13.02.1980
Neðri deild: 35. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í B-deild Alþingistíðinda. (835)

107. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir nál. það, sem hér hefur verið lagt fram af formanni og frsm. fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar, með fyrirvara og tel ástæðu til að gera nokkra grein fyrir þeim fyrirvara.

Ég vil taka það fram í upphafi máls míns, að ég er sammála því og tel nauðsynlegt, að hæstv. fjmrh. eða ríkisstj. fái þá greiðsluheimild sem um er beðið í 1. gr., og geri ekki athugasemd við það. Ég vil minna á að ég taldi óþarfa að tímasetja þá greiðsluheimild sem fráfarandi ríkisstj. fékk á sínum tíma, og ég tel óþarfa enn þá að tímasetja þessa greiðsluheimild, þó að dagsetning sé í henni og hún eigi að gilda til 3. apríl n.k. Við skulum vona að hv. Alþingi takist að koma saman fjárlögum fyrir þann tíma.

En það er 2. gr. frv. sem ég vil vara við. Í aths. um hana segir svo, með leyfi forseta: „Í málefnasamningi ríkisstj. er gert ráð fyrir að athugað verði um kaup innlánsstofnana á ríkissjóðsvíxlum og ríkisskuldabréfum til skamms tíma til þess að fjármögnun á árstíðabundnum halla ríkissjóðs verði sem mest utan Seðlabankans. Í samræmi við þetta er leitað eftir lagaheimild til slíkrar lántöku“.

Ég er enn þá þeirrar skoðunar, að útgáfa á ríkisskuldabréfum eða — eins og hér segir — ríkissjóðsvíxlum sé löngu komin út fyrir öll þau bönd sem hinn almenni fjármagnsmarkaður hér á landi þolir. Og þar sem þessi árstíðabundnu vandamál ríkissjóðs hafa hingað til verið fjármögnuð af Seðlabankanum eingöngu, en Seðlabankinn er nú að sligast undir þeim byrðum sem ríkisstj. hvers tíma hefur sett á hans herðar, þá á nú að fara að sellast með þennan vanda inn á hinn almenna fjármagnsmarkað, þar sem eru hinar almennu opinberu innlánsstofnanir. Til viðbótar við þá bindiskyldu, sem er á viðskiptabönkunum við Seðlabankann, á nú að vísu ekki að skylda innlánsstofnanir til þess að kaupa þessa ríkissjóðsvíxla eða ríkisskuldabréf — þeir geta samkvæmt orðanna hljóðan neitað að gera það — en hugsunin er þó sú, að velta þessum vanda meira inn í viðskiptabankana en hingað til hefur verið og þar með fara í enn þá meiri samkeppni um hið almenna sparifé, sem stendur undir hinum frjálsa vinnumarkaði og atvinnufyrirtækjum almennt, en gert hefur verið hingað til. Ég vil enn þá einu sinni úr þessum ræðustól minna á að það, sem skilið er eftir af peningum í veltu í viðskiptabönkunum, það sem ekki er bundið af innlánsaukningunni hverju sinni, það fé er vinnutæki þjóðarinnar. Þetta eru verkfæri sem viðkomandi aðilar og viðskiptalífið allt notar á sama hátt og iðnaðarmenn nota sín verkfæri. Ég lít á peninga sem vinnutæki, og ef við tökum meira af þessum vinnutækjum heldur en þegar er gert frá hinum atmenna markaði, þá verður hann lamaður. Ég vil vara við því.

Að öðru leyti er ég sammála um þá heimild sem farið er fram á, þ.e. greiðsluheimildina sjálfa. Þó hefði ég getað gert athugasemdir við 3. gr. líka, þar sem enn þá kemur fram í stefnu þessarar ríkisstj. eins og annarra ríkisstj., að lánsfjármagnið til framkvæmda skuli sækja út á hinn almenna markað með aukinni sölu spariskírteina ríkissjóðs. Það er eiginlega sama málið og ég hef gert að umræðuefni í sambandi við 2. gr., svo að ég tel ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar. Það eru varnaðarorð, sem ég hef talað hér, við því að ráðast enn frekar inn á hinn frjálsa peningamarkað en þegar hefur verið gert með bindingu í Seðlabankanum á innlánsreikningum sparifjár í viðskiptabönkunum og svo þeirri sölu á ríkistryggðum bréfum sem þegar hafa verið sett á markaðinn. Auk þess hefur sala á þessum bréfum gengið svo illa að ég tel vafasamt að miklar framkvæmdir geti orðið á vegum hins opinbera ef það ætlar að treysta á þá sölu spariskírteina eingöngu eða að mestu leyti til framkvæmda á því kjörtímabili sem nú er að hefjast.