12.02.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 742 í B-deild Alþingistíðinda. (805)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. tók svo til orða áðan, — ég skrifaði það hjá mér, — orðalag hans var einhvern veginn á þá lund, að hann líti svo a að ákvörðun sú, sem hér hefur verið gerð að umræðuefni, hafi verið tekin þegar í s.l. viku og því væri raunar ekki við sig að sakast. Hv. þm. Halldór Ásgrímsson sagði að ákvörðunin hefði þegar verið undirbúin af fyrrv. ríkisstj. og væri því væntanlega ekkert við hæstv. núv. sjútvrh. að sakast. Ég vil aðeins taka það fram til upplýsingar í þessu sambandi, að hér er að sjálfsögðu um að ræða, eins og þm. hafa bent á, stórmál sem kemur við hagsmuni mjög margra þjóðfélagsþegna, og sá háttur var hafður á í fyrrv. ríkisstj., og mér skilst að það sé affarsælla að hafa almennt þann hátt á í öllum ríkisstj., að þegar ákvarðanir eru teknar í slíkum málum séu þær kynntar og bornar upp á ríkisstjórnarfundi og leitað eftir því, hvort ríkisstj. fæst til að standa að slíkri ákvörðun eða ekki. Ég vil taka það fram, að í þessu máli eins og öðrum hafði fyrrv. sjútvrh. náið samráð við fráfarandi ríkisstj., — eins og um öll þau mál sem hann fjallaði um bæði sem sjútvrh. og viðskrh. Ef upp kom einhver ákvarðanataka í slíku máli, þá hafði hann að sjálfsögðu samráð um það við ríkisstj., tilkynnti henni hvað til stæði, skýrði henni frámálsatvikum, gaf mönnum þann frest sem þeir kærðu sig um til að athuga mál o.s.frv.

Ég vil aðeins taka það fram, að þegar þetta tiltekna mál, loðnuveiðarnar, kom síðast til umræðu á fundi ríkisstj. Alþfl. nokkrum dögum áður en hún för frá völdum og þegar séð varð að ný ríkisstj. var að koma til valda í þessu landi, þá var sú ákvörðun tekin á ríkisstjórnarfundi, að það væri ekki eðlilegt eða rétt að sú ríkisstj. gerði eitt eða neitt til þess að binda hendur þeirrar ríkisstj., sem við var að taka, í máli eins og þessu, heldur þvert á móti léti það hjá líða að taka nokkra skuldbindandi ákvörðun í málinu svo að nýr sjútvrh. hefði af hálfu þeirrar fyrrv. algerlega óbundnar hendur um hvað hann hygðist gera. Þannig kom núv. hæstv. ríkisstj. og hæstv. sjútvrh. að þessu máli. Hann hafði það alfarið í sínum höndum hvaða ákvörðun tekin var. Fráfarandi ríkisstj. hafði engar skuldbindingar gert sem gerðu honum erfitt um vik í því vali. Hann hafði fullt valfrelsi og gat tekið þá ákvörðun og þá afstöðu sem hann taldi sannasta og réttasta. Ég dreg ekki í efa að sú ákvörðun, sem hæstv. sjútvrh. tók, er sú ákvörðun sem hann a.m.k. á þeirri stundu taldi vera rétta, þó svo kunni að vera að runnið hafi á hæstv. ráðh. tvær grímur síðan og hann hafi talið nauðsynlegt að reyna að ýta a.m.k. einhverjum hluta af ábyrgðinni af sínum herðum og yfir á aðra. En látum það vera.

Eins og fram hefur komið sýnist mjög sitt hverjum um þetta mál. Ég ætla aðeins að leyfa mér að benda á það, að hér liggur fyrsta ákvörðun sem ný ríkisstj. hefur tekið. Þetta er fyrsta stjórnvaldsathöfn nýrrar ríkisstj., sem saman var barin á síðustu klst. áður en umboðið rann úr höndum alþm., við mikinn fögnuð þorra þjóðarinnar eins og ráðh. í hæstv. ríkisstj. hafa þráfaldlega haldið fram. Hvað gerist svo hér á þingi þegar þessir vonglöðu veiðimenn setjast í sína tíu ráðherrastóla og fara að stjórna landinu? Um leið og fyrsta stjórnvaldsathöfn þeirra er kunngerð fer allt upp í loft hér á hinu háa Alþingi. Stjórnarsinnar hlaupa upp í ræðustól hver á fætur öðrum og lýsa því yfir að framkoma hæstv. sjútvrh. sé siðleysi. Þetta er ráðh. sem hv. alþm. eru nýbúnir að leiða til valda. Hans fyrsta stjórnarathöfn er á þeirra máli siðleysi, og hann er alvarlega varaður við því af tveimur þm. og stuðningsmönnum hans hér í þingmannaliðinu að voga sér nokkurn tíma í framtíðinni að taka sjálfstæða ákvörðun. Honum er hreinlega hótað úr þessum ræðustól, að ef hann leyfi sér í framtíðinni að hafa sjálfstæða skoðun eða taka sjálfstæða ákvörðun, þá skuli hann hafa verra af. Hvaðan kemur sú hótun? Jú, auðvitað frá þeim sem þykjast nú heldur betur vera farnir að ráða í þessu landi, þm. Alþb. Hæstv. sjútvrh. á ekki að komast upp með moðreyk fyrir þeim. Hann skal aldeilis hafa verra af ef hann í framtíðinni sýnir af sér það siðleysi að voga sér að hafa Sjálfstæða skoðun á málum. Þetta er nokkuð lærdómsríkt og vekur ýmsar spár um framtíð þessarar ríkisstj., hvað á gengur í fyrsta skipti sem hún hefur einhverja stjórnvaldsathöfn með höndum.

En það sem furðar mig sérstaklega og ég tel vera fyrst og fremst ámælisvert af hæstv. sjútvrh. í þessu máli, það er að hann skuli taka svo afdrífaríka ákvörðun sem hann hefur tekið án samráðs við samstarfsmenn sína í ríkisstj. M.a. kemur ákvörðun hans flokksbræðrum hans, ýmsum helstu stuðningsmönnum í eigin flokki, eins og hv. þm. Halldóri Ásgámssyni, mjög á óvart. Ég veit að hæstv. sjútvrh., formaður Framsfl., hefur á undanförnum vikum verið mjög gefinn fyrir yfirlýsingar, sem hafa komið við líklegustu og ólíklegustu tilefni um líklegustu og ólíklegustu menn og málefni. En að taka ákvörðun — látum vera hvort hún er rétt eða röng — í jafnafdrifamiklu máli og þessu og umdeildu án þess að hafa fyrir því að láta samráðh. sína svo mikið sem vita af því, það boðar að sjálfsögðu ekki gott. Það er alveg rétt hjá þeim þm., sem þetta hafa gagnrýnt, að þetta er ekki góð forspá um störf hæstv. ríkisstj. Við skulum láta það vera að vitna í orð annarra um þau efni, við skulum aðeins hafa þar til marks orð þeirra tvíburanna, hv. þm. Stefáns Jónssonar og Garðars Sigurðssonar.

Það er komið í ljós hver er afstaða þingflokks og þm. Alþb. til þessa máls. A.m.k. hefur þar ekki komið fram nema ein skoðun. Þeir eru á móti þessari ákvörðun hæstv. sjútvrh., og maður skyldi ætla að það sé sú skoðun sem almennt er ríkjandi í Alþb. Það er því þegar ljóst, að einn stjórnarflokkurinn er andvígur þessari fyrstu stjórnarathöfn hæstv. ríkisstj. Þeir Alþb.-menn leysa það sjálfsagt bara með bókun í ríkisstj., þeir hafa nú gert slíkt áður, og líta Sjálfsagt á þetta, eins og forsrh.-málið og varnar- og herstöðvamálið, sem smámál, eins og hæstv. ráðh. Svavar Gestsson gaf merkilega yfirlýsingu um í sjónvarpinu ekki alls fyrir löngu.

Hins vegar hefur ekkert vitnast enn þá um skoðanir Sjálfstfl. þversum, þ.e. þess brots af Sjálfstfl. sem skipar ráðherrastóla í þessari ríkisstj. Hvaða skoðun hefur Sjálfstfl. þversum í þessu máli?