18.02.1980
Neðri deild: 38. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 813 í B-deild Alþingistíðinda. (883)

44. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það hefur ekki komið til orða í ríkisstj. að „senda þingið heim“, eins og hv. þm. orðar það.

Á fyrsta fundi ríkisstj. 9. febr., daginn eftir að hún var mynduð, var rætt um vinnutilhögun og undirbúning ýmissa mála. Þá bar á góma hvort æskilegt væri að fella niður fundi Alþ. um skeið til þess að ríkisstj., eins og ríkisstj. oft áður, gæfist tími og næði til þess í byrjun starfsferils síns að undirbúa mál, fyrir Alþingi. Það varð niðurstaðan á þeim ríkisstjórnarfundi, að ekki væri tímabært að taka neinar ákvarðanir í því efni, áður þyrfti að sjá hversu fram yndi þingmálum sem þyrfti að afgreiða á næstunni. Ríkisstj. hefur því engar ákvarðanir tekið um það, hvort hlé yrði á fundum Alþingis.

Hins vegar er eitt sem liggur nokkuð ljóst fyrir.

Norðurlandaráðsþing kemur saman í Reykjavík 3. mars og stendur til 7. mars. Það mun vera föst venja, að þingforsetar felli niður fundi Alþingis þá daga sem Norðurlandaráðsþing stendur yfir hér. Það þykir nauðsynlegt m.a. vegna þess, að Norðurlandaráð þarf á alþingishúsinu að halda til ýmissa starfa. Mér er tjáð af skrifstofustjóra Alþ. að það hafi jafnan verið svo, þegar Norðurlandaráðsþing er haldið hér í Reykjavík, að þá hafi þingfundir fallið niður þá daga.

Ég hef gert ráð fyrir því, að á ríkisstjórnarfundi á morgun verði rætt um þetta mál, hvort æskilegt sé að fella niður þingfundi um eitthvert skeið af þeim ástæðum sem ég greindi. Engin ákvörðun hefur verið tekin enn. En ég vil fullvissa þingheim um það, að áður en nokkur ákvörðun verður tekin í því efni verður málið rætt við þingflokkana og ekki síst formenn þeirra.