21.02.1980
Neðri deild: 40. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 902 í B-deild Alþingistíðinda. (999)

Umræður utan dagskrár

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að taka hér til máls, en út af þeim orðum, sem hér hafa fallið í sambandi við þetta mál, þykir mér rétt að gefa nokkra skýringu.

Þannig var, að um síðustu helgi hafði ég samband við ríkisskattstjóra, samkv. því sem mér hafði verið falið á fyrsta fundi félmn., til að láta undirbúa þau samræmingaratriði sem þyrfti að gera á frv. til l. um tekjustofna sveitarfélaga í sambandi við meðferð frv. um tekjuskatt hér á hv. Alþingi. Þetta var undirbúið s.l. sunnudag hjá ríkisskattstjóra og úfbúið sem brtt. við það frv. um tekjustofna sveitarfélaga sem hér um ræðir. Á fund í félagsmálanefndum beggja d. s.l. þriðjudag komu svo ríkisskattstjóri og framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga, og var þetta mál rætt ítarlega á fundi félmn. í báðum deildum í fyrsta lagi þær samræmingartillögur, sem þurfti að gera, og enn fremur tvö efnisatriði sem einnig var gerð grein fyrir í þessum till. Þessi efnisatriði voru um það í fyrra lagi, að taka upp úr núgildandi lögum um tekjustofna sveitarfélaga ákvæðu um 10% álag á útsvör miðað við óskir sveitarfélaga og leyfi viðkomandi ráðh., og í öðru lagi að breyta gjaldskrá við álagningu aðstöðugjalda að því er varðar landbúnað.

Þessar till. voru ræddar á þessum fundi s.l. þriðjudag, og þar sem við vissum ekki annað en ætti að afgreiða þetta mál ef um það næðist samkomulag, þá var gert ráð fyrir því, að annar fundur yrði s.l. miðvikudag, í gær, og að nefndarfólk kynnti þessar hugmyndir fyrir þingflokkunum til þess að geta tekið afstöðu til málsins á miðvikudagsfundi, þeim fundi sem átti að halda í gær. En þessi fundur var haldinn í morgun og þá lá fyrir afstaða þingflokks Alþb., þingflokks Framsfl. og þingflokks Sjálfstfl. til málsins. Það, sem gerðist á þessum fundi, var það, að samkomulag varð um að leggja fram sameiginlegt álit félmn. í sambandi við þau samræmingaratriði sem þurfti að gera vegna samþykktar tekju- og eignarskattsfrv. hér á hv. Alþ. í gær. Það var samþykkt að leggja þetta til sem sameiginlegt álit frá n. Hins vegar voru efnisatriðin tvö, sem ég gat um áður, tekin út úr, og það var á valdi þingmanna í þessari n., ef þeir vildu flytja um þau sem sérstaka brtt. við frv. hér á hv. Alþingi.

Það, sem síðan hefur gerst, er það að tíminn var stuttur og ég hef fengið aðstoð starfsmanna ríkisskattstjóra til að útbúa þessar till. og nál. Að sjálfsögðu er ætlunin, þegar það er komið úr vélritun, að leggja það fyrir einstaka nm. til undirskriftar eða staðfestingar, þó að ég hafi um það upplýsingar að það sé ekki algild regla þegar n. er sammála um mál og niðurstaða n. er bókuð á sameiginlegum fundi. En þetta verður að sjálfsögðu gert samkvæmt þeim ábendingum sem hér hafa komið, enda var aldrei ætlunin að þvinga hér fram einhvern málatilbúning. Hins vegar vil ég taka það fram, að mér hefur aldrei borist til eyrna annað en að það ætti að reyna að koma þessu máli í gegnum afgreiðslu þingsins nú, ef um það yrði samkomulag í viðkomandi nefnd eða nefndum. Það hefur ekki borist til mín annað en hvatning frá hæstv. félmrh. um að reyna að afgreiða þetta mál í framhaldi af samþykkt tekjuskattslaga, af þeirri einföldu ástæðu að öll sveitarfélög á Íslandi bíða eftir afgreiðslu þess. Ég vil benda hv. þd. á það, að ekki er nóg að afgreiða hér með hraði breytingar á frv, um tekju- og eignarskatt, ef þetta frv., sem er gjörsamlega samtengt hinu, á ekki að ná afgreiðslu hér á hv. Alþ. Ég bendi á það, að fjöldi sveitarstjórna bíður með fjárhagsáætlanir sínar til 2. umr. eftir því, hver verður niðurstaða Alþingis í sambandi við þann tekjustofn sem þetta frv. gerir ráð fyrir, bæði að því er varðar útsvör og aðstöðugjöld.