13.02.1980
Neðri deild: 35. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (833)

107. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur orðið við eindregnum tilmælum um að hraða afgreiðslu þess máls sem hér er til umræðu, og á fund nefndarinnar í morgun komu starfsmenn fjmrn. og gerðu grein fyrir þessu máli.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt. Fjarverandi afgreiðslu málsins voru Sverrir Hermannsson og Svavar Gestsson, og þrír nefndarmanna, þeir Albert Guðmundsson, Karvel Pálmason og Matthías Á. Mathiesen, undirrita nál. með fyrirvara.

Það kom fram sú ósk í nefndinni, að gerð yrði grein fyrir greiðsluáætlunum ríkissjóðs í febrúar og mars. Starfsmenn rn. töldu nokkur tormerki á því að gera slíkt svo vel væri, en hins vegar munu þeir gera það eftir því sem þeir best geta og koma þeim upplýsingum á framfæri. Þeir upplýstu hins vegar að áætlað væri að útgjöld í febrúarmánuði gætu numið u.þ.b. 30 milljörðum kr. og tekjur 25 milljörðum og útgjöld í mars 30 milljörðum kr. og tekjur 21 milljarði, þannig að gert er ráð fyrir verulegum halla á þessum mánuðum, eins og oft áður á þessum tíma árs.

Ég sé ekki ástæðu til að gera frekari grein fyrir þessu máli. Það voru lögð fram gögn í nefndinni um framkvæmd laga nr. 98/1979, um bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði í janúarmánuði. Ég sé ekki ástæðu til að gera nákvæma grein fyrir þeim gögnum, en vil þó geta þess, að niðurstöður tekna og gjalda í janúarmánuði voru þær, að tekjur voru 20 milljarðar 777 millj. kr. og gjöld 20 milljarðar 879 millj. kr. og rekstrarhalli á þessum tíma því aðeins 102 millj. kr.

Þessum gögnum fylgir yfirlit um það, hvað var greitt og hvað var ekki greitt í þessum mánuði. Sé ég ekki ástæðu til að gera frekari grein fyrir því, en vil aðeins ítreka það, að nefndin leggur til að frv. verði samþykkt, en nm. hafa ekki fengið þau gögn sem rn. hefur lofað okkur að muni koma til okkar varðandi greiðsluáætlun í febrúar og mars. Í sjálfu sér er þar fyrst og fremst um upplýsingaatriði að ræða til Alþingis og nefndarmanna og breytir ekki neinu efnislega varðandi þetta mál.