31.01.1980
Sameinað þing: 19. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í B-deild Alþingistíðinda. (718)

27. mál, iðnaður á Vesturlandi

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Sú þáltill., sem hér er nú til umr., er einn vottur af mörgum um aukinn áhuga víða á landinu á að styðja við iðnþróun. Hún er vottur um aukinn skilning manna á því, að renna þurfi fjölþættari stoðum undir atvinnulíf okkar en tekist hefur til þessa og að því þurfi að standa með skipulegum hætti, um það þurfi að gera áætlanir og síðan að hrinda þeim í framkvæmd. Ég lýsi fylgi mínu við till., því ég tel að hún sé aðeins af hinu góða, að það verði hafin vinna fyrir afbeina ríkisstj. að gerð iðnþróunaráætlunar fyrir Vesturland.

Ég held að rétt sé að fram komi hér, þó að það muni flestir hv. alþm. vita, að starfsemi af slíku tagi er í gangi í sumum landshlutanna nú þegar, og hygg ég að þar hafi kannske ekki komið formlega til frumkvæði ríkisstj., heldur hafi heimaaðilar leitað til stjórnvalda. Unnið er að iðnþróunaráætlun fyrir Norðurland fyrir frumkvæði Fjórðungssambands Norðlendinga, held ég að ég fari rétt með. Það mál var meginumræðuefni á fundi sveitarfélaga á Norðurlandi s.l. sumar, og þar lá fyrir þó nokkur vinna sem gerð hefur verið til undirbúnings iðnþróun í landshlutanum.

Af einstökum landshlutum er þessu starfi lengst komið hvað umræður snertir og vissan undirbúning á Norðurlandi. En einnig á Austurlandi er byrjuð vinna á þessu sviði, líka fyrir frumkvæði heimamanna og sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, sem hafa tekið þetta mál á dagskrá og leituðu á s.l. ári til iðnrn. um stuðning við þá starfsemi. Var sett á laggirnar stuðningsnefnd opinberra aðila við þessa starfsemi þar eystra, ekki ósvipað því og fyrir liggur varðandi Norðurland. Iðnrn. lagði þar nokkuð af mörkum og á fulltrúa í þeirri nefnd svo og stofnanir opinberra aðila, svo sem Iðntæknistofnun og Framkvæmdastofnun ríkisins og Samstarfsnefnd um iðnþróun. Þarna eru því fjórir aðilar, sem tengdir eru saman, að vinna að þessum málum hver með sínum hætti. Á móti kemur svo nefnd heimamanna, sem tilnefnd hefur verið af fjórðungssambandinu eða aðilum á vegum sveitarstjórnarsambandsins eystra. Frá þessu vil ég greina til glöggvunar fyrir menn á þeirri viðleitni sem þegar er til í öðrum landshlutum.

Ég tel að af þessu starfi megi þegar nokkuð læra, það m.a., að brýnt er að lifandi áhugi sé fyrir hendi heima fyrir á verkefninu. Þó að góður sé hugur stjórnvalda gildir það um iðnað sem annan atvinnurekstur, að hann verður ekki fluttur eða færður á silfurfati frá Reykjavík út í landshlutana, heldur þarf hann — og hlýtur — að byggjast á kröftum í héraði, en jafnnauðsynlegt er að skilningur og eðlilegur stuðningur stjórnvalda komi til.

Varðandi áætlunargerð af þessu tagi er við ýmiss konar vanda að fást. Þar mætir okkur kannske fyrst sá vandi, að hér hefur ekki verið mörkuð almenn iðnaðarstefna af hálfu stjórnvalda, ekki verið afgreidd frá Alþingi. Hér var flutt á þingi s.l. vor þáltill. um iðnaðarstefnu og aftur á haustþingi, en kom raunar aldrei til umr. vegna þess að þannig stóð á þinghaldi. Í þeirri þáltill. var reynt að draga upp meginlinur varðandi æskilega iðnþróun í landinu og stuðning af opinberri hálfu við slíka iðnþróun. Ég tel brýnt, að Alþ. taki afstöðu til slíks undirstöðuþáttar sem iðnaðarstefnu af hálfu stjórnvalda fyrr en seinna, og vænti þess, að mál af þessu tagi komi inn í þingið fyrir tilstilli stjórnvalda áður en langt um líður.

Fyrir utan slíka almenna meginstefnu um iðnþróun þarf að vinna að sérstökum iðngreinaáætlunum varðandi helstu þætti iðnaðar í landinu út frá greinum séð — við getum tekið skipasmíðaiðnað sem dæmi um slíka grein — og þar er nauðsynlegt að líta á landið allt. Það þarf að vera liður í iðnaðarstefnu, að unnin sé upp slík iðngreinaáætlun fyrir meginþættina, og síðan þarf að fléttast inn í þessa uppistöðu svæðaáætlanir um iðnþróun svipað og hér er lagt til. Ég tel að það megi að vísu verða að gagni að vinna upp slíkar svæðaáætlanir, en það er trú mín að þær skili ekki fullum árangri nema búið sé að marka meginstefnu. Og ég tel að það sé á vissan hátt varhugavert að gera áætlanir um uppbyggingu iðnaðar, þ.e. meiri háttar iðnaðar, á tilteknum svæðum nema litið hafi verið yfir sviðið allt, höfð hliðsjón af því, hvaða markaðsmöguleikar liggja fyrir, ef menn eru að byggja á heimamarkaði, og möguleikar eru um útflutningsframleiðslu, hvað er á ferðinni annars staðar í landinu en á viðkomandi svæði í þessum efnum, þannig að ekki verði um að ræða að hver troði skóinn niður af öðrum eða menn lendi í kröggum vegna þess að of margir séu kannske á ferðinni í sambandi við takmarkaðan markað. Nú er ég ekki að mæla gegn því, að um eðlilega samkeppni geti verið að ræða að þessu leyti, hún getur verið af hinu góða. En þegar um verulega fjárfestingu er að ræða er nauðsynlegt að til undirstöðunnar sé vandað.

Ég efa ekki að á Vesturlandi séu margháttaðir möguleikar til iðnaðaruppbyggingar eins og víða í öðrum landshlutum, og þar er raunar nú þegar verulegur iðnaður, einnig framleiðsluiðnaður, sem um munar í þjóðarbúskap okkar. Þann iðnað, sem þarna er fyrir, er hægt að efla og ekki má gleymast, þegar talað er um áætlanir, þýðing þess að efla starfandi iðnfyrirtæki og hlúa að þeim sem best. Ég ætla ekki að fara að bæta við þá upptalningu sem hv. frsm. hefur viðhaft og fleiri sem komið hafa inn í þessa umræðu, þeir þekkja það betur en ég, en ég vænti þess, að sú till., sem hér er flutt, verði til að styðja við iðnþróun og þann iðnað sem fyrir er í þessum landshluta. Það ætti að vera auðveldara fyrir Vesturland en ýmsa landshluta, sem fjær liggja höfuðstaðnum, að hagnýta sér þá þjónustu sem er að fá í opinberum stofnunum sem styðja eiga við iðnaðarstarfsemi og eru hér í Reykjavík. En ég hygg þó að það geti verið að gagni að hugsað verði til þess á Vesturlandi eins og annars staðar að upp rísi miðstöðvar til að styðja við þessa starfsemi í landshlutanum. Ég tel að það sé mikil nauðsyn á því t.d. á Norðurlandi og Austurlandi að slíkar miðstöðvar komi upp, sem styðji við iðnaðinn á viðkomandi svæði, eins konar þjónustumiðstöðvar sem verði tengiliðir milli meginstofnana sem styðja eiga við iðnþróun og flestar eru hér í Reykjavík eins og aðrar opinberar meginstofnanir fram til þessa.

Það hefur verið stutt að undanförnu af opinberri hálfu við iðnþróunarstarf nyrðra og eystra. Það var veittur stuðningur af aðlögunargjaldi á síðasta ári til slíkrar starfsemi. Ég vænti að eftir að hafin er vinna að iðnþróunaráætlun fyrir Vesturland verði opinberir aðilar einnig til að styðja við þá starfsemi svo sem skylt er. Hins vegar var ekki farið að tillögum sem ég bar fram sem iðnrh. varðandi stuðning við undirbúning að perlusteinsvinnslu og athuganir á möguleikum á útflutningsiðnaði á þeim grundvelli. Það hefði verið reiknað með að af aðlögunargjaldi kæmi nokkur stuðningur við athuganir sem höfðu verið undirbúnar að þessu leyti, en sú varð ekki niðurstaðan eftir stjórnarskiptin. Þar eru hins vegar kostir á ferðinni sem nauðsynlegt er að fá úr skorið fyrr en seinna hvort geti orðið undirstaða verulegs útflutningsiðnaðar. Ég hygg að miklu varði að það fáist úr því skorið fyrr en seinna. Það er svo með ýmis iðnaðartækifæri, að þau eru tímabundin, þau geta verið háð markaðsaðstæðum og menn þurfa að sæta lægi hvenær möguleikar eru fyrir hendi til að komast inn á markað erlendis. Og einmitt í sambandi við perlusteininn virtist slíkur tími kominn, að þar þyrfti að fást skorið úr um hvort möguleiki væri á í samvinnu við söluaðila erlendis að hefja þarna uppbyggingu á útflutningsgrein sem byggðist á hráefnisnámi í Prestahnjúk. Ég vænti þess að þetta tækifæri sé ekki glatað, það verði hægt að fá úr því skorið innan tíðar hvort þarna sé raunhæfur kostur á ferðinni.

En þegar litið er til iðnaðar er um fjölþættan gróður að ræða, og það greinir einmitt iðnaðinn frá öðrum atvinnuvegum, að hann er raunverulega sundurleitari og fjölþættari en annar atvinnurekstur í landinu. Það er kannske m.a. ástæðan fyrir því, að augu stjórnmálamanna hafa opnast seinna fyrir þýðingu skipulagðrar starfsemi og stuðnings af opinberri hálfu við iðnað en við eldri hefðbundnar atvinnugreinar okkar.