06.02.1980
Efri deild: 33. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í B-deild Alþingistíðinda. (769)

91. mál, eftirlit með skipum

Dómsmrh. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Eins og segir í aths. við lagafrv. þetta er það samið til samræmis við ákvæði í frv. til l. um breyt. á l. nr. 85/1936, um meðferð einkamála í héraði, sem mælt var fyrir áðan. Í því frv. er lagt til, að sjó- og verslunardómur verði lagður niður, og vísast um rök fyrir þeirri breytingu til grg. með frv. Réttarfarsnefnd, sem samdi þetta frv., hefur rætt hvort rétt væri að sjóferðarpróf verði sett á verksvið sakadóms. Réttarfarsnefnd komst að þeirri niðurstöðu, að hentugast væri að dómarar á bæjarþingi eða aukadómþingi færu með dóminn, eins og verið hefur. Og eins og segir enn fremur í aths. með frv. þessu, þá skiptir þetta álitaefni aðallega máli í Reykjavík, en þar hafa dómarar í einkamálum lengi annast þessi próf. Dómara er að sjálfsögðu ætlað að kalla til sérfróða menn eftir almennum reglum þar að lútandi.

Að öðru leyti er hér um einfaldar breytingar að ræða og ég vísa að öðru leyti til aths., en leyfi mér að lokum, herra forseti, að leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.