30.01.1980
Efri deild: 30. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í B-deild Alþingistíðinda. (702)

84. mál, Kvikmyndasafn Íslands

Dómsmrh. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum nr. 14 frá 8. maí 1978, um Kvikmyndasafn Íslands og Kvikmyndasjóð. Um þetta frv. þarf í sjálfu sér ekki að hafa mörg orð. Alþekkt er að undanfarið og ekki hvað síst á þessu ári hefur verið mikil gróska í kvikmyndagerð og kvikmyndalist. Nú fyrir nokkrum kvöldum var frumsýnd hér í Reykjavík og Dalvík ný íslensk kvikmynd eftir skáldsögu Indriða G. Þorsteinssonar, og tvær aðrar kvikmyndir munu vera á leiðinni og verða frumsýndar innan skamms.

Það, sem hér er lagt til, er að Kvikmyndasjóður verði efldur mjög á næstu árum. Lagt er til að sérstakt gjald, að fjárhæð 50 kr., skuli lagt á alla selda aðgöngumiða að kvikmyndasýningum og renni andvirði þess í Kvikmyndasjóð. Þó eru undanþegnar þessu gjaldi sýningar á íslenskum kvikmyndum og kvikmyndum fyrir börn. Þá er gert ráð fyrir að gjald þetta skuli innheimt af lögreglustjórum, en í Reykjavík af tollstjóra.

Þá eru í þessu frv. þau nýmæli, að lögin öðlist þegar gildi og gildi til 1. jan. 1983 eða á þriðja ár og að með þessum hætti verði það Alþingis að ákveða á ný hvort þessu skuli fram haldið, þessu skuli hætt eða tekin upp ný leið til að afla fjár fyrir Kvikmyndasjóð.

Gert er ráð fyrir að það sé sérstök krónutala, 50 kr., sem lögð sé á alla aðgöngumiða. Þetta er gert vitandi vits, að hér hefur verið verðbólguástand og að þessi upphæð gæti að öðru jöfnu rýrnað eitthvað eða allverulega á næstu árum. Ég tel að með þessum hætti ætti að vera auðveldara fyrir Alþingi að fallast á þetta frv., — ef þetta yrði reyrt meira í fjötra séu minni líkur á að hv. alþm. styðji þetta mál. Er það út af fyrir sig skiljanlegt, því að hér er auðvitað verið að leggja til að nokkru markaðan tekjustofn, þrátt fyrir þá umræðu og þá tortryggni sem gætt hefur í garð slíkra tekjustofna.

Ég vil svo aðeins að lokum segja það, að farið hafa fram verulegar umræður í samfélaginu að undanförnu um það, að menningarstarfsemi af þessu tagi, sem stundum er kölluð frjáls menningarstarfsemi, hafi notið lítils og minnkandi stuðnings af opinberu fé. Það mun vera fyrir því reynsla, bæði hér og annars staðar, að þetta er eitt af einkennum á verðbólgusamfélagi. Hins vegar tel ég eðlilegt um þessa titteknu listgrein, þar sem verið hefur mikil og vaxandi gróska. að ríkisvaldið komi til móts við þennan vöxt og þessa grósku, og ég teldi það mjög vel ef hv. Álþingi sæi sér fært að samþ. þennan tímabundna tekjustofn til þessarar sérstöku listgreinar.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð, en legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn. þessarar hv. deildar.