjálfstfl., til formennsku í n. Fór þá kosning fram og hlaut hv. þm. Geir Hallgrímsson 4 atkv., fulltrúa Sjálfstfl. og Alþfl., en Steingrímur Hermannsson, formaður Framsfl., hlaut 3 atkv. fulltrúa Framsfl. og Alþb. Bandalag Alþfl. og Sjálfstfl., sem myndað var í okt. í haust, stendur því áfram, það getur engum dulist. Þessir flokkar bera nú sameiginlega alla ábyrgð á núverandi stjórn og núverandi stjórnleysisástandi, hversu lengi sem það á eftir að standa.

Ég tel ekki rétt að flytja hér stefnuskrárræðu af hálfu míns flokks, þar sem þetta eru ekki stefnuskrárumr., en ég vil hins vegar fara örfáum orðum um skýrslu hæstv. forsrh.

Vissulega væri ástæða til að gera úttekt á störfum þeirrar stjórnar Alþfl. og Sjálfstfl. sem verið hefur hér við völd seinustu tvo mánuði. En skýrsla hæstv. forsrh. gefur varla tilefni til þess að hafa þar mörg orð um. Störf þeirrar stjórnar hafa fremur öðru einkennst af heldur yfirborðslegum kosningaáróðri og ýmiss konar sýndarmennsku í stjórnarathöfnum, eins og við var að búast, svo að stuðningsflokki stjórnarinnar, Sjálfstfl., mun hafa verið nokkur raun að horfa upp á, a.m.k. þegar flugeldasýning stjórnarinnar hefur staðið sem hæst.

Ég vil nefna hér eitt dæmi um þetta, þótt málið sé í sjálfu sér heldur lítilfjörlegt. Þetta dæmi er ákvörðun núv. hæstv. ríkisstj. um að afsala sér hækkun vísitölubóta á laun daginn fyrir kosningar 1. des. s.l. Það var ekki seinna vænna! Ég tel líka rétt að rifja það upp, að á s.l. vori lögðum við ráðh. Alþb. í þáv. stjórn til að þak væri sett á vísitölubætur yfir ákveðnu marki. Þessa till. fluttum við aftur og aftur í þáv. ríkisstj., en án árangurs. Samstarfsflokkar Alþb. — og þá sérstaklega Alþfl. og ráðh. hans — neituðu að fallast á breytta skipan þessara mála. Við gerðum það sem sagt að till. okkar, að enginn hálaunamaður fengi meiri hækkun vísitölubóta en næmi þeirri upphæð sem kæmi á svo sem eins og tvöföld verkamannalaun, en þessi upphæð var á s.l. vori u.þ.b. 360–370 þús. kr. Þetta virtist sjálfsögð ákvörðun, en allt kom fyrir ekki. Ráðh. Alþfl. höfnuðu algerlega þessum till. og þess vegna hafa hálaunamenn, m.a. ráðh., fengið margfaldar uppbætur á laun sín við hvern vísitöluútreikning á við þá lægst launuðu. En auðvitað var það svo í fullkomnu samræmi við allt annað að einmitt þeir sömu menn, sem ákveðnast stóðu gegn nokkrum breytingum á vísitölugreiðslum til hálaunamanna á s.l. vori og sumri, skyldu taka sig til einmitt daginn fyrir kosningar og afsala sér hækkun á þeim greiðslum.

Nú eru kosningar afstaðnar og mögulegt ætti að vera fyrir hæstv. ráðh. Alþfl. að taka ákvörðun án þess að vera mjög þjakaðir af óttanum við yfirvofandi kosningar. Þær verða varla fyrr en í vor. Nú væri því fróðlegt að fá svör við því frá hæstv. forsrh., hvernig þessum málum verður háttað um næstu mánaðamót, ef stjórnin verður þá enn við völd.

Hæstv. forsrh., Benedikt Gröndal, drap áðan á þá sjálfsögðu ákvörðun núv. ríkisstj. að tryggja hækkun lægstu launa 1. des. s.l. með brbl. þannig að lægri launin hækkuðu til jafns við hærri laun. Ekki ber að vanþakka þessa ákvörðun, sem hefði örugglega verið tekin í hvaða ríkisstj. sem hefði verið við völd. Hins vegar er rétt að minna hér á hvernig þetta misræmi skapaðist milli lægri og hærri launa.

Þegar afgreiðsla efnahagslaga var á lokastigi hér á Alþ.

á s.l. vori lagði Alþb. sérstaka áherslu á að þeim lægst launuðu yrði hlíft við 2% kjaraskerðingu af völdum versnandi viðskiptakjara sem aðrir tækju á sig. Alþfl. barðist mjög hart á móti þessu, svo að við lá að stjórnin færi frá einmitt af þessum sökum. En hann sætti sig þó við þetta að lokum með því skilyrði að skerðing á lægstu laun félli ekki alveg niður, heldur væri frestað um sex mánaða skeið. Þetta varð málamiðlunarniðurstaða, m.a. í þeirri von að viðskiptakjörin færu aftur batnandi síðar á þessu ári. En það varð ekki. Alþfl. var því ósköp einfaldlega með útgáfu brbl. að hverfa frá fyrri kröfum sínum og þar með að viðurkenna villu sína frá s.l. vori, og vissulega ber að þakka fyrir það.

Hæstv. forsrh. boðaði hér áðan, að flutt yrði till. um greiðsluheimild til handa hæstv. ríkisstj. þar til ný fjárlög hefðu verið afgreidd. Auðvitað er það ein versta afleiðingin af því að kosningar skyldu vera ákveðnar í desembermánuði, að bersýnilegt er að ekki verða fyrir hendi fjárlög í byrjun næsta árs. Ég hef séð drög að till. um greiðsluheimild af þessu tagi. Ég tel það augljósan ágalla á þessum drögum að um er að ræða ótímabundna heimild sem ríkisstj. er veitt. Ég tel ekki koma til greina að við Alþb.-menn stöndum að ótímabundinni heimild til núv. ríkisstj. til að greiða af ríkisfé. En vissulega verður ekki hjá því komist að einhver greiðsluheimild sé fyrir hendi í byrjun næsta árs, og þar sem við verðum að vænta þess að þing komi fljótlega saman eftir nýár tel ég að heimild til nokkurra vikna ætti að nægja. Auk þessa þarf að sjálfsögðu að athuga hvaða mál eru hér til afgreiðslu og þola alls ekki frekari bið.

Við Alþb.-menn munum að sjálfsögðu greiða fyrir afgreiðslu mála hér á Alþ. eftir því sem brýn nauðsyn krefur. Að öðru leyti verður að fresta afgreiðslu mála fram á nýtt ár um leið og þingfundum er frestað. En ég tek undir það, sem kom fram hjá hv. þm. Steingrími Hermannssyni áðan, að ég tel eðlilegra undir þessum kringumstæðum að fresta Þingfundum fremur en gert verði nú formlegt þinghlé. Á því er allmikill munur, eins og flestir munu þekkja.

Ljóst er að mikil óvissa ríkir nú í íslenskum stjórnmálum. Verðbólga er mikil og verður að gera átak til að draga úr henni með samræmdri áætlun til tveggja eða þriggja ára. Hins vegar vil ég að endingu eindregið vara við þeim hugmyndum, sem nú eru mjög á sveimi, að beita samdrætti í framkvæmdum og stórfelldri kjaraskerðingu í baráttu við verðbólgu, því að það væri sannarlega að fara úr öskunni í eldinn að bæta atvinnuleysi og miklum ófriði á vinaumarkaði ofan á það ástand sem fyrir er.