14.02.1980
Neðri deild: 37. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í B-deild Alþingistíðinda. (872)

44. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það hefur liðið alllangur tími frá því að þetta frv. var upphaflega lagt fram hér í hv. deild og þangað til það kemur til 2. umr. Það er í sjálfu sér síður en svo neitt óeðlilegt að svo langur tími skuli hafa liðið, og á það ekkert skylt við þær stjórnarmyndunartilraunir, sem staðið hafa yfir, eða þá löngu stjórnarkreppu, sem verið hefur í landinu. Skýringin er mjög einföld. Hún er sú, að hér er um mjög viðamikið og vandmeðfarið mál að ræða. Fjölmargir aðilar hafa óskað eftir að fá að tjá sig um það og hafa haft mjög skiptar skoðanir á því. Mönnum hefur þótt sjálfsagt og eðlilegt að leyfa þeim að koma sínum — ja, maður gæti næstum því sagt: vörnum við. Það er ekki síður ástæða og hefur ekki síður verið ástæða til að athuga málið mjög vandlega í nefnd, þar sem öllum var ljóst, alveg frá því að lögin nr. 40 frá 1978 voru sett, að mjög erfitt væri að segja fyrir um áhrif þeirra í einstökum atriðum — raunar nánast ógjörningur. Hins vegar vil ég, þó að ég hafi ekki tekið þátt í störfum fjh.- og viðskn. af þeim eðlilegu ástæðum að ég á ekki sæti í n., láta sérstaklega koma fram, að mér er og mætavel kunnugt um að formaður fjh.- og viðskn. Nd. hefur unnið mjög mikið og gott starf, eins og nm. raunar allir í þessu máli, en þó einkum og sér í lagi formaðurinn. Ég held að ef hans hefði ekki notið við hefði málið verið skemmra á veg komið en það þó er. Vil ég færa formanni n. kærar þakkir fyrir hlut hans í þessu máli.

Þó að margt sé enn óljóst í framkvæmd hinna nýju skattalaga, sem gengu í gildi um s.l. áramót, og enn séu mörg atriði þar mjög á huldu er Alþ. þó komið í þá tímaþröng að það verður að afgreiða breytingar við þau nú þegar til þess að stór vandræði skapist ekki við skattlagningu á árinu 1980 til viðbótar við þau vandkvæði sem þegar hafa orðið í því sambandi. Ég held að alþm. verði einfaldlega að taka á sig þá ábyrgð að reyna, eins og þeir hafa gert, að vanda eftir föngum afgreiðslu sína á þessu frv. og láta síðan slag standa þó að ekki sé enn fyllilega ljóst hver áhrif hinnar nýju skattlagningar verða, en treysta á tvennt í því sambandi. Í fyrsta lagi: Ef kemur í ljós við álagningu að mjög óvanalegir hlutir séu að gerast verði því þegar breytt, því að það er ekki tilgangur Alþ. að gera slíkt. Og í öðru lagi: Alþ. gefist tækifæri til að hlýða á skýrslu þegar á næsta haustþingi frá ríkisstj. eða hæstv. fjmrh. um hver reynslan hafi orðið af framkvæmd hinna nýju skattalaga, svo menn geti þá tekið málið til skoðunar á næsta þingi. Ég held raunar að óhjákvæmilegt sé að búa sig undir að gera það því að þegar nýtt tekjuskattskerfi eins og hér er um að ræða er innleitt mega menn búast við því, raunar er það næstum óhjákvæmilegt, að um nokkurra ára skeið þurfi að vera að sníða af þeim lögum ýmsa agnúa sem reynslan leiðir í ljós að á eru, en ómögulegt er að sjá fyrir.

Ég ætla ekki að fara ýkjalangt út í þær breytingar sem tillaga er gerð um á þskj. frá hv. fjh.- og viðskn. á frv. því sem ég lagði fram fyrr í vetur. Ýmsar breytingarnar eru að mínu áliti til bóta, aðrar kannske vafasamari. Flestar eru til að reyna að slá frekari varnagla við ýmsum atriðum í núverandi lögum sem menn óttast. En ég legg mikla áherslu á að víð endanlega afgreiðslu málsins verði reynt að semja um það milli allra þingflokka hvernig endanlega verði frá málinu gengið. Ég tel affarasælast í svona lagasmíð, sem allir þingflokkar hafa komið nálægt að meira eða minna leyti og bera meiri eða minni ábyrgð á, að þeir standi saman um afgreiðslu málsins. Ég get lýst því yfir fyrir hönd okkar Alþfl.-manna, að við erum reiðubúnir til að ganga til afgreiðslu víð 2. umr. þegar í dag og getum út af fyrir sig fallist á að 3. umr. verði þegar á morgun í hv. d. og reynt verði að ljúka umr. í d. fyrir helgi svo að hv. Ed. geti tekið við málinu þegar á mánudag. Ég vil engu að síður nota nokkurn tíma til að fara fáum orðum um skattamál almennt í sambandi við þá breytingu,sem gerð var með lögum nr. 40 frá 1978, sem komu til framkvæmda um s.l. áramót.

Eins og raunar kom fram þegar frv. til þeirra laga var lagt fram 18. apríl vorið 1978 gafst mjög lítill tími til að gaumgæfa þær miklu breytingar sem það frv., sem nú er orðið að lögum, gerði ráð fyrir að gerðar yrðu á skattakerfinu. Þó hafði að vísu nokkur tími gefist, því að á árinu áður hafði slíkt frv. verið sýnt þótt því hefði verið breytt í mjög veigamiklum atríðum á milli þinga.

Það var ýmislegt mjög athyglisvert við það frv. sem lagt var fram vorið 1978, — frv. það sem nú er orðið að lögum. Það kom þá þegar fram að þingflokkur Alþfl. tók mjög jákvætt í frv. þáv. hæstv. fjmrh., Matthíasar Á. Mathiesen, enda var í því frv., sem síðar varð að lögum, gengið mjög til móts við ýmis sjónarmið sem við Alþfl.menn höfðum haft í skattamálum og m.a. flutt till. um á þingi. Fyrsta till. okkar um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt var lögð fram á hinu háa Alþingi sjö árum áður en frv. það var flutt sem síðar varð að lögum nr. 40 frá 1978. Það er einkum og sér í lagi athyglisvert að gefa gaum hversu margt í hinum níu ára gamla tillöguflutningi okkar til breytinga á skattalögum fann sér leið inn í frv. sem nú er orðið að lögum nr. 40 frá 1978. Ég vil aðeins nota tækifærið til að fara örfáum orðum um þau atriði.

Í fyrsta lagi lögðum við til í tillögum okkar, sem eru nú orðnar næstum níu ára gamlar, að greint yrði á milli þess, hvort skattgreiðandi væri launþegi eða hefði tekjur af atvinnurekstri. Til móts við það sjónarmið var gengið í frv. hæstv. fyrrv. fjmrh., sem síðar er orðið að lögum.

Í öðru lagi var það eitt af meginatriðunum í skattamálatill. okkar, að við ákvörðun á skattskyldum tekjum einstaklinga af eigin atvinnurekstri væru laun hans áætluð eins og telja mætti eðlilegt í samræmi við vinnuframlag hans og við þau laun sem greidd væru fyrir sambærileg störf á hinum frjálsa vinnumarkaði. Í gildandi lögum, sem voru lögleidd vorið 1978, var einnig gengið til móts við þetta viðhorf Alþfl.

Í þriðja lagi lögðum við til í tillögum okkar, að reglum um afskriftir eigna væri breytt þannig að þar væri tekið tillit til eðlilegrar verðmætarýrnunar miðað við verðmæti eignar þegar afskrift færi fram og að jafnaði miðað við mat á upphaflegum endingartíma þannig að sama eign yrði ekki afskrifuð oftar en einu sinni. Það var einnig gengið til móts við þetta viðhorf okkar í þeim skattalögum sem nú eru í gildi og komu til framkvæmda um s.l. áramót.

Þá lögðum við einnig til að hagnaður af sölu eigna yrði skattlagður að svo miklu leyti sem hann ætti ekki rót að rekja til rýrnunar á verðgildi peninga. Það er grundvallaratriði í þeirri skattalöggjöf sem sett var að tilhlutan hæstv. fyrrv. fjmrh. Matthíasar Á. Mathiesen.

Þá höfðum við einnig ákveðin sjónarmið uppi um hvernig beita ætti sérsköttun hjóna. Við tókum eindregna afstöðu gegn þeirri reglu sem hæstv. fyrrv. ríkisstj. kom upphaflega fram með í fyrsta frv. sínu um þessi efni, þ.e. að framkvæma sérsköttun hjóna samkv. helmingaskiptareglunni svokölluðu, og flutti þingflokkur Alþfl. brtt. við það frv. Hæstv, fyrrv. ríkisstj. féllst á sjónarmið Alþfl. í þessu máli og framkvæmd sérsköttunar hjóna, sem er í gildandi lögum, er í mestu nákvæm eftirmynd af þeirri brtt. sem þingflokkur Alþfl. flutti. Á vorþinginu 1978 var það tekið fram einkum og sér í lagi af okkar hálfu, að við gætum því í stórum dráttum fallist á frv., sem síðar varð lög nr. 40 frá 1978, og greiddu því atkv. þeir þm. Alþfl. sem þá sátu á Alþ., enda töldum við með réttu, eins og miklu skýrar og gleggra var fram tekið þá en ég geri nú, að í hinum nýju lögum væri að mörgu leyti í mjög veigamiklum atriðum gengið til móts við þær tillögur Alþfl. um breyt. á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem Alþfl. flutti fyrst fyrir níu árum á hinu háa Alþingi og endurflutti síðan í lítið breyttri mynd svo til á hverju þingi síðan.

Það var aðeins ein meginbreyting gerð eða einum meginþætti breytt í umræddum lögum nr. 40 frá 1978 sem við vorum andvígir, en þar á ég við tillöguna sem var gerð um skattstiga og ýmsa afslætti.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að það hefur lengi verið stefna Alþfl.- manna að fella ætti niður tekjuskatt af almennum launatekjum. Vegna ýmissa séraðstæðna í landi okkar eiga margir Íslendingar ekki völ á öðru en að vinna mjög langan vinnudag, ekki aðeins vegna tekjuþarfar, heldur líka vegna þess að menn eru þar að bjarga frá skemmdum miklum verðmætum sem þjóðarbúið þarf á að halda. Það er því við slíkar aðstæður og í slíkum þjóðfélögum mjög varhugavert að íþyngja almennu launafólki mjög mikið í sköttum þannig að það þurfi að borga hæsta skatthlutfall af venjulegum meðalaflatekjum og að stór hluti af þeim aukavinnutekjum, sem fólk vinnur sér inn sökum sérstakra aðstæðna í þjóðfélagi okkar fari með þeim hætti sem hátekjuskattur til ríkisins. Það var sem sé sjónarmið okkar í tekjuskattsmálum, sem er alkunna því að víð höfum á undanförnum árum ítrekað það á Alþ., að tekjuskattur yrði felldur niður af almennum launatekjum. Við teljum það tvímælalaust vera einhverja mestu og raunhæfustu kjarabót sem hægt er að veita í þessu landi. — Má ég aðeins benda hv. formanni fjh.- og viðskn. á að hann fer í ranga tösku. (Gripið fram í. — Forseti: Ég hef hér skellu til að skaka að mönnum ef ókyrrð rís upp í salnum.) Ég hélt að hæstv. forseti þessarar ágætu d. þyrfti engrar skellu við í því sambandi, en ekki er verra að hafa hana.

Það hefur verið stefna okkar Alþfl.-manna að fella niður tekjuskatt af atmennum launatekjum: Við höfum viljað gera það í áföngum, og það var meginatriðið sem við töldum ábótavant í lögum nr. 40 frá 1978 þegar flutt var frv. að þeim á Alþ., að inn í þau lög vantaði þá stefnumótun í sambandi við niðurfellingu tekjuskattsins, sem við höfðum gerst málsvarar fyrir á hinu háa Alþingi. Brtt. þær, sem við fluttum við þetta frv., lutu því nær eingöngu að breytingum á skattstigum þeim, sem tillögur voru gerðar um í frv., með það að markmiði að fella niður tekjuskatta af almennum launatekjum. Það var meginaths. sem við gerðum við frv. sem síðar varð lög nr. 40 frá 1978. Það var meginbreytingin sem við vildum ná fram á því frv. Að öðru leyti gátum við Alþfl.-menn fallist í öllum meginatriðum á þær till., sem hæstv. þáv. fjmrh. gerði, og greiddum þeim raunar atkv. og höfum því alveg frá því að þessi lög voru sett verið stuðningsmenn þeirrar breytingar sem þar var verið að gera.

Trúir þeim viðhorfum okkar og afstöðunni, sem kom fram þegar lög nr. 40 frá 1978 voru til meðferðar á Alþ., höfðum við í þeirri ríkisstj., sem lét af störfum nokkru fyrir helgina, undirbúið breytingu á skattstigum þeirra laga með það að markmiði að fella niður tekjuskatt af almennum launatekjum í áföngum á tveim árum. Sú endurskoðun, sem við gerðum á fjárlagafrv. hæstv. fyrrv. fjmrh. Tómasar Árnasonar, var fyrst og fremst í þá átt að lækka áætlun um heimtu tekjuskatts í því frv. um 7.2 milljarða. Með því boðuðum við í framkvæmd þá stefnu okkar að fella niður tekjuskatt af almennum launatekjum í áföngum þannig að fyrsti áfangi í þeirri baráttu yrði tekjuskattslækkun hjá einstaklingum í þjóðfélaginu um 7.2 milljarða frá fjárlagafrv. Tómasar Árnasonar. Okkur bar að sjálfsögðu skylda til að sýna fram á það með tillögum um skattstiga, hvernig ætti að framkvæma tekjuskattslækkun og hvernig ætti að koma því við að fella niður tekjuskatt af almennum launatekjum í áföngum. Frv. um það efni hafði verið undirbúið í fjmrn., en þar sem hér var um pólitískt deilumál að ræða vildum við ekki flytja það, á meðan til umr. var í Alþ. og til meðferðar þar frv. um breyt. á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem nú er hér til umr., til að blanda ekki saman efnisatriðum þess frv. og því mikla pólitíska deilumáli sem ákvörðun skattstiga er. Engu að síður, þegar ljóst var að til stjórnarskipta mundi koma, tókum við þann kost að leggja fram á Alþ. frv. til l. um breyt. á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem við gerðum tillögur um, hvernig ætti að ákveða skattstiga þannig að við yrði staðið í fyrsta lagi tillögur í fjárlagafrv. okkar Alþfl.-manna um lækkun tekjuskatts um 7.2 milljarða á árinu 1980 frá tillögum fjárlagafrv. Tómasar Árnasonar, og í öðru lagi, hvernig ætti að framkvæma algera niðurfellingu tekjuskatts af almennum launatekjum á tveim árum. Þetta frv. er á þskj. 152. Það er 101. mál þessarar hv. deildar.

Í stuttu máli sagt er þar gerð tillaga um hvernig afnema eigi tekjuskatt af almennum launatekjum meðalfjölskyldu í tveimur áföngum, á árinu 1980 og á árinu 1981, þannig að árið 1980 yrði tekjuskattur lækkaður um 7 milljarða, eins og við gerðum tillögu um í fjárlagafrv. okkar, og á árinu 1981 yrði tekjuskattur lækkaður um svipaða upphæð. Þetta yrði gert með ákvörðun skattstiga og skattvísitölu og því markmiði náð á þessum tveimur árum, að almenn meðallaunþegafjölskylda í landinu yrði tekjuskattslaus. Þetta gerðum við með því að leggja til að skattstigi yrði ákveðinn, eins og segir í frv. á þskj. 152, þannig að af fyrstu 2.5 millj. kr. tekjuskattsstofni greiðist 15%, af næstu 3.5 millj. kr. tekjuskattsstofni 30%, en 50% af því sem umfram er 6 millj. kr. tekjuskattsstofn. Munurinn milli hæsta og lægsta skatthlutfalls yrði þannig meiri samkv. tillögum okkar en lög nr. 40 frá 1978 gefa tilefni til. Almennir launþegar kæmust því ekki strax upp í hæsta tekjuskatt, eins og raunin hefur verið á undanförnum árum. Raunar var einnig gert ráð fyrir að bilið milli hæsta og lægsta skatthlutfalls yrði meira en var við álagningu tekjuskatts á árinu 1979, en það var gert í því skyni að hagnýta það svigrúm, sem við lögðum til í fjárlagafrv., fyrst og fremst til hagsbóta þeim tekjulægstu og um leið til eins mikillar hækkunar skattfrelsismarka tekjuskatts til ríkisins og mögulegt er.

Brtt. okkar voru hugsaðar, eins og fyrr segir, sem fyrri áfangi á þeirri tveggja ára braut að fella niður tekjuskatt til ríkisins af almennum launþegafjölskyldum. Hugmynd okkar var að stíga lokaskrefið á næsta ári, árinu 1981. Samkv. áætlun Þjóðhagsstofnunar námu meðaltekjur heimila kvæntra verkamanna nálægt 6.7 millj. kr. á árinu 1979, meðaltekjur iðnaðarmanna 7.5 millj. kr., en meðaltekjur sjómannaheimila nálægt 9 millj. kr. á sama ári. Í tillögum okkar var gengið út frá því, miðað við upplýsingar Þjóðhagsstofnunar, að meðallaunþegafjölskylda hefði haft 7 millj. kr. í tekjur á árinu 1979 og að tekjuöflunin skiptist þannig milli hjónanna að annað þeirra hefði aflað 5 millj. kr., en hitt 2 millj. kr. Þessi tekjuskipting er að sjálfsögðu lauslega áætluð. Þá reiknuðum við með að þessi fjölskylda hefði fyrir tveimur börnum að sjá og annað þeirra væri á skólaskyldualdri. Við gerðum einnig ráð fyrir að fjölskylda þessi hefði haft það lítil vaxtagjöld að henni væri hagstætt að nota 10% lágmarksfrádráttinn. Ef um væri að ræða húsbyggjandafjölskyldu af þessari stærð með hærri vaxtagjöld hefði hún mátt hafa hærri tekjur til að sleppa skattlaus til tekjuskatts, því að þá hefði vaxtafrádráttur hennar numið hærri upphæð en hér er gert ráð fyrir. Samkv. áætlunum okkar um tekjur og aðstæður meðallaunþegafjölskyldu í þessu landi hefði hún að samþykktum tillögum okkar á þskj. 101 aðeins borið 176 þús. kr. tekjuskatt á árinu 1980, sem er mjög mikil lækkun frá þeirri tekjuskattsheimtu sem áætluð var í frv. hæstv. fyrrv. fjmrh., Tómasar Árnasonar. Á árinu 1981 hefði þessi launþegafjölskylda orðið skattlaus til ríkisins. Fjögurra manna fjölskylda - annað barnið er á skólaskyldualdri, hjónin vinna bæði úti, konan hálfan daginn, sameiginlegar tekjur þessarar fjölskyldu eru 7 millj. kr. á árinu 1979 framreiknað til verðlagsbreytinga á árinu 1981, sem enginn getur náttúrlega sagt um hverjar verða, — hefði samkv. tillögum okkar orðið skattlaus. Ef um hefði verið að ræða húsbyggjandafjölskyldu sem hefði haft meiri vaxlagreiðslur en í hinu ímyndaða dæmi okkar hefðu skattleysismörk hennar verið þeim mun hærri, hún hefði mátt hafa þeim mun meiri tekjur sem vaxtaútgjöldunum nemur.

Með þessu móti gengum við sem sé til þess verks sem við höfðum heitið með tillöguflutningi á Alþ., m.a. þegar frv. hæstv. fyrrv. fjmrh. Matthíasar Á. Mathiesen var til umr. Við höfðum eina meginaths. að gera við það frv., að skattstiga vantaði í það frv. sem fullnægði þeirri skoðun okkar að fella ætti niður tekjuskatt af almennum launþegafjölskyldum í áföngum. Við gerðum ráð fyrir því í fjárlagafrv. okkar, sem hefur nú verið lagt til hliðar, að slíkt yrði gert í tveimur áföngum, og fluttum um það frv. á þskj. 152.

Meginniðurstöður af tillögum okkar hefði í fyrsta lagi orðið til þess að meðalskattgreiðslur einstaklinga til ríkissjóðs hefðu lækkað um 16%. Hjá hjónum hefði meðaltalslækkun orðið 10%, en hjá einhleypingum 29%. Skattalækkunin hefði orðið tiltölulega meiri hjá barnmörgum en barnfáum fjölskyldum, t.d. um 25% hjá hjónum með þrjú börn eða fleiri, en aðeins 6% hjá barnlausum. Þannig hefðum við reynt að ganga til móts við þá launþega sem hafa átt sérstaklega erfiðar aðstæður umfram aðra, t.d. þá sem hafa fyrir mörgum börnum að sjá. Einnig hefði skattalækkun þessi tekið sérstakt tillit til hópa eins og einstæðra foreldra sem að óbreyttum lögum nr. 40 frá 1978 og með þeirri framkvæmd, sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrv. hæstv. fyrrv. fjmrh., hefðu farið mun verr út úr tekjuskattsálagningu á árinu 1980 en þau gerðu á árinu 1979. Við gerðum einnig ráð fyrir að gengið yrði til móts við sjónarmið einstæðra foreldra þannig að skattaleg staða þeirra yrði verulega bætt frá því sem hún væri ella.

Ég vildi láta þetta koma fram við þessa umr. svo að ljóst sé að við höfum gert og lagt fram þær breytingar á lögum nr. 40 frá 1978 sem við börðumst fyrir þegar það mál var til umr. á Alþ. vorið 1978.

En það voru fleiri í stjórnarandstöðu en Alþfl. Ég vildi gjarnan óska eftir því við hæstv. forseta d., sem náð hefur vopnum sínum úr Ed., að hann léti — nú, hæstv. fjmrh. er þarna. Þá er það í lagi, því að ég ætlaði einmitt að ræða nokkuð við hann. (Forseti: Enda á forseti ekki að gæta bróður síns.) Alveg rétt.

Það voru fleiri í stjórnarandstöðu vorið 1978 en við Alþfl.-menn. Það var flokkur hæstv. fjmrh., Alþb., einnig. Hann hafði sitthvað að athuga við lög nr. 40 frá 1978, — sá ágæti flokkur sem nú tilnefnir fjmrh. í þeirri prýðisgóðu ríkisstj. sem nýlega hefur tekið við völdum. Ég er hér með nál. á þskj. 871 frá 99. löggjafarþingi, dags. 2. maí 1978, undirritað af Ragnari Arnalds, núv. hæstv. fjmrh. Og það er einkar athyglisvert, að á sama tíma og við Alþfl.-menn lögðum í okkar tillöguflutningi megináherslu á að fá fram breytingu á skattstigum til lækkunar á skattlagningu samkv. hinu nýja frv. flutti flokkur hæstv. núv. fjmrh. hvorki meira né minna en ellefu brtt. við frv. sem nú er orðið að lögum nr. 40 frá 1978. Það voru nú engar smábreytingar sem flokkur hans vildi ná fram. Því var spáð, að tekjur af tekjuskattsheimtu á því ári yrðu 21.5 milljarðar. Flokkur hæstv. fjmrh. lagði fram ellefu brtt. við frv. sem samtals hefðu lækkað skattheimtuna samkv. því um 13.5 milljarða af 21.5. Ja, starfsmaður þingflokks Alþb. er fljótari en ég að reikna prósentureikning, ég treysti mér ekki út í það svona „pá stáende fod“, eins og danskurinn mundi segja, en a.m.k. fólu þessar ellefu brtt. hæstv. núv. fjmrh. í sér allverulega lækkun tekjuskattsheimtu. Og nú er mín einfalda spurning þessi: Á milli 2. og 3. umr. gefst nokkur tími til að skoða lög nr. 40 frá 1978 nokkru betur.

Má ekki vænta þess, að hæstv. fjmrh. hafi á milli 2. og 3. umr. áhuga á því að koma að einhverri af þeim ellefu breytingum á lögunum sem hann heimtaði í eigin persónu í nafni flokks síns að gerðar yrðu vorið 1978?

Það voru engar smábreytingar hjá hv. frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. á því herrans ári 1978, því að hann sagði hvorki meira né minna en að megingallar frv., sem nú er orðið að lögum, væru að allar horfur yrðu á því, að skattlagning fyrirtækja og rekstraraðila yrði áfram smávaxin. Verulegur hluti atvinnurekstrar í landinu, sagði hæstv. ráðh., sleppur með að borga lítinn sem engan tekjuskatt. Það voru sem sé launamannaskattar fyrst og fremst sem verið var að leggja á með lögunum nr. 40/1978. Skyldi nú ekki hæstv. fjmrh. og flokkur hans vilja breyta þessu þegar flokkurinn fær tækifæri til, ekki aðeins í ríkisstj., heldur sem yfirbjóðandi skattalaga og skattaframkvæmdar í landinu? Ekki mun standa á okkur Alþfl.-mönnum að veita hæstv. fjmrh. einhvern afbeina í þessu sambandi, þó að fjarri verði að hann verði eins mikill og er hæstv. ráðh. lagði til á sínum tíma að þurrka svo til alveg út tekjur af tekju- og eignarskatti í landinu. Ég ætla ekki að ganga svo langt til móts við hann.

Hvað vildi hæstv. ráðh. gera til breytingar á þeim lögum sem við erum nú að fjalla um? Hverjar voru þessar ellefu breytingar? Hann vildi gerbreyta ákvæðum frv. um fyrningar. Hann vildi fella niður viðbótarfyrningarheimild af skattskyldum hluta söluhagnaðar. Hann vildi hækka skattstiga lögaðila úr 45 í 53%, — hann á væntanlega eftir að sýna það þegar hann leggur fram skattstigafrv. sitt. Hann taldi sjálfsagt að undanþiggja nær alla tekjuskatti sem náð hafa 67 ár aldri. Nú leikur mér hugur á að vita um hug hans í því máli. Við getum komið þeirri breytingu fram milli 2. og 3. umr. að undanþiggja nær alla, sem náð hafa 67 ára aldri, tekjuskatti. Ég er reiðubúinn að styðja slíka brtt. komi hún frá hæstv. fjmrh. Auk þess flutti hæstv. ráðh. þá brtt. og barðist mjög eindregið fyrir því ásamt núv. starfsmanni þingflokks Alþb. að gera leigu fyrir íbúðarhúsnæði frádráttarbæra frá skatti. Menn nefndu það með mörgum fögrum orðum, hæstv. fjmrh. og starfsmaður þingflokks Alþb., í umr. á þinginu vorið 1978, hversu gríðarleg mismunun væri í þessu landi milli annars vegar þeirra, sem byggju í eigin húsnæði, og hins vegar hinna, sem þyrftu að borga öðrum leigu. Þeir félagarnir tveir lögðu til að þetta atriði yrði metið í skattalögum, eins og segir með leyfi forseta:

„Ég flyt till. um,“ sagði hæstv. fjmrh., „að gera leigu fyrir íbúðarhúsnæði frádráttarbæra frá skatti, allt að 25 þús. kr. á mánuði fyrir einstakling og 50 þús. kr. fyrir hjón, með þeim rökum“ o.s.frv., o.s.frv.

Það þarf sjálfsagt ekki að minna hæstv. ráðh. á þetta. Og nú spyr ég: Vill hæstv. ráðh. ekki nota það tækifæri, sem gefst nú milli 2. og 3. umr., til að koma þessari breytingu fram?

En meginatriði málsins var þó 11. till. hæstv. ráðh. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Í ellefta lagi flyt ég till. um að hækkun skattvísitölu fylgi hækkun tekna milli ára og að þetta verði bundið í lögum þannig að menn geti ekki leyft sér sams konar hundakúnstir og hæstv. fjmrh. leyfir sér nú um þessar mundir.“

Ég legg til að hæstv. fjmrh. flytji till. um það milli 2. og 3. umr., að menn banni hundakúnstir með þeirri aðferð sem hann lagði sjálfur til vorið 1978. Ég þarf ekki að taka fram, að við Alþfl.-menn erum eindregið á móti hundakúnstum. Við erum fúsir til þess að fallast á slíka brtt. frá hæstv. fjmrh.

Hæstv. núv. fjmrh. dró saman í nál. sínu, dags. 2. maí 1978, hvað væri helst að þeim lögum sem hann nú fjallar um. Endurmat eigna hækkar fyrningargrunninn stórkostlega. Þetta er óbreytt. Söluhagnaður verður sjaldan skattlagður vegna víðtækra heimilda til viðbótarfyrningar. Ekki hefur það breyst mikið. Fenginn arður af hlutabréfum af hlut í fyrirtæki, allt að 1/2 millj. kr. hjá hjónum, verður skattfrjáls. Það er enn þá. Taldi hæstv. ráðh. að nálgaðist hreinan fjármálaglæp að hafa þetta í skattalögum og hrósaði sér og Framsfl. sérstaklega fyrir að hafa afnumið slíkt úr lögunum á sínum tíma. Er ekki hæstv. fjmrh. tilbúinn að afnema það núna? Fjórðung af hagnaði félaga er heimilt að leggja til hliðar áður en skattur er lagður á. Taldi hæstv. fjmrh. það megingalla á lögunum sem hann fjallar um. Er hann ekki enn sömu skoðunar?

Og hæstv. fjmrh. hélt áfram í nál. sínu, með leyfi forseta:

„Ýmsar fleiri ívilnunarreglur mætti nefna. Samanlögð áhrif af öllum þessum smugum hljóta að verða þau, að verulegur hluti atvinnurekstrar í landinu sleppur með að borga lítinn sem engan tekjuskatt.“

Við skulum nú láta vera flestallar af þessum brtt. Það verður sjálfsagt ekki mikill tími til að koma þeim við, enda ekki víst að þær njóti stuðnings í hæstv. ríkisstj., þó að hæstv. fjmrh. sé að sjálfsögðu enn þá jafnáhugasamur um þær, nema þessi eina um hundakúnstirnar. Væri nú ekki ráð að banna, eins og menn ætla að banna verðbólgu með lögum í sambandi við niðurtalningar og fleira slíkt, — að banna hundakúnstir með lögum í skattalöggjöf, eins og hæstv. ráðh. lagði til vorið 1978 varðandi ákvörðun um skattvísitölu? Ég ætla því að láta mér nægja svona í lokin að ítreka þessa einu fsp. til hæstv. ráðh.: Mun hann ekki óska eftir því nú milli 2. og 3. umr., að sú hundakúnstaaðferð, sem hann ræddi um vorið 1978, verði alfarið afnumin svo að hæstv. ráðh. falli ekki í þá freistni að fara að leika sömu hundakúnstir og hv. þm. Matthías Á. Mathiesen lék í sinni fjmrh.-tíð?