24.01.1980
Neðri deild: 24. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í B-deild Alþingistíðinda. (595)

68. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Eins og frsm. sjútvn. tók fram varð samkomulag í n. um afgreiðslu á þessum frv. Það, sem hv. 3. þm. Austurl. sagði, get ég þó tekið undir. Hins vegar er sjútvn. stillt upp við vegg að afgreiða þessi frv. á svo að segja engum tíma. Það er þegar komin hálf fjórða vika fram yfir þann tíma að fiskverð átti að liggja fyrir, og þó að við hefðum gjarnan viljað hugleiða þau efni, sem hv. þm. ræddi um, hefði það haft í för með sér enn frekari drátt á fiskverðsákvörðuninni.

Ég lít svo á, eins og ég tók fram við 1. umr. þessara mála, að verðbætur á ákveðnar fisktegundir til þess að auka sókn í þær og minnka um leið sóknina í tegundir, sem eru fullveiddar eða ofveiddar, séu ákvæði til bráðabirgða, eins og við í raun og veru staðfestum með brtt. n., með tilliti til þess að ekki er tími til að taka annað upp.

Mér er alveg ljóst að fyrst og fremst er verið að greiða þessar verðbætur til mikils hluta togaraflotans og á kostnað bátaflotans að verulegu leyti, en þó ekki að öllu leyti.

Ég er ekki mjög mikill talsmaður þess að gera eigi þetta með þeim hætti sem hér er lagt til, þó að ég sætti mig við það. Ég held að verðbótagreiðsla eigi ekki að vera verkefni Aflatryggingasjóðs, en get undir þessum kringumstæðum fallist á að framlengja það fyrst slíkt var tekið upp á s. Í. ári.

Línufiskur er greiddur enn hærra verði en annar fiskur. Kaupendur greiða 10% ofan á hið ákveðna verð Verðlagsráðsins. Lengi vel greiddi ríkissjóður sérstakar bætur á línufisk. Þær bætur hafa farið lækkandi á seinni árum og eru alveg niður felldar. Ég fyrir mitt leyti harma þá afstöðu sem Alþ. hefur tekið til þessara mála, sérstaklega í fjárlögum ársins 1979, þar sem bætur frá ríkinu voru lækkaðar stórkostlega og það mikið að því tók eiginlega ekki að vera að hafa þær lengur í fjárlagafrv. Eftir því sem ég best man eru engar verðbætur á línufisk í því frv. sem lagt hefur verið fram á Alþingi. — En ég tel, að þessi mál þurfi að athuga nánar, og tek undir þær ábendingar sem komu fram hjá hv. síðasta ræðumanni.