29.01.1980
Sameinað þing: 17. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í B-deild Alþingistíðinda. (681)

217. mál, kaup og sala á togurum

Stefán Guðmundsson:

Herra forseti. Á fundi í Sþ. ekki alls fyrir löngu urðu allmiklar umr. um ísfisksölur íslenskra skipa erlendis svo og togarakaup vegna fsp. frá hv. þm. Stefáni Valgeirssyni til hæstv. sjútvrh. Umr., sem hér fara fram nú, eru nokkuð tengdar og skyldar þeim. Ég ætti ekki nú að fara að ræða þessi mál, til þess gefst betri tími síðar. En vegna þess, að ég var á mælendaskrá þegar áður nefnt mál var tekið út af dagskrá, og vegna þeirra umr., sem þá fóru fram, á ég erfitt með að segja ekki nokkur orð og þá sérstaklega að gefnu tilefni.

Vegna sölu á Fontinum vil ég segja það, og það tek ég skýrt fram að er vegna umr. sem fóru fyrir nokkru fram hér í hv. Alþ., að ég sé ekki hvaða tilgangi þjónar að kasta steini að þeim útgerðarmönnum á Siglufirði sem keyptu það skip og gera nú út byggðarlagi sínu og þjóðinni allri til hagsbóta. Ég held að hv. þm. ættu heldur að þakka þeim mönnum, sem standa að þessari undirstöðuatvinnugrein, en reyna að gera þá tortryggilega á hv. Alþingi.

Um endurnýjun togaraflotans væri margt hægt að segja út af þeim umr. er hér fóru fram. En ég geymi það til betri tíma, — ekki þó af því að ég taki mark á þeim orðum hv. 4. þm. Suðurl. að menn úr dölum norður eigi ekki að hafa afskipti af slíkum málum.

Einn hv. þm. sagði í umr. um daginn að útgerðarbraskarar væru að sigla með fiskinn til erlendra hafna. Ja, það er nú það! Útgerðarbraskarar! Hverjir eru þessir útgerðarbraskarar? Miðað við þá skýrslu, sem sjútvrh. gaf, kemur fram að um 60 togarar hafa siglt með afla á því umrædda 16 mánaða tímabili, fyrir utan báta. Af þessum 60 togurum eru átta úr kjördæmi hv. þm. og einn togarinn hefur farið sex söluferðir, en 14 togarar hafa farið eina söluferð og 16 togarar hafa farið tvær söluferðir á umræddu 16 mánaða tímabili. Á þessu sést að margir útgerðaraðilar láta skip sín aðeins fara eina söluferð á hverju ári. Nú er það svo, sem betur fer, segi ég, að ekki geta allir siglt með afla til erlendra hafna þegar þeim sýnist svo. Á þessu ári hefur verið tekin upp viss stjórnun, m.a. til þess að tryggja hagstæðari og öruggari markaði erlendis.

Ég er ekki kominn í þennan ræðustól til að tala fyrir ísfisksölum erlendis. (Gripið fram í.) Skipulag veiða og vinnslu er hreint ekkert smámál. Þeim tíma, sem færi í að ræða um þau mál, væri vel varið á hv. Alþ. En ég held að við getum geymt það og frestað þeim umr. þangað til við ræðum almennt um skipulag veiða og hvernig þeim málum verður háttað á yfirstandandi ári þegar sjútvrh. kynnir þær hugmyndir sínar.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri nú, en ég legg áherslu á að rétt er að hafa í huga að ísfiskmarkaðir bæði í Englandi og Þýskalandi og jafnvel víðar eru okkur mikils virði og við þurfum nokkuð að gera til að halda þeim mörkuðum. Ég sé ekki ástæðu til að rökstyðja það hér frekar, svo viss er ég um að hv. alþm. eru þau rök fyllilega ljós. Þeir rúmlega 11 milljarðar, sem fengust fyrir umræddan afla, eru þjóðinni meira virði en svo, að hér sé hægt að tala um braskarasjónarmið ákveðinna útgerðaraðila.