07.02.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í B-deild Alþingistíðinda. (782)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég vil andmæla þeim vinnubrögðum að skera nú niður umræður um mjög svo aðkallandi vandamál, sem varðar afkomu fjölda fólks og fyrirtækja, með þeim hætti sem hæstv. forseti ætlar nú að gera og koma þannig í veg fyrir að málsvarar þess fólks, sem önnur byggðarlög byggir, fái að leggja orð í belg um þetta þýðingarmikla vandamál. Ég ætla ekki að orðlengja það, en aðeins vekja athygli á að það kynni að hafa nokkur áhrif á hagsmuni fólksins í Norðurlandskjördæmi eystra ef flutt yrði loðna, sem veiðist fyrir Norðurlandi, þvert um húshlöð þeirra suður á land, enda þótt nóg séu afköstin í verksmiðjunum þar norður frá og hjá fólkinu til að fullnýta þann loðnuafla sem tekinn er fyrir Norðurlandi.

Um þetta ætla ég ekki að orðlengja, heldur víkja að hinu, að til þess virðist nú vera frestað umræðum um þetta þýðingarmikla mál að hleypa að hæstv. fjmrh., sem þó er í „praxís“ löngu hættur að vera fjmrh., til að þylja hér í þinginu marklaust plagg í a.m.k. tvær klst. varðandi annað marklaust plagg, sem er fjárlagafrv. sem þessi hæstv. settur fjmrh. tók saman nú í vetur með fullri vitund um að til einskis yrði nema kostnaðar í prentun og pappír. Ég vil andmæla þessu. Ég vil óska þess af hæstv. forseta að hann afturkalli úrskurð sinn og leyfi okkur að ræða hér ákaflega þýðingarmikið mál sem varðar nýtingu loðnuaflans.