12.02.1980
Neðri deild: 34. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í B-deild Alþingistíðinda. (823)

107. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég tel sjálfsagt að Alþ. veiti afbeina sinn til að afgreiða eða framlengja öllu heldur bráðabirgðafjárgreiðsluheimild ríkisstj. eins og hér er beðið um.

Ég vek athygli á því, kannske meira til gamans, að í frv. því, sem ég flutti fyrir hönd þáv. ríkisstj. um heimild til bráðabirgðafjárgreiðslna, voru ekki sett tímatakmörk þar sem ég taldi ekki æskilegt við þær aðstæður og raunar ekki hægt að setja tímatakmörk á þær greiðslur. En það var flokkur núv. hæstv. fjmrh. sem endilega vildi takmarka bráðabirgðagreiðslutímann við dagsetningu þá sem um er að ræða, 15. febr., og taldi einsýnt að það mundi meira en nægja og að gengið yrði frá málum fyrir þann tíma. Ég er að sjálfsögðu mjög ánægður með að flokkur hæstv. núv. fjmrh. skuli hafa komist að þeirri niðurstöðu að betur athuguðu máli, að þurft hefði að hafa bráðabirgðafjárgreiðsluheimildina öllu rýmri, og ekki kvarta ég yfir því og skal fúslega veita minn afbeina til að styðja að því. En ég vil vekja athygli á einu í þessu sambandi, og það er það sem ég held að verði að koma fram við meðferð málsins í n., á hvaða greiðsluáætlun hæstv. ríkisstj. og hæstv. fjmrh: byggir bráðabirgðafjárgreiðslubeiðni sína.

Í 1. gr. þess frv., sem samþ. var á Alþ. fyrir jólin og er nú orðið að þeim lögum sem beðið er um breytingar á, er rætt um að bráðabirgðafjárgreiðsluheimild eigi að ná til allra venjulegra rekstrarútgjalda og annarra þeirra gjalda sem talist geti til venjulegra fastra greiðslna ríkisins. Fjh.- og viðskn. bað um við meðferð málsins að fjmrn. legði fram greiðsluáætlun yfir tímabilið til 15. febr. svo ljóst væri hvaða greiðsluheimildir Alþingi væri að veita fjmrh. og ríkisstj. Sú greiðsluáætlun var lögð fram. Þar kom mjög skýrt í ljós að greiðsluáætlunin var gerð þannig, að um væri að ræða heimild til ríkisstj. til að greiða allan beinan og óbeinan launakostnað, ekki bara ríkisstarfsmanna, heldur líka stofnana eins og t.d. Búnaðarfélags Íslands, þar sem greiðsla ríkissjóðs til Búnaðarfélagsins er í raun réttri ekki annað en greiðsla launakostnaðar, og enn fremur að greiða verktökum og öðrum slíkum áfallinn kostnað sem hefði hlotist vegna gerðra samninga. En bráðabirgðafjárgreiðsluheimildin náði t.d. alls ekki til stofnkostnaðar í einni eða neinni mynd. — Og ég vil gjarnan skýra frá því að ég vildi í samræmi við stefnu Alþfl. um að reyna að vinna gegn miklum hallarekstri ríkissjóðs á fyrstu mánuðum eða vikum ársins semja og starfa eftir öllu strangari greiðsluáætlun en fjh.- og viðskn. var sýnd þegar heimildin var mér gefin. Mér er ekki kunnugt um hvernig á málum hefur verið haldið upp á síðkastið, en svo dæmi sé tekið um janúarmánuð var greiðsluáætlunin, sem við fylgdum, svo ströng að í janúarmánuði s.l. versnaði staða ríkissjóðs gagnvart Seðlabankanum eða voru útgjöld hans umfram tekjur aðeins um 800 millj. kr., en á sama tíma í jan. í fyrra voru útgjöld umfram tekjur 4.5 milljarðar, og hefur þó gert strik í reikninginn yfir 50% verðbólga í millitíðinni.

Nú hefði ég áhuga á og tel sjálfsagt og eðlilegt að hv. fjh.- og viðskn. þessarar d. fái greiðsluáætlun þá sem hæstv. fjmrh. er að biðja um heimild frá Alþ. til að starfa eftir. Ég vil einnig skjóta því vinsamlega að honum að athuga nú vel, hvort hann treysti sér til að starfa allt fram til 3. apríl 1980 án heimildar til að greiða svo mikið sem eina krónu úr ríkissjóði í eina eða neina framkvæmd sem getur talist til stofnframkvæmda. Ég vildi gjarnan að hæstv. fjmrh. athugaði það mál mjög vel áður en afgreiðsla frv. þessa verður til lykta leidd, því að ég er hræddur um að honum reynist harla erfitt að standa við slíka greiðsluáætlun, og í hans huga ætti að vera a.m.k. alveg ljóst um hvað hann er að biðja og þá fyrst og fremst hverju hann er ekki að óska eftir að sér sé heimilt.

Ég vildi sem sé gjarnan koma þeirri beiðni á framfæri við hæstv. ráðh., sem var komið á framfæri við mig á sínum tíma og mér fannst sjálfsagt og eðlilegt að sinna, að hann láti fylgja beiðni sinni nú greiðsluáætlun, sundurliðun í stórum dráttum á því sem hann er að biðja um að fá að greiða úr ríkissjóði til 3. apríl 1980 og hvort hæstv. fjmrh. er ekki fyllilega ljóst að miðað við frv., eins og það er úr garði gert, fær hann ekki heimild til að greiða svo mikið sem eina krónu í annað en laun og launatengd gjöld hjá ríkinu og stofnunum þess og umsamdar greiðslur til verktaka sem fyrrv. ríkisstj. er þegar búin að ganga frá. Þá mundi ég enn fremur hafa áhuga á að vita, og það lýtur auðvitað að greiðsluáætluninni, hvað hæstv. ráðh. hyggst selja innlánsstofnunum ríkissjóðsvíxla eða ríkisskuldabréf fyrir háa fjárhæð. Þetta er auðvitað þáttur í greiðsluáætlun sem Alþ. hlýtur að hafa hug á að fá eitthvað frekar að frétta af.

Um 3. gr. frv. hef ég ekkert nema gott að segja. Það er alllangur aðdragandi að því að hægt sé að gefa út ríkisskuldabréf eða spariskírteini, það krefst allverulegs og víðtæks undirbúnings. Það er því alveg rétt, að til þess að hægt sé að gefa slík bréf út í vor, t.d. til þess að þau nái hinum margumtalaða fermingargjafamarkaði, þarf að veita heimild til útgáfu þeirra nú þegar. Ég hafði þegar rætt við Seðlabanka Íslands um þessi mál og beðið hann að hefja undirbúning að útgáfu bréfanna, og ég hef ekkert við slíka útgáfu að athuga, enda tel ég mjög nauðsynlegt að ganga frá slíkri heimild eins og 3. gr. gerir ráð fyrir.