07.02.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í B-deild Alþingistíðinda. (783)

Umræður utan dagskrár

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég leyfi mér að mótmæla ekki aðeins því sem hv. síðasti ræðumaður var að mótmæla, heldur einnig því marklausa þvaðri sem hann var að flytja fyrir hv. Sþ. Hv. þm. var ekki að bera fram mótmæli við þingsköp, heldur var hann að mótmæla því að koma ekki að vissum hagsmunasjónarmiðum sínum sem þm. eins kjördæmis sem vissulega getur átt hlut að máli í þeim vanda sem hér var hreyft af öðrum stuðningsmönnum þeirra flokka sem standa að væntanlegri ríkisstj. En það koma fleiri aðilar til greina en íbúar þeirra tveggja kjördæma, sem eiga fulltrúa þá sem hér töluðu, og fleiri verksmiðjueigendur eiga þar hlut. Það eru nefnilega til menn sem stunda útgerð og eru útgerðarmenn og sjómenn sem eru á þessum skipum.

Hér hefur því verið slegið föstu af hv. fyrirspyrjanda, að sjómenn muni skilja vandamálið. Ég á eftir að sjá að þeir og útgerðarmenn skilji það vandamál að með ákvörðun ráðh. eigi að skerða aflamöguleika þeirra til að flytja hugsanlegan hagnað frá þeim til annarra aðila á landinu. Það hefur verið gert of mikið að því að undanförnu að skerða hlut þeirra þjóðinni allri til handa, m.a. með veiðistöðvunum og öðru slíku. Ég held að ekki eigi aðeins að hugsa til þeirra aðila sem eru í kjördæmum hv. þm. sem hér hafa talað það eigi líka að hugsa til þeirra manna sem afla þess þýðingarmikla hráefnis sem á að fara til vinnslu á viðkomandi stöðum.

Það var ætlan mín að koma á í lengra máli frekari umræðum um þetta atriði en hafa komið fram til þessa. Þess vegna bað ég um orðið um þingsköp, en ætlaði að ræða málið efnislega þar utan.