11.02.1980
Sameinað þing: 23. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í B-deild Alþingistíðinda. (792)

Tilkynning frá ríkisstjórninni

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt með því að óska hinni nýkjörnu ríkisstj. farsældar í þeim störfum sem hennar bíða. Ég vil ekki að svo stöddu gera að umræðuefni þann stjórnarsáttmála sem liggur fyrir þinginu og var dreift meðal okkar í dag í vel gerðum búningi. Ég geri ekki kröfu til þess að ríkisstj., sem sest að völdum sundurliði hverju sinni í smáatriðum í málefnasamningi hvernig hún ætli að ráða fram úr öllum málum.

Ég vil draga athygli hv. þm. að þeim feginleik sem lýsti sér í málflutningi hv. 3. þm. Vestf., hve feginn hann var að komast undan þeirri ábyrgð sem á herðum hans hvíldi og á herðum þeirra Alþfl.-manna sem voru í bráðabirgðastjórninni sem nú lætur af störfum. Hann var feginn að sleppa frá ríkisstjórnarstörfum. Og eins og hann gaf í skyn verður nú staða Alþfl. á hv. Alþ. yndisleg og lífið dans á rósum, eingöngu vegna þess að nú eru þeir lausir við ábyrgð. En ég vil taka undir þau orð, sem hæstv. fjmrh. mælti, að ábyrgð hvílir á öllum þm., hvort sem þeir eru í stjórn eða ekki, og undan þeirri ábyrgð verður ekki hlaupist.

Hitt er svo annað mál, að hv. 3. þm. Vestf. boðaði nýjar og mjög góðar fréttir þegar hann upplýsti þingheim um að nú loksins væri komið að því að Alþfl. væri heill, samstæður og jafnvel heilsteyptur flokkur. Veran í ríkisstj. hefur bætt þann flokk mikið. En svona er það, menn aukast að visku og á margan annan hátt þegar þeir finna til ábyrgðarinnar. Ég vona í því sambandi að þingheimur geri sér ljóst, að staðan í málum þjóðfélagsins í heild er slík á þessu þingi að ábyrgðarhluti er að bregða fæti fyrir þá ríkisstj. sem nú sest að völdum, eða hvaða ríkisstj. sem hefði fundist, ef á að finna leið út úr því öngþveiti sem hér hefur ríkt undanfarna marga mánuði og má segja nokkur ár.

Afstaða mín til myndunar ríkisstj. á þessum stjórnarkrepputímum byggist á því mati mínu, að allar tilraunir stjórnmálaflokkanna og formanna þeirra hafa reynst árangurslausar og áframhaldandi stjórnleysi í landi okkar blasti við. Þegar svo skyndilega var ljóst, að möguleiki var fyrir meirihlutastjórn undir forsæti varaformanns Sjálfstfl:, Gunnars Thoroddsens, í samstarfi við Framsfl. og Alþb., taldi ég rétt að veita þeirri stjórnarmyndun brautargengi með því að lýsa yfir því, að ég mundi verja þá ríkisstj. gegn vantrausti. Að öðru leyti mun ég hér eftir sem hingað til taka afstöðu til mála á hv. Alþ. þegar ég hef kynnt mér þau hverju sinni og taka afleiðingum af því Sjálfstæði mínu. Málefnaleg afstaða mín til þessarar ríkisstj. fer því eftir þeim málum sem hún leggur fyrir hv. Alþ. hverju sinni, og ég veit að allir þm. eru sama sinnis.

Ég fagna því, að stjórnarkreppan á Íslandi er leyst, og vona að fljótlega taki hjólin að snúast eðlilega á ný. En við vitum í hvaða sjálfheldu þjóðfélagið hefur verið, ekki bara ríkisstj., Alþingi og stofnanir á vegum ríkisins, heldur sveitarfélögin og allar stofnanir á þeirra vegum líka. Því undirstrika ég, að ég vona að hjólin fari að snúast í þjóðfélaginu á eðlilegan hátt hið bráðasta.

Að lokum vil ég taka undir árnaðaróskir formanns Sjálfstfl. til hinnar nýmynduðu ríkisstj. og lýk máli mínu.