30.01.1980
Efri deild: 30. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 606 í B-deild Alþingistíðinda. (695)

77. mál, niðurgreiðsla á olíu til upphitunar húsa

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um efni þessa frv., þ.e. þann óviðunandi mun sem er fyrir hendi varðandi kyndingarkostnað húsa eftir því hvar þau eru á landinu. Um þetta mál hefur mikið verið rætt og ritað og flestir eða allir sammála um að hér þurfi að koma til aðgerðir til frekari jöfnunar en nú á sér stað.

Fram að þessu hafa einungis þm. úr kjördæmum úti á landsbyggðinni rætt þetta frv. og að sjálfsögðu lýst sig samþykka þeirri stefnu að létta byrðar þess fólks sem á ekki kost á annarri húsahitun en olíukyndingu eða rafmagni frá dísilvélum. Ég get fyllilega tekið undir þær hugmyndir sem uppi eru um að komið verði frekar en nú er gert til móts við það fólk úti á landsbyggðinni sem hefur hlotið sérstök fjárhagsleg áföll vegna olíuverðshækkana umfram aðra landsmenn og þá helst umfram þá sem búa hér á höfuðborgarsvæðinu. Fólk úti á landsbyggðinni býr við margs konar kostnað umfram okkur sem búum hér í mesta þéttbýlinu, t.d. varðandi flutningskostnað, og greiðir jafnvel söluskatt af þeim flutningskostnaði. Vissulega er ekki á þann ójöfnuð bætandi með því að láta þetta fólk bera án frekari jöfnunar þann mismun í kyndingarkostnaði sem stafar af áfalli sem öll þjóðin á að bera sem mest sameiginlega. Málið er því augljóst að þessu leyti, og sem betur fer flestir sammála í því efni, að hér þarf að tryggja aukna jöfnun.

Í því frv., sem hér liggur fyrir, er lagt til að styrkur vegna olíukyndingar, sem nemur 2.3 milljörðum í fjárlagafrv., verði hækkaður um 6 milljarða á þessu ári eða í 8.3 milljarða kr., eftir því sem fram kemur í fskj. VI með frv. Það er að vísu nokkurt misræmi í því fskj. og í almennu grg. með frv., en í henni segir að heildarkostnaður muni nema 7–8 milljörðum. Er hér miðað við óbreytt olíuverð og óbreytta gjaldskrá frá því sem nú er.

Þetta er allt gott og blessað og ýmsir gætu án efa hugsað sér meiri jöfnun. slíka jöfnun má framkvæma með ýmsum hætti: sérstökum skatti, orkujöfnunargjaldi sem tæki þá e.t.v. til jöfnunar rafmagnsverðs til heimilisnota á ríkara mæli en nú á sér stað, jafnvel með beinu framlagi úr ríkissjóði og þá aukinni almennri skattheimtu ef ekki er unnt að benda á ákveðinn og tiltekinn niðurskurð annarra útgjalda.

Þá kem ég að aðalorsökinni til þess, að ég taldi ástæðu til að segja hér nokkur orð. Ég tek það fram, að ég tel aukna jöfnun svo sjálfsagt mál að óþarft sé að þm. haldi hér langar ræður hver á eftir öðrum um þann efnisþáttinn út af fyrir sig. En mig undrar á að í því frv., sem hér er til umræðu og fjallar um aukningu ríkisútgjalda um hvorki meira né minna en 6 milljarða á ári, miðað við núgildandi olíuverð og gjaldskrár, skuli hvergi, í frv. eða í grg. þess, minnst einu orði á tekjuöflun til að standa undir þessum kostnaði. Mig undrar þetta enn meir vegna þess að að þessu frv. standa meðal annarra fyrrv. fjmrh. og núverandi formaður fjvn. Flokkar þessara hv. þm., eða a.m.k. annars þeirra, hafa í stefnuskrá og stjórnarmyndunarviðræðum boðað stórfellda lækkun ríkisútgjalda, stórfellda lækkun skatta. (Gripið fram í.) Já, ég sagði það, a.m.k. annar þeirra. En hér leggja þeir til að ríkisútgjöld verði aukin um 6 milljarða kr. á ári án þess að minnst sé í frv. eða grg. þess einu orði á það, hvernig á að fara að því að greiða þessa viðbótarupphæð. Það væri þægilegt ef unnt væri að leysa erfið mál með svo auðveldum hætti, ákveða fjárveitingu með lögum, en láta fjáröflunina lönd og leið. Þessi aðferð er líka síst af öllu í samræmi við þá ágætu stefnu, sem sumir hafa boðað af kappi í ræðu og blöðum, að ákveða beri tekjuhlið fjárlaga fyrst og raða svo og velja útgjöld inn í tekjurammann. En hér er lagt til að fara þveröfugt að, hækka útgjöldin með lögum um 6 milljarða, en sleppa tekjuöfluninni. Ég er ekki að halda því fram, að í hvert sinn sem þm. flytja till. um málefni sem hafa í för með sér útgjöld, t.d. við afgreiðslu fjárlaga, verði skilyrðislaust að hafa sérstaka tekjuöflun á reiðum höndum. Oft er um tiltölulega litlar upphæðir að ræða, — upphæðir sem raska ekki aðalniðurstöðu og aðalgrundvelli fjárlaga, hafa lítil áhrif á áætlaðan rekstrarjöfnuð. Með þessu frv. er hins vegar verið að fjalla um 6 milljarða kr. á ári, og ég ítreka það, að ég undrast að fyrrv. fjmrh. og formaður fjvn. skuli flytja slíkt frv. án þess að í greinum þess eða grg. sé minnst einu orði á þá hlið málsins sem að tekjuöfluninni snýr.

Fyrsti flm. og frsm. fyrir frv., hv. 4. þm. Vestf., Þorv. Garðar Kristjánsson, fór nokkrum orðum um þessa hlið málsins í framsöguræðu sinni og hafði lausnina á reiðum höndum, þótt ekki hafi verið talin ástæða til að nefna hana í frv. eða grg. þess. Það á að gerast án skattahækkana með flötum niðurskurði á öðrum málaflokkum en orkumálum. Þetta er aðaltillaga hans. Þá er á það að líta, að hér er um að ræða 6 milljarða kr. og stór átök í niðurskurði á fjárlögum hafa viljað renna út í sandinn í slíkri viðleitni hjá öllum flokkum þótt um margfalt lægri upphæðir hafi verið að ræða, svo að lítið er á svona ákvörðunum úr ræðustóli byggjandi, jafnvel þótt um drjúgum lægri upphæð væri að ræða.

Hv. þm. sagði síðan orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Þess vegna hef ég í huga niðurskurð sem svarar viðbótarútgjöldum ríkissjóðs vegna þessa frv., en það mundi nema um 1% af upphæð fjárlaga.“

Nú er ekki alveg ljóst hvað hv. þm. á við þegar hann talar hér um fjárlög. Hann gæti átt við það fjárlagafrv. sem liggur fyrir þinginu. Ef svo er fer hann með gróflega rangt mál því að niðurskurður þyrfti samkv. því að nema 1.9%, jafnvel þótt orkumálin, sem hann vill undanskilja, séu reiknuð með. Hér skakkar því 90%. Og 1.9% flatur niðurskurður mundi þá samkv. till. þm. þýða t.d. um 650–660 millj. kr. niðurskurð samanlagt á ellilífeyri, tekjutryggingu, uppbótargreiðslum, heimilisuppbót, örorkulífeyri og örorkustyrk, barnalífeyri, mæðralaunum og ekkju- og makabótum. Hlutur ríkissjóðs í þessum greiðslum nemur um 34 milljörðum kr. á fjárlagafrv. fyrir árið 1980, svo þetta mundi eiga að lækka samkv. till. um niðurskurð um 650–660 millj. kr.

Ef hv. þm. hefur á hinn bóginn ekki sagt skakkt til um 90% þegar hann tilgreinir 1% af upphæð fjárlaga, þá hefur hann ekki átt við fjárlagafrv. sem nú liggur fyrir, heldur kynni hann þá að vera að fjalla um hugmyndir sínar um væntanleg fjárlög þessa árs, en samkv. því ættu ríkisútgjöld á næsta ári að nema 600 milljörðum kr. í stað 330 á fjárlagafrv. Ef þetta eru upplýsingar um hugmyndir Sjálfstfl. um afgreiðslu fjárlaga, þá eru þær býsna merkilegar, en varla geta þær talist í samræmi við þá stefnu um ríkisfjármál í þeirri leiftursókn sem boðuð var fyrir kosningar. Og hv. 1. þm. Austurl., 2. flm., Tómas Arnason, nefndi í sinni ræðu að 1% söluskattur dygði til greiðslu á þeirri aukningu olíustyrks sem frv. gerir ráð fyrir. Það er líka rangt. Til þess að afla 6 milljarða kr. þyrfti söluskattur að hækka um 1.25 stig, en þarna skakkar þó ekki nema fjórðungi.

Ég tek undir það, að ráðstafanir til að auka jöfnuð varðandi kyndingarkostnað eru sanngirnismál og ég hef talið rétt að um það efni heyrðust raddir fleiri þm. en úr dreifbýliskjördæmunum. Ég fyrir mitt leyti er tilbúinn að standa að slíkum aðgerðum þó að þær þýði aukin útgjöld fólks í mínu kjördæmi þar sem það er blessunarlega undantekning að það njóti olíustyrks.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að vandamálið, sem leysa þurfti fyrst, sé aðferðin við fjáröflunina, ákvörðun um hana. Ákvarðanir í því efni eiga að liggja fyrir þegar útgjöldin, þ.e. greiðslan á olíustyrknum, eru ákveðin. Það er minnsti vandinn að ráðstafa peningunum þegar búið er að afla þeirra, en frv. fjallar ekki um annað.

Það frv., sem hér er til umræðu, fjallar um mikilvægt mál, og ég hygg að flestir eða allir þingmenn séu sammála um að það þurfi raunhæfa úrlausn. En vegna þess að þetta frv. fjallar einungis um útgjaldahliðina af hálfu ríkissjóðs, en það er auðveldasti þáttur málsins að koma fjármagni í lóg, því hins vegar sleppt að minnast á nauðsynlega tekjuöflun á móti, þá felst því miður engin lausn á vandamálinu í þessu frv. Og ég ítreka það, að ég held að það sé nýmæli að sjá fyrrv. fjmrh. og formann fjvn. flytja frv. sem er svo úr garði gert, en fjallar þó um svo gríðarlega útgjaldaaukningu ríkissjóðs. Ég er þeirrar skoðunar, að sú nefnd, sem fær þetta frv. til meðferðar, eigi að fjalla um undirstöðuþátt þessa máls, fjáröflun til frekari jöfnunar olíukostnaðar vegna húshitunar, en ekki láta nægja að afgreiða frv. í þeirri mynd sem það er hér. Annað væri sýndarmennska. Hér er fjallað um vandamál sem fyrst og fremst verður að leysa með raunhæfri lausn. Ég teldi því eðlilegast að frv. yrði vísað til hv. fjh.- og viðskn., en ekki til iðnn.